01.03.1948
Efri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (2812)

73. mál, bindindisstarfsemi

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur farið gegnum hendur allshn. Þegar n. barst frv., sneri hún sér fyrst til Stórstúku Íslands til þess að heyra undirtektir hennar gagnvart þessu máli og hvaða till. hún hefði fram að færa í málinu. Álit Stórstúkunnar hefur borizt til n. í bréfi, og fylgir það hér með nál. sem fylgiskjal, þar sem Stórstúkan lýsir ánægju sinni yfir þeim skilningi, sem frv. virðist bera vott um, að góðtemplarareglunni sé nú mikil nauðsyn á allmiklu fé til þess fyrst og fremst að geta eignazt hæfilegt húsnæði í höfuðborginni fyrir starfsemi reglunnar, og að ríkinu beri skylda til þess að gera reglunni þetta fjárhagslega kleift. Þetta er náttúrlega alveg rétt hjá Stórstúkunni, og ég verð að játa, að það er miklu viðkunnanlegra að gefa ríkisstj. í eitt skipti fyrir öll heimild til þess að verja fé til bindindisstarfsemi í landinu og þar með góðtemplarareglunni en að reglan sé alltaf að betla um styrki, sem þingið lætur henni í té með hangandi hendi og allmiklum eftirtölum. Það er því ekki nema eðlilegt, að stúkan tæki fegins hendi þessari hreyfingu, sem nú er hér á þingi.

Það hefur verið ýmsum breytingum háð, hvað framlagið hefur verið til Stórstúkunnar, — ég held frá 100 þús. kr. upp í allt að 200 þús. kr. Okkur í meiri hl n. þótti nokkuð stórt spor stigið, ef frv. væri samþ. eins og það liggur fyrir, og þótti því rétt að takmarka framlagið, að minnsta kosti þar til séð yrði, hver geta ríkissjóðs væri til þess að leggja fram féð. Við tókum því það ráð að draga mikið úr þessu, þannig að það væri 0,75% af hreinum ágóða áfengisverzlunarinnar, sem lagður væri fram til bindindisstarfsemi. En færi svo, að hagnaður áfengisverzlunarinnar yrði meiri en 40 millj. kr., þá hækkaði einnig framlagið til reglunnar. Því að eins og allir sjá, er rýmra um fé í ríkissjóði, ef almenningur hefur ráð á að kaupa svo mikið áfengi. Og í öðru lagi, að þegar selt er mjög mikið áfengi, þá er um leið vissulega meiri þörf að efla regluna og bindindisstarfsemi í landinu. Því töldum við þetta rétt ráðið í þessu efni, en stilla þó í hóf fjárframlaginu og sjá, hvernig útlitið yrði.

Ég veit, að þetta má telja að einhverju leyti vonbrigði fyrir Stórstúkuna, að n. vill ekki samþykkja frv. eins og það var lagt fram, en allir hljóta þó að sjá, að með till. n. er þó stigið mikið spor í áttina, Því að þarna mundi góðtemplarareglan fá eitthvað um 500 þús. kr., þó að það sé ekki endilega víst, að það fari allt til reglunnar, en gera má ráð fyrir, að því yrði varið til bindindisstarfsemi í landinu. En þetta er aðeins heimild fyrir ríkisstj., sem hér er um að ræða. Hún er ekki skyldug til þess að leggja fram þetta fé, ef hún telur sig févana til þess.

Eins og ég hef tekið fram, þótti okkur meiri hl. n. of mikið að samþykkja frv. eins og það lá fyrir, og ég geri ráð fyrir, að sá nm., sem er fjarstaddur, hafi svipaða skoðun og við hinir, en um skoðun fimmta nefndarmannsins er mér ekki til hlítar kunnugt í þessu máli.