13.02.1948
Efri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (2782)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef nú því miður ekki haft tækifæri til að fylgjast með þessum umr, en langar til þess að segja um málið nokkur orð, áður en það fær endanlega afgreiðslu úr deildinni.

Hugmyndin um byggingu landshafna byggist á því fyrst og fremst að viðkomandi hreppsfélög séu þess varla umkomin að ráðast í byggingu þessara mannvirkja, sem í flestum tilfellum er mjög kostnaðarsöm, á þann hátt, sem æskilegt væri vegna legu, aflavona og ýmissa annarra möguleika, sem þar gætu verið fyrir hendi, ef góð hafnarskilyrði væru. Fyrir lítil sveitarfélög yrðu fjárhagsörðugleikar kannske það erfiðasta, og gæti það orðið þeim ofviða að standa straum af rekstrinum meðan hafnirnar væru að vinna sig upp. Þessir landshafnarstaðir. sem komið hafa til greina, eru einir 5 eða 6 á ýmsum stöðum við landið og hafa verið ræddir flestir ýtarlega á undanförnum þingum, svo að ég skal ekki fara út í það enda málið í heild sinni rætt ýtarlega. En það, sem kom mér til að standa upp, var það fyrst og fremst, að ég vildi gjarnan fá leyfi til þess að skýra d. frá því, hvernig ríkinu hefur gengið að koma í framkvæmd þeim einu landshafnarlögum, sem þegar eru orðin að veruleika, lögum sem landshafnargerð í Keflavík og Njarðvíkum. Þau voru eins og kunnugt er, samþ. fyrir nokkru síðan hér á Alþ. og ríkisstj. heimilað að hefja framkvæmdir og vinnu fyrir allt að 10 millj. kr. og taka nauðsynleg lán í því skyni. Þegar þessi l. voru samþ., stóðu yfir framkvæmdir í miðjum klíðum, aðallega í Keflavík, en að nokkru leyti einnig í Njarðvíkum. Þessum framkvæmdum varð að ljúka, og eftir að ríkisstj. hafði yfirtekið eignirnar og þar með um leið skuldbundið sig til að sjá verkinu farborða, varð hún að sjá um framkvæmdir úr því. En þá kom það fyrir, sem hefur gert mjög mikið strik í reikninginn, að hvernig sem leitað var, var ekki hægt að fá nóg lánsfé til þessara framkvæmda, og þess vegna varð á fyrsta stigi að stöðva þessar framkvæmdir í Keflavík og Njarðvíkum. Ég vona nú fyrir mitt leyti, að þar sé eingöngu um bráðabirgðaörðugleika að ræða, sem muni verða einhvern veginn viðráðanlegir á næstunni, svo að halda megi verkinu áfram. En þó hafa þessir örðugleikar, eins og ég sagði valdið því, að ekki hefur verið hægt að halda áfram með verkið.

Þetta er því miður ekki eina verkið, sem þannig er ástatt um og l. hafa verið samþ. um á Alþ. Get ég í því sambandi nefnt ýmsar verksmiðjubyggingar, svo sem tunnuverksmiðju, lýsisherzluverksmiðju, símaframkvæmdir o. fl. Alþ. hefur falið ríkisstj. að koma í framkvæmd þessum mannvirkjum öllum, eftir því sem fjármagn kann að vera til, en það hefur hins vegar ekki verið, til svo mikið fé, að hægt hafi verið að ráðast í þessi mannvirki, eins og Alþ. hafði gert ráð fyrir. Ég geri þess vegna ráð fyrir því, að ef samþ. verða l. um landshöfn í Höfn í Hornafirði, mundi það verða til þess, að hafnarn. Hafnarkauptúns mundi kippa að sér hendinni um allar frekari framkvæmdir, því að þar með verður hún ekki lengur aðili, eftir að landshafnarl. hefðu verið samþ. Hins vegar mun fiskveiðasjóður eiga fullt í fangi með að koma í framkvæmd landshöfn í Keflavík og ýmsum öðrum framkvæmdum, sem enn skortir fjármagn til, þannig að setning landshafnarl. á þessum stað gæti beinlínis orðið til þess, eins og hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að framkvæmdir stöðvuðust í bili, þar sem hafnarn. Hafnarkauptúns yrði þar með sett úr leik og gæti ekki haldið áfram nauðsynlegum aðgerðum, sem hún gæti kannske ráðið við í bili, ef í smáum stíl væri, en ríkið mundi ekki taka þarna upp framkvæmdir í stærri stíl, fyrr en það hefði fyrst séð farborða þeim framkvæmdum, sem áður hafa verið samþ. l. um og að margra dómi liggur meira á, sem sé landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum. Það getur að vísu verið álitamál, hvaða hafnarframkvæmdir eru mest aðkallandi. en ég tel, að fyrir því megi færa ýmis rök, að landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum komi þar í allra fyrstu röð, enda býður sá staður upp á meiri möguleika en Höfn í Hornafirði, að henni ólastaðri. Ég hefði því talið, að meðan þessir lánsfjárörðugleikar eru, væri ekki heppilegt, að þetta frv. yrði samþ., sem mundi hafa þær afleiðingar, sem ég hef nú lýst, heldur yrði hafnarn. staðarins gert kleift að reyna að halda uppi endurbótum á höfninni innan þeirra takmarka, sem hennar möguleikar standa til, en láta lagasetningu um landshöfn bíða, þar til meiri líkur eru fyrir, að ríkið geti komið henni í framkvæmd. Að samþykkja l. án þess að sjá um leið fyrir fjárútvegun til þeirra framkvæmda, er l. fjalla um, er algerlega ómerkt og þýðingarlaust, en ef Alþ. getur hins vegar séð um leið fyrir fjármunum til framkvæmdanna og bent ríkisstj. á. hvar fé á að taka til þeirra, annaðhvort ákveðið það á fjárl. eða tryggt nauðsynlegt lánsfé, horfir málið allt öðruvísi við. Ég mæli ekki þessi orð til þess að leggja stein í götu málsins, því að ég hef ávallt síðan ég fór að kynnast hafnarmálum Hafnarkauptúns reynt eftir fremsta megni að greiða götu þessara mála, en tel, eins og lánsfjármöguleikum okkar er komið, það engan greiða við málið að samþykkja l. um landshöfn á þessum stað á þessu stigi málsins.