01.03.1948
Efri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

73. mál, bindindisstarfsemi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vona, að hv. þm. Dal. (ÞÞ) þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur út af taugaóstyrk mínum, og ég vil vænta þess, að hann létti þeim áhyggjum alveg af sér. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. dómsmrh. (BBen). að hann taldi sig hafa borið sig saman við forráðamenn góðtemplarareglunnar áður en hann hefði samið þetta frv. Játaði hann, að þeim hefði ekki verið með öllu geðfellt, að tekjur þær, sem bindindismenn fái til þess að berjast gegn áfengisbölinu í landinu, væru bundnar við hundraðshluta af áfengissölu hjá ríkinu. En hæstv. dómsmrh. sagði: Þó fengust þeir til að sætta sig við það. — Síðan vitnaði hann til þess, að fyrir lægju eindregin meðmæli góðtemplara til fylgis við þetta frv., sem hér er til umr., eins og það lægi fyrir frá sinni hendi. Ég get nú ekki samþykkt, að það sé rétt mælt af hæstv. dómsmrh., að hér liggi fyrir þessi eindregnu meðmæli með frv. frá góðtemplurum, sem hann talaði um. Þeir segja, að þar sem ekki séu líkur á því, að þeir fái nauðsynlegt fé til þessarar starfsemi með öðrum hætti en þessum, vilji þeir mæla með samþykkt frv. Mér virðist það skína í gegnum þessi ummæli, að þeir telji sig verða að sætta sig við þetta frv., þar sem þeir muni ekki fá fé til sinnar starfsemi að öðrum kosti. Það lá hér fyrir till. um 300 þús. kr. fjárveitingu til bindindishallar í Rvík. Þeirri beiðni var synjað. Templarar hafa því rekið sig á það, að þeim hefur verið neitað um fé úr ríkissjóði eins og þeir telja sig þurfa til þess að starfrækja bindindisstarfsemi hér í höfuðstaðnum. En þá er þeim boðið upp á að fá fé. — eftir till. hv. þm. Dal. hvorki meira né minna en 300 þús. kr., ef áfengissala ríkisins nær vissu hámarki. Ég endurtek það, að ég álít, að þetta sé það svívirðilegasta form, sem hægt sé að hafa á því að verja fé af hálfu þess opinbera til þess að vinna á móti því böli, sem áfengisneyzla hefur í för með sér. Og ég tel, að það að hafa þetta form á þessu geti ekki verið af heilindum sprottið. Og hvað snertir brtt. n. þá eru þær grímuklæddar. Ég skil ekki, ef ríkissjóður er á annað borð fær um að verja 300 þús. kr. eða 400–500 þús. kr. til þessara mála, eftir þeim leiðum að setja þessa greiðslu í samband við áfengissölu ríkisins, að hann sé það þá ekki eins með því að verja þessu fé beint úr ríkissjóði. Því að í ríkissjóði lenda blóðpeningarnir af áfengissölunni fyrr eða síðar. Ég sé ekki annað en hagur ríkissjóðs leyfi það sama í báðum tilfellum, hvort sem farið er eftir aðferð frv. eða peningarnir eru greiddir beint úr ríkissjóði.

Það var ekki að mínu áliti nein getsök, að heilindi hefðu ekki ráðið því formi, sem haft er á þessu frv., heldur tel ég mig byggja það á reynslu frá síðasta þingi. Þá flutti ég till. um héraðsbönn. Það mál kom á dagskrá snemma á þinginu, og svo kom það aftur á dagskrá, eftir að ég hafði rekizt í því. En eftir að það var tekið á dagskrá aftur, urðum við flm. varir við, að það var tekið aftur út af dagskrá. Og þegar spurt var, hvers vegna það væri tekið af dagskrá, var gefið upp, að það væri eftir ósk frá hæstv. dómsmrh., að það væri tekið af dagskrá. Þá var ekki bindindisáhugi hans meiri en það, að hann vildi ekki greiða götu þeirrar þáltill., sem þá lá fyrir um héraðsbönn, heldur tafði hann fyrir henni, og hún var tekin af dagskrá eftir beiðni frá honum. Þess vegna tel ég mig hafa fulla ástæðu til að ætla, að hæstv. ráðh. hafi ekki tekið slíkum sinnaskiptum frá því í fyrravetur, að hann sé svo iðrandi út af þessum aðgerðum eða öðrum í garð bindindismanna, að honum hefði þótt sjálfsagt að bjóða bindindismönnum fé til starfsemi sinnar. Og ég byggi á þessu, sem ég hef nú sagt, að ekki sé af heilindum fram borið þetta frv. En ég þóttist sjá, að með birtingu bréfsins, sem fylgir nál., hefði hv. allshn. viljað láta það verða öllum landslýð kunnugt, hvert álit góðtemplarareglan hefði á þessari aðferð. Nú hefur hér verið í ræðum vitnað til þess, að meðmæli Stórstúkunnar séu fyrir hendi um þetta frv. En það sést af bréfi Stórstúkunnar, sem prentað er sem fskj. með nál, meiri hl. n., að hún sætti sig við þá leið, sem farin er í frv., þar sem önnur leið „hafi verið reynd án árangurs,“ en telur eðlilegra, að fé hefði verið veitt „beint úr ríkissjóði, án þess að slík fjárframlög væru háð sölu Áfengisverzlunar ríkisins,“ eins og stendur í bréfi Stórstúkunnar. Ég held, að það liggi fyrir mótmæli gegn forminu á því rausnarlega tilboði, sem hv. allshn. hefur tekið upp í brtt. sinni. (ÞÞ: Ekki hafa þau verið send n.) Nei, ég hefði varla búizt við því, að n. væri sýnd sú kurteisi, því að ekki hefur n. sýnt Stórstúkunni þá kurteisi að sýna henni brtt. A. m. k. er það ekki prentað sem fskj. hér með brtt. n. Það má furðu sæta, ef Stórstúkan mótmælir ekki þessari brtt. og nál., sem fylgir. Ég gæti hugsað mér, að hv. allshn. ætti eftir að fá svipuð mótmæli frá bindindisstarfseminni í landinu, eins og hetjurnar, sem að ölfrv. standa, hafa fengið. Óheilindin þar í garð bindindismanna áttu að hyljast með till. um sjúkrahúsbyggingar, sem hefði verið nær að láta vera till. um að byggja drykkjumannahæli eða vitfirringahæli. Það hefði verið drengilegra. Og hér hefði í þessu máli, sem fyrir liggur, verið drenglegra að láta skína í eitthvað annað en bindindishöll, að bindindismenn skuli fá svo eða svo mikið hækkandi framlag sem hundraðhluta af áfengissölu í landinu — jú, guðvelkomið —, ef þeir vilji lúta svo lágt að þiggja það.

Ég veit ekki, hvort bindindismenn eru fjölmennir í Dalasýslu. En ég vona, að þeir séu það sterkir, að þeir eigi eftir að þakka fyrir þessar trakteringar við kjörborð.