06.11.1947
Efri deild: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Flm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Það er nú langt liðið á fundartímann og ekki hægt að hefja miklar umr. Ég get tekið það fram, að ég þarf ekki, vegna þess að málið er kunnugt frá fyrra þingi, að flytja langt mái nú, en get að mestu leyti vísað til þeirrar ræðu, sem ég flutti við 1. umr. hér á síðasta þingi og grg., sem því fylgir. Hv. þm. kannast við það, að málið hefur verið rætt í báðum deildum þingsins áður, næstsíðast í Nd. og var vísað frá með rökst. dagskrá, þar sem vitamálaskrifstofunni var falið að láta fara fram betri undirbúning um málið en áður hafði verið. Síðan var málið flutt hér í þessari d. og náði þá samþykki við 2. umr. eftir miklar breyt. Nú höfum við flm. ákveðið að flytja málið í þeirri mynd, sem það var samþ. við 2. umr. hér.

Það sem ég vildi sérstaklega taka fram, er að minna á helztu rök fyrir því, að málið er flutt, sem við teljum vera nægilegt til þess, að það fái samþykki Alþ.

Í fyrsta lagi er farið fram á, að ríkið taki að sér að byggja fiskihöfn við Suðausturland, þar sem um langt skeið eða upp undir 30 ár, hefur nú verið aðalfiskihöfn Austurlands. Það er ástæða til og nauðsynlegt að hefjast nú handa um aukna og bætta hafnargerð. Eins og kunnugt er, er vélbátaflotinn að verða stærri en áður, og það gerir það að verkum, að á þessum stað getur nú fiskiflotinn af Austurlandi ekki stundað veiðar sem áður og verður þá að leita frá þessum fiskimiðum þarna og bætast við flotann, sem stundar veiðar hér í Faxaflóa.

Í öðru lagi er þarna um að ræða 300 manna hrepp, sem hefur ekki aðstöðu til að vinna þau mannvirki, sem nauðsynlega þarf að gera og ekki sanngjarnt að ætlast til að hann ráðist í það, þar sem hér er um hagsmunamál heils landsfjórðungs að ræða. Ég vil þá í sambandi við það minnast á það atriði, sem nefnt er í grg. frv. og sýnt er fram á, hversu mikil verðmæti hafa verið í þeim fiski, sem flutzt hefur á land nú á síðustu árum, sem sýnir greinilega, að þarna er um að ræða svo nauðsynlegan stað fyrir atvinnulíf landsins, að þjóðin hlýtur að bíða tjón, sé það ekki tekið til athugunar að skapa þarna þá aðstöðu, sem nauðsynlegt er.

Enn fremur vil ég minna á það, að þinginu hafa borizt margar áskoranir frá sjómönnum og útgerðarmönnum af Austurlandi um að samþykkja þetta frv. Er meðal annars á þskj. birt undirskrift helztu af 138 borgurum á Austfjörðum, og voru þar með a. m. k. allir þeir sjómenn og útgerðarmenn, sem ekki voru beinlínis á þeim tíma staddir við fiskveiðar í Faxaflóa. Auk þess hefur komið áskorun frá hafnarn. Hafnarkauptúns. Þetta sýnir greinilega, að með þessu máli er mjög fylgzt í fjórðungnum og einróma krafa, að það úr þessu nái samþykki þingsins.

Vegna þess, að fundartíminn er á þrotum, verð ég að láta þetta nægja.

Nú skal ég síðast geta þess, að þótt málið hafi verið samþ. hér við 2. umr. á síðasta þingi, er ég ekki á móti því, að því verði nú vísað til sjútvn., en vænti þess, að n. afgreiði það hið bráðasta.