11.11.1947
Efri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í C-deild Alþingistíðinda. (2809)

73. mál, bindindisstarfsemi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég lagði þetta frv. fram á síðasta þingi skömmu fyrir þingslit, og varð það ekki útrætt. Í sjálfu sér skýrir frv. sig sjálft í grg. Ég held, að engum geti blandazt hugur um það, að drykkjuskapur hér á landi sé meiri en góðu hófi gegnir. Um hitt má deila, með hverjum hætti vænlegast sé að berjast gegn honum. Ég get sagt það óhikað sem mína skoðun, að ég tel bann eða höft ekki líklega leið í þessum efnum, heldur verður þar að koma til þroski einstaklinganna og manndómur í því að fara með þessa hluti sem aðra. Enginn vafi er á því, að einn þátturinn í þeirri viðleitni er sá að efla bindindisatarfsemi í landinu, og er nauðsynlegt, að henni sé veitt betri aðstaða en verið hefur nú um hríð. Frv. er flutt til þess að bæta úr þessu. Samkvæmt því er ráðgert, að ríkið leggi fram ríflega fjárhæð til bindindisstarfsemi, en að hún sé miðuð við tekjuafgang þann, sem verður af Áfengisverzlun ríkisins, að vísu ekki þannig, að áfengissalan standi beinlínis undir þessu, og er séð fyrir því, að bindindismenn tapi ekki fjárhagslega á því, þótt árangurinn af bindindisstarfseminni verði á þann veg, að hagnaður af áfengissölunni minnki. Má deila um þetta fyrirkomulag, eins og sjálfsagt má deila um það, hvort eðlilegt sé, að bindindisstarfsemin fái styrk úr ríkissjóði eða að einstaklingar standi meira undir henni en verið hefur. En þar sem greinilegt er, að þessa starfsemi þarf að efla og hæpið er að einstaklingar verði fáanlegir til þess að leggja fram nógu háar fjárhæðir í þessu skyni, hygg ég, að annað vænlegra úrræði sé ekki fyrir hendi en að ríkið styrki starfsemina á einn eða annan veg, og hef ég þó eftir töluvert vandlega athugun ekki komið auga á aðra heppilegri leið en þessa. — Vænti ég, að hv. d. sýni málinu þann velvilja, að hún leyfi því nú að ganga til n. og greiði síðan fyrir framgangi þess.