04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (2836)

73. mál, bindindisstarfsemi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. Barð. (GT) vildi ég aðeins taka fram, að hann hefur nokkra sérstöðu í þessu máli. e. t. v. á borð við hv. 4. landsk. þm. (BrB), að þeir eru báðir á móti þeirri almennu bindindisstarfsemi. Ég veit, að hv. þm. Barð. er á móti allri áfengisnautn. Hann er allra alþm. skeleggastur í því. En hann er á móti bindindisstarfsemi, vegna þess að hann telur önnur atriði hafa meiri þýðingu. Þess vegna er hann á móti kjarna þessa frv. Við því er ekkert að segja. Um það höfum við skiptar skoðanir. Hinir, sem telja, að nauðsynlegt sé að styðja þá almennu bindindisstarfsemi í landinu, og sérstaklega góðtemplararegluna, þeir hljóta að vera með frv., ef fé fæst til þessarar starfsemi í einhverju formi, sem Stórstúkan telur sér fullnægjandi. Því að ekki getur hv. þm. verið annarra um heiður Stórstúkunnar en henni sjálfri. Stórstúkan hefur afþakkað féð í því formi, sem n. lagði til, en vill fá það í því formi, sem ég legg til. Þeir, sem finna að þessu frv., segjast finna meira til út af forminu á þessu en Stórstúkan lætur uppi. Þess vegna hlýtur andstaða þessara hv. þm. að stafa af því, að þeir vilji málið feigt. Mín afstaða er hins vegar þannig, að ég tel þetta form á fjárveitingunni líklegast til árangurs. En jafnvel þó að fjárframlagið væri samþ. í öðru formi en ég hef lagt til, mundi ég vera með málinu. Ef þeir, sem talað hafa á móti frv., segðu fyrir sitt leyti það sama, að þeir gætu verið með frv. í öðru formi en þeir leggja til sjálfir, mundu þeir varpa af sér öllum grun um óheilindi í málinu. En þeir vilja ekki hafa frv. í því formi, sem Stórstúkan mælir með því í.