04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (2824)

73. mál, bindindisstarfsemi

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr., en ég heyri, að svo margir þurfa að vitna hér um þetta stóra mál, að ég held, að það sé þá rétt, að ég verði einnig í þeirra hópi.

Eins og næstsíðasti ræðumaður sagði, er þetta mál eitt af okkar stærstu vandamálum. En hins vegar virðist mér, að það hafi verið oft svo, að minnsta kosti hér á hæstv. Alþ.,hv. þm. hafa staðið býsna andvígir ýmsum till., sem fram hafa verið bornar af áhugamönnum til úrbóta þessu stóra vandamáli. Okkar sorglega reynsla er líka sú, að ríkissjóður hefur að verulegu leyti tekjur sínar af áfengissölu. Og ég hygg, að það sé alveg sama, hverjir fara með völd í þessu landi, í það minnsta nú næstu árin, að þá telji þeir örðugt að afnema þennan tekjustofn með öllu.

Í þessu landi hefur starfað félagsskapur, sem hefur það markmið að draga úr og útrýma áfengum drykkjum, og hefur honum orðið margt vel ágengt. Margir drykkjumenn hafa snúið við á þeirri braut og gerzt bindindismenn, sumir lengri eða skemmri tíma, sumir ævilangt. En það er í raun og veru ekki nema ein leið til þess að lækna þá menn. sem fallið hafa fyrir Bakkusi, og þeirri stefnu hef ég fylgt, en það er, að áfengi sé þurrkað alveg út úr landinu. En ég ætla ekki að tala með svo mikilli bjartsýni að halda því fram, að það sé neinn möguleiki á því eins og er.

Í frv. hæstv. dómsmrh. má segja, að komi fram viðleitni til þess að reyna að finna leið til þess að hjálpa þeim félagsskap, sem ég nefndi, til þess að reyna að vinna að umbótum á þessu sviði. Og skil ég vel, hvers vegna frv. hans er fram komið. Á síðasta Alþ. lá fyrir beiðni frá Stórstúku Íslands um það að verja nokkru fé til bindindisstarfsemi fyrir regluna hér í bænum. En um leið lágu fyrir beiðnir um fjárstyrk frá öðrum aðilum, tveimur eða þremur, meðal annars frá Norræna félaginu. Það varð svo töluvert reiptog innan Alþ. um þetta, og virtist ekki vera þægilegt að velta neinum þessara aðila styrk, en neita öðrum, og niðurstaðan varð svo sú, að þessum beiðnum var öllum synjað.

Það var því ekki gott útlit fyrir góðtemplararegluna, þar sem Alþ. vildi ekki taka undir óskir hennar og veita henni fé til bindindisstarfsemi sinnar hér í bæ, og virtist sú leið vera lokuð. En hvernig fór með þetta mál í fyrra, hygg ég, að sé aðalástæðan fyrir flutningi þessa frv., sem hæstv. dómsmrh. flytur.

Horfurnar eru þannig í fjármálum okkar, að litlar líkur eru fyrir því, að reglunni takist að fá meiri hl. Alþ. til þess að samþykkja þá fjárveitingu, sem hún hefur farið fram á, þar sem líka hliðstæðar beiðnir um fjárframlög hafa legið fyrir þinginu, og er þá ekki nema eðlilegt, að sú spurning komi upp í huga þeirra, sem vilja sýna það í verki, að þeir meti verk bindindismanna, hvort sú leið væri fær. sem stungið er upp á í frv.

Það hafa komið fram raddir um það, að það væri óvirðing gagnvart bindindisstarfseminni í landinu að bjóða henni fjárstyrk á þennan hátt. Ég býst við, að þær raddir hafi helzt komið frá mönnum utan af landi, því að vitanlega mundi litlu af því fé verða varið til byggingar fyrir starfsemi reglunnar úti á landi, fyrst um sinn að minnsta kosti. En þeir menn, sem starfa hér í bænum að þessum málum, líta á það með raunhæfum augum. Og þó að þeir áhugamenn séu ekki alls kostar ánægðir með leiðina, sem valin er til fjáröflunar fyrir þessa starfsemi, þá er þeim vel kunnugt um, hvernig horfurnar eru í þeim málum, og vilja haga sér eftir því, og þess vegna er það, að Stórstúkan lýsir ánægju sinni yfir þessu frv.

Það hafa komið fram raddir um það í þessum umr., að varla væri hægt að fá góðtemplarareglunni þetta til ráðstöfunar, því að innan reglunnar ríkti svo mikið ósamkomulag. En það hygg ég, að sé að mestu leyti á misskilningi byggt. Um aðalmál og stefnu reglunnar er ekki ágreiningur og hefur aldrei verið.

Eins og kunnugt er, hefur reglan búið í Góðtemplarahúsinu nú um langan tíma, en það mun ekki vera langur tími, þar til reglan á að skila því húsi. Er þá ekki eftir annað húsnæði fyrir þessa starfsemi hér í bæ nema húsið Fríkirkjuvegur 11. sem vissir menn úr reglunni festu kaup á. En það hús er að mestu leyti leigt út til ýmiss konar starfsemi, mest til ríkisstofnana. Hins vegar er þar mjög lítill fundarsalur, sem fullnægir að örlitlu leyti þörf reglunnar hér í bæ. En það ósamkomulag, sem vitnað hefur verið til, er einmitt um meðferð á þessari eign.

