04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (2826)

73. mál, bindindisstarfsemi

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Tilefni þess, að ég stóð upp, var það, að hv. 3. landsk. þm. (HV) fór mjög mikið að tala um það, að við, sem værum hér með brtt. — og ég held hv. flm. frv. líka, — kæmum hér grímuklæddir. Það er nú svo, að menn geta vel haft sínar skoðanir og komið fram með þær, án þess að það þurfi sérstaklega að vera að drótta því þess vegna að mönnum, að þeir meini eitthvað annað en þeir sýna á pappírnum. Það mætti þá með sama rétti segja um hv. 3. landsk. þm., að hann sé að tala um það, að hann vilji ekki láta veita þetta fé eins og hér er gert ráð fyrir, bara af þeirri ástæðu, að hann vilji koma þessum styrk til templara fyrir kattarnef, svo að þeir standi eftir vegalausir, húslausir og athafnalausir.

Annars er þetta mál þannig, eins og tekið hefur verið fram, að þetta er ekki neitt hlátursmál, heldur áhugamál fyrir alla, bindindisstarfsemin í landinu. Og það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að það er ekki nóg að byggja höll eða hlaða undir templara. Templarar eru gildir og góðir á sína vísu, sumir ágætir, aðrir í meðallagi eða svo. En það er ekki nóg. Það verður að bjarga því, sem bjargað verður af þessum mönnum, sem eru að tortímast vegna ofdrykkjunnar. Þess vegna verða þm. að taka höndum saman í því efni. Og ég gæti gjarnan verið með í að hækka heldur meira þetta tillag en n. hefur lagt til, með því móti, að því væri þá einnig varið til þess, sem hv. þm. Barð. minntist á. Og sennilega verður athuguð í n. till. hans fyrir 3. umr.

En ég skil ekki í því, hvernig stendur á því, að templarar eða annað fólk álítur, að þetta fé megi ekki koma frá áfengisverzluninni. Ég sé ekki nokkurn minnsta mun á því,hvort þetta tillag er afhent templurum beint úr „Dýraríkinu“. eða hvort það fer í hendur ríkisféhirðis fyrst. Nú er því svo farið hjá okkur, að fjórði eða fimmti hver peningur, sem kemur í ríkissjóðinn, kemur frá þessari stofnun, áfengisverzluninni. Og þá verður útkoman sú, að ein fjórða eða ein fimmta hver króna, sem við hv. 3. landsk. þm. og ég fáum í laun hér, er fé frá þessari stofnun. Og ég held, að það fari fyrir okkur þannig, að við finnum litla lykt af þessum krónum og tökum við þeim án þess að væma við. Þess vegna tel ég það rétta, að þessi stofnun, áfengisverzlunin, greiði beint til þessarar starfsemi, sem unnin er í landinu gegn áfengisnautn, en að ekki sé borgað fyrir að telja þetta fé mann frá manni frekar. Þess vegna finnst mér líka óþarfi að vera að tala um, að þetta fé megi helzt ekki koma frá áfengisverzluninni. Og ég sé ekki, að þetta, sem kemur hér fram í frv., sé nein slík móðgun sem hv. 8. landsk. þm. var að tala um. Það er bara misskilningur hjá þeim góða manni, og ég geri tæplega ráð fyrir, að hann haldi þeim misskilningi mjög til streitu. — Annars er það svo, að ef það fé, sem góðtemplarar fá til starfsemi sinnar, er ekki látið á þann hátt, sem þeir vilja, þá gerast þeir háværir, eins og hv. 3. landsk. þm. gerðist hér, þegar hann fór að hella sér yfir mig. Og hann fór að sækja sér efni í ræðuna úr umr. um ölfrv. í Nd. og halda ræðu um það við þessa umr. Hann var ekki ölóður. (GJ: Hann var ölfróður). En það var hreyfing komin í hann. Nei, hann var síður en svo ölfróður. En með svona hamagangi vinna þessir menn ekki góðtemplarareglunni eða meðbræðrum sínum neitt gagn.

Þá var hv. 3. landsk. eitthvað að tala um, að mér skildist, að koma mér frá þingmennsku. En enn sem komið er hafa Dalasýslubúar ekki tekið sérlega mikið tillit til sérskoðana hans. Og viðvíkjandi því sambandi. sem var milli Dalasýslubúa og hans fyrir nokkrum árum, þá ætla ég, að það verði ekki betra, þótt seinna verði.