04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2830)

73. mál, bindindisstarfsemi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti Það eru nokkrir alþm., sem hafa snúizt hvatskeytislega gegn þessu máli. Þegar ég sá, hvaða úrlausn átti að gera í málinu af þeirri n., sem um það fjallaði, þá gat ég ekki annað en látið það í ljós, að þó að ég teldi formið á frv. hjá hæstv. ráðh., sem flytur það, óheppilegt, þá teldi ég því mikið spillt með till. n. frá því, sem það var. Eins og ég lét í ljós með framítökum hjá einum þm., sem talaði, þá kom ekki beinlínis fram í formi frv. hjá hæstv. ráðh., að hann liti á málið frá sjónarmiði brennivínskaupmanns. En það er augljóst, að meiri hl. n., sem gerði brtt., miðaði hana við það, að ef vel seldist af víni, þá væri ekki þorandi að láta bindindismenn, sem vildu vinna á móti þessu böli, fá ¾% af gróða, heldur ef vel seldist þá 1%. Þetta er sjónarmið brennivínskaupmanns, en ekki mannúðarsjónarmið meiri hl. n., sem fjallaði um þetta stóra alvörumál, sem hér er til umr. Hins vegar er ég sammála hæstv. ráðh. um, að starf bindindismanna í landinu er bein afleiðing af sölu áfengis, sem ríkið rekur, þess vegna er það, sem þarf á varúðarráðstöfunum að halda. En ég vil segja, ef sú yrði niðurstaðan í þessu máli, að Alþ. teldi sér sæma að leysa það í þessu formi, þá getur það ekki verið tekið öðruvísi af bindindismönnum en sem hnefahögg í andlitið.

Hv. frsm. meiri hl. n., hv. þm. Dal., minntist á, að fjórði hver peningur, sem ég fengi í laun, væri fyrir áfengi kominn í ríkiskassann. Það er rétt, að ¼ hluti af tekjum ríkissjóðs er af áfengissölu. Ég get sagt fyrir mig, að ég vildi vinna það til að fá fjórðu hverri krónu færra heldur en þurfa að vita af því áfengisböli, sem þessi króna skapar í landinu. En ég er ekki alveg viss um, að hv. þm. Dal. vildi sjá af fjórðu hverri krónu sinni. (Forseti: Ég vil taka fram, að þetta er aðeins stutt athugasemd, sem þm. hefur rétt til að gera.) Það er rétt, ég er búinn að tala tvisvar. — Hv. þm. Barð. minntist á lækningu, sem hægt væri að beita við drykkjusjúklinga, og gaf þær upplýsingar, að margur maður, sem langt var leiddur, hefði fengið lækningu, og hélt því fram, að þarna væri fundin ágæt leið. Það færi betur, að svo væri. Því miður hef ég aðrar spurnir af slíku. Af þeim fáu dæmum, sem ég veit til, virðast mér flest eða öll misheppnuð. Ég spurði einn ágætan lækni að þessu áðan, og hann sagðist ekki vita til, að það hafi borið æskilegan árangur, þessi læknir er Helgi Jónasson. Ég veit því ekki, hvort hægt er að segja á þessu stigi málsins, hvort hægt er að hjálpa þeim, sem eru ofdrykkjumenn hér í bæ, með svo auðveldu móti. Því miður virðist mér öllum bera saman um, að það sé ekki hægt. En það tel ég höfuðatriðið, að hægt væri að gera eitthvað til þess að bjarga þeim, sem fallnir eru fyrir áfengisástríðunni og taka þeim tökum bindindismálin í landinu að koma í veg fyrir, að unga fólkið farist unnvörpum af þessum ástæðum, eins og lítur út fyrir, að verða muni, ef ekkert er að gert. Það er rétt, að það eru allt of margir af skólamönnum landsins, sem telja sér ekki skylt að vera bindindismenn. Og það eru allt of margir skólar í þessu landi, sem kenna nemendunum að drekka. Ég tók þetta ekki sem sneið til mín, þegar sagt var hér, að betur færi á því, að skólastjórar væru bindindismenn. Það færi betur á því, að alþm. og aðrir stjórnendur ríkisins væru æskulýðnum fögur fyrirmynd á þessu sviði. Það færi betur, ef þeir, sem tala um að skapa heilbrigt fordæmi í þessum efnum, hefðu forustuna um það að skapa það almenningsálit, að það sé vansæmandi að neyta áfengis í óhófi. Og almenningsálitið er að verða sterkt um þetta, af því að augu þjóðarinnar eru að opnast fyrir skaðsemi áfengisins. Ég skal ekki hafa þetta miklu lengra mál. En ég vil aðeins láta í ljós, að ég tel, að ef útreikningur hv. þm. Dal, er réttur, þá sé eins hægt að veita það fé, sem um væri að ræða eftir þessu frv., ef samþ. yrði, beint úr ríkissjóði. Þá væri eins hægt að láta bindindismenn hafa á fimmta hundrað þús. kr. beint úr ríkissjóði, því að þangað fara tekjur áfengisverzlunarinnar.

Út af því, sem hv. 1. landsk. sagði hér áðan, að hann teldi litlar líkur til þess, að hægt væri að komast af án áfengisteknanna, vegna þarfa ríkissjóðs á næstunni, þá held ég, að þó að erfitt kynni að reynast að skera niður við trog þessar tekjur ríkissjóðs allar í einu, þessar 40–50 millj. kr. tekjur. þá mætti smátt og smátt — segjum með 10 ára áætlun — minnka tekjurnar frá ári til árs, þar til þær gætu horfið með öllu. Þetta væri hægt, og bæta ríkissjóði hallann með peningum, sem teknir væru með betra móti frá siðferðilegu sjónarmiði en þessir blóðpeningar eru teknir.