10.12.1947
Efri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (2843)

104. mál, sölugjald af jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var sent landbn. frá landbrn. með ósk um, að n. flytti það. Landbn. hefur athugað frv. og var sammála um að flytja það sem slíkt, án þess þó að nm. létu nokkuð í ljós um fylgi sitt við það. Með frv. er mjög löng grg., og má að mestu láta nægja að vísa til hennar í stað þess að flytja langa ræðu.

Aðalefni frv. er að veita hreppsnefndum eða hreppum kost á því, þegar jarðir eru seldar mjög háu verði, að þá fái hreppar hluta af þeim mikla gróða. Þó er það takmark að neðan, að ef jörð er seld þreföldu fasteignamatsverði, komi ekkert sölugjald, en þegar komið er yfir þrefalt fasteignamatsverð, komi gjald. Yfirleitt munu jarðir ekki vera seldar fjórföldu fasteignamatsverði nema sérstök hlunnindi fylgi. Menn hafa talið rétt, að þegar jarðir eru seldar fyrir geysilega hátt verð, þá verði þetta sölugjald tekið til ýmislegs gagns fyrir eftirkomendurna í sveitunum. Nú er það svo, að ef tekið er dæmi af einni jörð, sem virt er á 10000 kr., en er seld fyrir 40000 kr., þá á ekkert gjald að koma, en sé hún seld á 50000 kr., greiðist í sölugjald 1000 kr. Ef jörðin er seld fyrir 60000 kr., verður sölugjaldið 3000 kr. Það er óþarfi að rekja þetta lengra. Hv. þdm. skilja, að hann er ekki tilfinnanlegur þessi skattur, nema fyrir þá, sem selja geipiverði. Ætlazt er til, að þetta gjald verði notað af hreppum í fyrsta lagi til að kaupa fasteignir, og mundi það verða til þess, að þær fasteignir, sem eru í hreppunum, hyrfu síður til framandi manna, í öðru lagi til þess að gera umbætur á eignum hreppanna, og í þriðja lagi ætti að nota sjóðinn til þess að kaupa, eftir till. búnaðarfélags hreppsins, landbúnaðarvélar fyrir hreppsfélagið sjálft. Sú nefnd, sem undirbjó þetta frv., leitaði umsagnar búnaðarfélaga um land allt. Mörg þeirra voru svarafá, en þau, sem svöruðu, voru því meðmælt, að eitthvað þyrfti að gera. Hér var áður talað um söluskatt af jörðum, en hann var öðruvísi og kom víðar niður en þessum er ætlað að gera. Þessi skattur kemur aðeins niður á þá, sem verða margfalt ríkari að krónutali af jarðabraski, og hann kemur svo létt niður, að ég hygg, að drenglyndir menn vilji fúslega skilja eitthvað eftir af öllum auðnum í þeim hrepp, sem þeir hafa auðgazt í. Frv. er aðeins bundið við jarðir í sveitum, en nær ekki til landa eða fasteigna í kaupstöðum og kauptúnum. Mþn. milli búnaðarþinga hafði þetta til athugunar, en hún taldi ekki rétt að fara út fyrir þann ramma. sem henni hafði verið settur.

Ég býst við, að þetta frv. mæti e. t. v. einhverri andúð, eða þá að menn óski eftir að gera á því einhverjar breyt. Það er ekki nema rétt og sjálfsagt, en ég treysti því að hv. þm. taki það, sem þeir telja til bóta, en geri breyt. á því, sem þeim finnst miður fara. Þó að ég hafi átt þátt í þessari frumvarpsgerð og hafi hér framsögu, er ég reiðubúinn og þakklátur að taka við öllum þeim breyt., sem menn kunna að koma fram með og verða mega til bóta. — Að svo mæltu óska ég þess, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr.