26.02.1948
Efri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2792)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þegar þetta frv. var síðast til umr. hér í d., óskaði ég, að umr. yrði frestað, vegna þess að ég vildi ræða hið nýja viðhorf við hv. sjútvn. Hefur það nú verið gert, og varð meiri hl. n. sammála um að bera fram nýja brtt. Er sú brtt. við 16. gr. og er á þessa leið:

„Ríkisstjórninni er heimilt að fresta framkvæmd þessara laga, þar til kostnaðarupphæðin skv. 2. gr. hefur verið tryggð landshöfninni með lánum eða framlagi beint úr ríkissjóði.“

Ástæðan til þessarar brtt. er í rauninni tvenns konar. Í fyrsta lagi er hún sú, að vitað er fyrir fram og yfir lýst af samgmrn., að ekki er enn fé fyrir hendi til að hægt sé að hefja framkvæmdir strax, og því er það, eins og meiri hl. n. hefur haldið fram, að frv. þetta yrði, ef það yrði samþ. óbreytt, aðeins pappírsgagn. Hin ástæðan er sú, að ef frv. þetta er gert að l. óbreytt, getur það orðið til þess, að framkvæmdir stöðvist um óákveðinn tíma, og væri, það illa farið, jafnmikið og liggur á höfninni. Ef höfnin yrði yfirlýst landshöfn og ríkið sæi sér ekki fært að leggja fé í hana eins og til skilið er, þá er viðbúið, að hafnarsjóður sæi sér ekki fært að greiða þessi 60%, sem ætlazt er til, að hann greiði. Ætlazt er til þess, ef brtt. verður samþ., að ekkert í 1. þessum komi strax til framkvæmda. Frv. felur að sjálfsögðu í sér, að til þess þurfi samþykki fjárveitingarvaldsins á Alþ. Meiri hl. n. lítur svo á, að þetta sé mikið nauðsynjamál, enda hefur það líka komið fram við atkvgr. í d., en hins vegar telur þessi sami meiri hl. ekki fært fyrir stj. að framkvæma þessi l. eins og nú er ástatt fyrir ríkissjóði og leggur því fram brtt., sem væntanlega verður borin upp og rædd.