Eins og ég tók fram áðan, þá eru bindindismenn ekki sundurlyndir, heldur einhuga um að vinna að því að bæta úr böli áfengisins í landinu og að ala upp æskuna í landinu í því að vera afneitandi víns, með því að skapa henni hollan samastað, þar sem eitt og annað getur farið fram, sem henni er gagn og gleði að. Góðtemplarareglan er að vísu ekki ein um þetta áhugamál fyrir æsku þessa bæjar, því að nú nýlega hefur verið stofnað félag eða samband æskulýðsfélaga í bænum, sem hefur það markmið að reisa æskulýðshöll hér í bæ, og þar er stefnt nákvæmlega að sama marki.

Þá hefur verið spurt að því, hvort reglan ætti mikið í sjóði, og get ég svarað því, af því að ég þekki þar vel til, að svo mun ekki vera. Eins og ég sagði áðan, þá var ósamkomulag eða ágreiningur um ráðstöfun á húsinu Fríkirkjuvegur 11, en þar var lagt í kostnað, sem varð svo mikill, að þar var eytt því fé, sem til hafði verið í sjóði. Þá hefur og reglan haft nokkra starfsemi annars staðar, sem hún hefur lagt fé í, en það er t. d. sumardvalarheimilið á Jaðri.

Þetta sem ég hef lýst, hefur orðið til þess, að reglan hefur leitað hvað eftir annað til Alþ. um stuðning til þess að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd, en það virðast hafa verið allt of fáir áhugamenn hér á Alþ. fyrir því að veita nauðsynlegt fjármagn, sem reglan telur sig þurfa.

Ég hygg, að allir, sem skipa sér undir merki góðtemplarareglunnar, vilji reyna að gera allt, sem unnt er til varnar áfengisneyzlu í landinu, og ég veit, að allir bindindismenn eru á einu máli um það. Ég hygg það alveg ofmælt og á misskilningi byggt, að sá ágreiningur, sem verið hefur innan reglunnar og ég hef minnzt á, þurfi að verða þess valdandi, að fyrir þá sök þyki réttara að fara einhverjar aðrar leiðir með þá fjárveitingu, sem hér hefur verið stungið upp á að verja til bindindisstarfseminnar í landinu. Hún er virðingarverð að vísu, sú starfsemi, sem farið hefur fram hjá ýmsum félögum, sem tekið hafa að sér að styðja það mál, þó að þau hafi ekki verið bundin föstum böndum innan reglunnar. Það er allt virðingarverður stuðningur við sjálft málefnið. En ég get ekki séð, að aðrir aðilar séu réttari til þess að taka móti þeim stuðningi, sem Alþ. á hverjum tíma lætur af hendi rakna, en einmitt Stórstúka Íslands. Hún er svo virðuleg stofnun, komin á sjötta tug ára og það væri óeðlilegt, ef ætti alveg að sniðganga hana. Því að hvað sem menn annars segja um bindindisstarfsemina yfirleitt, þá verður ekki hægt að neita því, að góðtemplarareglan hefur unnið mikið og þarft starf á undanförnum árum, þó að kannske megi segja, að það hafi borið misjafnlega góðan árangur, eins og oft vill verða.

Þá hafa komið raddir um það, að þessi aðferð, sem hér er stungið upp á í frv., verði til þess að slaka á bindindisstarfseminni í landinu. Slíkt finnst mér alveg fjarstæða og ómaklegar aðdróttanir til bindindismanna, að láta sér detta í hug, að áhugi þeirra fyrir sínu mikla áhugamáli, að vinna gegn áfengisneyzlu í landinu, muni slappast og minnka, þó að menn eigi von á fleiri þús. kr. eða millj. kr. úr ríkissjóði með því skipulagi, sem hér er gert ráð fyrir. Ég er góðtemplari, og þó að ég hafi ekki unnið mikið fyrir þá starfsemi og nú á fallanda fæti, þá er ég það kunnugur starfsemi reglunnar, að ég þori að fullyrða, að það er ástæðulaus ótti að halda, að slíkt mundi draga úr baráttu hennar, þó að hún fengi þennan fjárstyrk. Og þó að æskilegra hefði verið, að styrkurinn hefði verið veittur á öðrum grundvelli, þá mun reglan ekki setja það fyrir sig, því að hún veit það vel, að hafni hún þessum fjárstyrk, þá hefur hún litla eða enga möguleika til þess að byggja hús fyrir starfsemi sína hér í Rvík í náinni framtíð.

Ég er því ákveðinn í því að greiða atkv. með frv. Þar er ég sammála Stórstúkunni, eins og hún hefur lagt fram álit sitt, sem prentað er á þskj. 371. Ég, mun ekki fallast á brtt. n., en mun fylgja frv. eins og það liggur fyrir. Um brtt. þeirra hv. 8. landsk. þm. (ÁS) og hv. 3. landsk. þm. (HV) er það að segja, að ég mun greiða atkv. með þeirri brtt., en er vonlaus um, að hún nái fram að ganga. En að henni fallinni mun ég greiða atkv. með frv.