26.02.1948
Efri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í C-deild Alþingistíðinda. (2797)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 2. umr.n taldi ég mig ekki geta greitt því atkv. Ástæðurnar, sem ég hafði til þessarar afstöðu, voru einkum þær að nú stendur yfir bygging landshafnar í Njarðvíkum eins og kunnugt er, en þar hefur gengið mjög illa að afla fjármagns, vegna þess að heildarlán hefur enn ekki fengizt. Þetta hefur haft þær afleiðingar, að ríkissjóður hefur nú orðið að leggja fram fé án þess að raunverulega sé ráð fyrir því gert, og mun þessi upphæð vera orðin á þriðju millj. kr. Ég leit svo á í sambandi við þetta frv., að á þessu stigi málsins væri ekki rétt að bæta fleiri landshöfnum við, á meðan ekki gengi betur að útvega fjármagn til framkvæmdanna.

Það liggja að sjálfsögðu rök til þess, að byggja þarf höfn í Hornafirði, en þó held ég, að hún sé ekki frekar aðkallandi en höfnin í Njarðvíkunum. Nú hefur þetta frv. svo mikið fylgi í d., að það var samþ. hér við 2. umr. þrátt fyrir aðvaranir mínar viðvíkjandi fjárskorti til framkvæmdanna, og í sjálfu sér er ekkert við því að segja, því að sjálfsögðu hefur meiri hl. d. það á sinu valdi, hvað hún samþykkir. En þegar athugað er, hvernig ástatt er fyrir ríkissjóði nú, tel ég að till. sú, sem hér er fram komin frá meiri hl. sjútvn., eigi fullan rétt á sér, enda þótt frv. komist í gegnum þingið. Í fyrsta lagi vegna þess, að það er þýðingarlaust að samþykkja framkvæmdir nema séð sé um leið fyrir hinni fjárhagslegu hlið málsins, og í öðru lagi er það ekkert ánægjulegt fyrir Alþ. og ekki til að auka virðingu þess, að það sé að setja lög, sem algerlega séu byggð í lausu lofti. (HV: Ætli það hafi ekki komið fyrir fyrr?) Að mínu áliti hefur það skeð of oft, og teldi ég ekki óviðeigandi, að haldið væri frá þeirri hálu braut. Ég álít því, að það sé rétt að heimila drátt á framkvæmdum í þessu máli, þar til séð hefur verið fyrir hinni fjárhagslegu hlið málsins á einn eða annan hátt. Ef hv. d. vill hins vegar ekki fylgja þessari till., vil ég leyfa mér að efa, að það fylgi hugur máli hjá þeim, sem á þessu stigi hafa samþ. frv., og gefi það tilefni til að ætla, að samþykkið væri frekar til að sýnast.

Það liggja nú þegar fyrir allmargar skuldbindingar, sem Alþ. hefur gert og ekki hefur verið hægt að framkvæma vegna fjárskorts. Þess vegna er það leið til að skapa öngþveiti að auka nú á skuldbindingar ríkissjóðs án þess að gera frekari ráðstáfanir til þess að afla fjármagns. Það hefur komið fram gagnrýni á Alþ. fyrir það, að það hafi ekki verið nægilega gætið í málefnum, sem snerta fjárhaginn, og verður það að teljast réttmæt aths., en það leiðir ekki alveg af sjálfu sér, að þótt þeirri leið hafi verið fylgt, þá sé nauðsynlegt að halda áfram sömu leiðina.