10.12.1947
Efri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (2847)

104. mál, sölugjald af jörðum

Eiríkur Einarsson:

Á þessu stigi málsins vil ég ekki láta mig neinu skipta þau deiluatriði, sem hér eru til umr. milli tveggja hv. þm. Eins og tekið hefur verið fram, er þetta 1. umr., og hefur málið verið flutt af n., eins og skjalið ber með sér. En af því að ég á sæti í þeirri n., er þess að geta af minni hálfu, að einstakir menn hafa óbundnar hendur gagnvart brtt., sem þeir flytja sjálfir eða fram koma. Ég tel líka, að gagnvart frv. hafi og óbundnar hendur, þótt það sé flutt af n., af þeirri venju, að þegar stj. biður um að mál sé flutt, þá játast n. undir það. Það er af því, sem ég játaðist undir að flytja þetta. En ég vil segja í sambandi við þá uppástungu að vísa þessu til annarrar n. en landbn., að þá mundi þetta með kostum sínum og ágöllum verða eignað hinni n., sem varð til að flytja það. Ég skal segja það að ég er ekki ánægður með frv. eins og það er. Hvort ég yrði það síðar, skal ég láta ósagt. Það er því meiri ástæða til að segja þetta, ef það yrði hlutskipti annarrar n. að fjalla um frv.

Ég vil segja það, að ég hef óbundnar hendur, en vil segja það, að ég tel málið þurfa meiri athugunar við áður en síðasta orðið yrði sagt, hvort sem það verður áfram í höndum landbn. eða fer til nýrrar nefndar.