20.12.1947
Efri deild: 43. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég verð að svara hv. 7. landsk. þm. nokkrum orðum. Hann segir, að þetta komi ranglátt niður á mönnum á sama skipi. Hvernig er það ranglæti? Annars vegar er maður, sem á heima konu með 4 – 5 – 6 börn, sem þarf að matreiða fyrir, hvort sem maðurinn kemur heim að borða eða ekki. Hins vegar er maður, sem leigir herbergi úti í bæ og þarf að kaupa sér mat. Það er mikill aðstöðumunur hjá þessum tveimur mönnum. Það er allt annað. Það kostar minna fyrir manninn, sem fer burt frá heimili sínu, hvort hann borðar heima eða ekki, heldur en hinn, sem þarf að kaupa matinn. Þar að auki lætur hann það á móti sér að yfirgefa fjölskyldu sína, meðan hinn er ef til vill að leitast við að skapa fjölskyldu síðar meir. Í hinu kemur fram ranglæti. Ég nefni dæmi, sem eru í hverri sveit. Ég nefni mann, sem er í vinnumennsku og alltaf hefur fengið fæðið sem tekjur. En við hlið hans eru 4 menn á heimilinu. Við skulum segja, að þessir menn fái sama kaup, en það er lagt við hans kaup, fæðið, sem hann fær, en dregið frá kaupi hinna. Með þessu er stefnt að því, að engin fastráðin hjú verði til, allt lausafólk, sem er þessa stundina hjá þessum og hina hjá hinum.

Þá sagði hv. þm. (GÍG), að ég hefði viljað segja, að erfitt yrði að framkvæma þetta. Ég skal nefna dæmi. Það er alþekkt saga um landið, að þegar maður kom á heimili mikils virðingarmanns, sagði tengdafaðir hans: „Já, hann var nú heima í nótt.“ Hann var nefnilega aldrei heima. Hvar ætlar þm. að fylgjast með fæðisdögum hans? Hvar ætlar þm. að fá seðla hans? Hvernig ætlar hann að fylgjast með því? Það leikur ekki á tveim tungum, að eins og maður þarf að kaupa fæði, þegar hann er frá heimilinu, á hann að fá fæðiskostnað, og af þessum hlaupastörfum hefur þessi maður nokkur þúsund kr. á hverju ári í tekjur. Ég fullyrði, að það er hér um bil ómögulegt að fylgjast með þessu. Ég viðurkenni fúslega, að það er álitamál, hvenær á að telja mann forsjármann heimilis eða ekki. Það liggur undir úrskurð viðkomandi yfirvalds á hverjum tíma, en ég held ekki, að þau tilfelli séu svo mörg, að það verði ósköp erfitt að skera úr því.

Ég vara alvarlega við að samþykkja þessa till. Hún mun draga á eftir sér verulegan dilk, ef hún verður samþykkt, og lækka tekjuskattinn miklu meira en hv. 7. landsk. gerir sér ljóst, og það er af því, að þótt fæðið sé ekki nema 12 kr. sinnum :165, dregst það alls staðar frá ofan frá og lækkar þann hluta teknanna, sem hæstur tekjuskattur hvílir á. Það eru margir, sem finnst þetta lítið af tekjum manna, en þetta dregst frá toppnum og setur menn í annan „skala“. Þess vegna lækka skattarnir miklu meira en menn gera sér í hugarlund fljótt á litið. Annars skal ég ekki vera með neinar spár um það, hve miklu þessi skattalækkun nemur í heildinni, en hún er veruleg, því að það er fjöldi manna, sem hún nær til. En það er verst, hvað þetta er ranglátt, því að það ýtir undir það, sem það ekki á að gera. Ef þetta yrði framkvæmt í nokkur ár, mundi það verða til þess, að enginn maður yrði eftir þann tíma í ársvinnu í sveit. Þeir mundu allir verða komnir í lausamennsku, og það vil ég ekki láta kalla yfir okkur. Ég held það ætti aðeins að gilda um sjómenn þetta undantekningarákvæði, og mætti þá bara setja „sjómenn“ í stað „forsjármanna heimila“.