10.12.1947
Efri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (2851)

104. mál, sölugjald af jörðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í einkamál milli þeirra samflokksmannanna, þm. Dal. (ÞÞ) og þm. Barð. (GJ). Ég kann engin deili á því, hvorki bryggjubyggingu í Flatey, hver hafi reynt að nota sér það mál til framdráttar, né eftirgjaldi eftir hluta af Hergilsey og hver hafi þar viljað skera sér heldur þykka sneið. Bítist þeir um það, samflokksmennirnir.

Þetta frv. er í raun og veru nokkurs konar samkomulagsfrv. Eins og hv. þm. Barð. (GJ) tók fram, eru til menn í þessu landi, sem líta svo á, að jörð verði við hver eigendaskipti að hækka í verði og að ábúendurnir verði ár frá ári að greiða vexti af hærri og hærri fjáreign, hærri og hærri landskuld. Hins vegar líta aðrir svo á, að þegar hið opinbera gerir einhverja framkvæmd eða styrkir framkvæmdina, þá sé það ekki fyrir þennan eina mann, heldur fyrir heildina og framtíðina. Það sé ekki ætlazt til þess, þegar ríkið lætur gera höfn og aðstaðan batnar, að sá maður, sem á landið, sem liggur að höfninni, geti skattlagt alla aðra og látið þá greiða hærri lóðargjöld til sín vegna hinnar bættu aðstöðu. Hugsunin hefur verið allt önnur. Nákvæmlega sama er með jarðir í sveit, rás tímans hefur látið þær hækka í verði. Nýir vegir, nýjar brýr hafa látið þær hækka í verði. Þetta er gert fyrir atbeina hins opinbera, og það er litið svo á, að það sé ekki rétt að láta þann mann, sem býr á jörðinni, geta selt næsta viðtakanda jarðarinnar alla verðhækkunina í stað þess, að vegurinn var lagður til þess að þeir, sem við hann byggju, hefðu hagnað af honum, hann létti þeim lífsbaráttuna.

Hins vegar eru margir svo miklir sérhagsmunamenn. að þeir vilja láta hvern eyri í sína buddu og þeim er alveg sama, þó að aðrir þurfi að borga meira fyrir jörðina fyrir það, að hið opinbera hefur lagt veginn.

Milli þessara tveggja manntegunda hefur verið skoðanamunur, og þessi skoðanamunur leiddi svo til þess, að n. var sett til þess að finna leið til þess, að jarðir hækkuðu ekki í verði og sem fulltrúi annars flokksins var hv. þm. Dal. (ÞÞ) í n. Ég verð að segja það, að sú niðurstaða, sem þeir hafa komizt að, að leggja söluskatt á til þess að nokkur hluti af kúfnum fari í gegnum hendur hins opinbera og til þess að hið opinbera geti hindrað, að jarðir hækki í verði. — sú niðurstaða er mér ekki alls kostar að skapi. Ég lít á þetta frv. sem nokkurs konar samkomulagsfrv. Það er mjög langt frá því, að ég sé alls kostar ánægður með það. Samt mun ég sætta mig við að fylgja því, af því að það er ofurlítið skárra en ekki neitt. Það nær þó ekki öllu, sem það þarf að ná.

Ég hef sjálfur þá skoðun, að hið opinbera eigi að eiga jarðirnar. Ef lóðirnar hér við Arnarhvol væru álíka dýrar og þær voru áður en Rvík var byggð, hver væri þá lóðaleiga hér í Rvík? En það er nú búið að selja þær nokkrum sinnum og búið að gera mörg mannvirki af hálfu hins opinbera, sem hafa orðið til þess, að betur er búið að þeim, og þeir, sem áttu þær, hafa notað sér það að hækka þær. Við fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar hér í Rvík eftir að ég flutti í bæinn, þá var aðaldeilan milli flokkanna um það, hvort það ætti að selja lóðirnar á hafnarbakkanum eða ekki. Þá var Sjálfstfl. sannfærður um, að það ætti að selja þær allar, einstaklingar þurftu að fá þær með lágu verði, svo að þeir gætu selt þær aftur með hagnaði. En nú hefur hann vitkazt það, að honum dettur ekki í hug að selja þær lengur, og er það framför.

Ég held, að það æskilegasta í þessu öllu sé, að ríkið eigi allt land, en það þarf að búa þannig um, að sá maður, sem notar það, meðan hann hefur það til umráða fyrir sig og sína ætt, geri það eins og hann ætti það sjálfur. Það þarf að gera eitthvað til þess, að hann finni ekki aðeins hvöt hjá sér, sem margir menn hafa, til að leggja sig fram fyrir sjálfan sig, heldur ekki síður fyrir aðra. Ég minnist þess vel, er ég fyrir mörgum árum kom á prestssetur. Það var nýbúið að leggja það niður við brauðasamsteypu, og nú hafði presturinn fengið jörðina keypta. Það var ekkert farið að slétta og ekkert farið að gera til umbóta á jörðinni. Þegar ég lét í ljós undrun mína yfir því, hvað lítið var búið að gera á þessari jörð, þá sagði þessi prestur þessi orð: „Hefði ég fengið jörðina keypta fyrr, þá hefði ég verið búinn að gera meira á henni.“ Þetta eru orð, sem eru töluð út úr hjarta þeirra manna, sem ekki finnst þeir geti gert neitt nema fyrir sjálfa sig. En til þess að ekki sé tekin af þeim þessi hvöt til að vinna fyrir sjálfa sig, þá á landið allt, jarðirnar og lóðirnar að vera þannig byggt eins og þeir, er hafa það til afnota, njóti arðs af verkum sínum meðan þeir vilja, að öðru en því, að þeir geti ekki selt þau. Með því er hægt að halda hvötinni til þess að láta menn leggja sig fram eins og þeir væru að vinna fyrir sjálfa sig, þó að þeir í rauninni séu að vinna fyrir heildina, og þá er að fyrirbyggja, að þeir geti selt og látið eftirkomendur sína hafa erfiðari lífsbaráttu en þeir hafa sjálfir með því að selja það, sem þeir hafa ekki lagt peninga í. Þetta frv. er sem sagt samkomulagsmál milli þessara tveggja ólíku sjónarmiða, sem ég hef reynt að lýsa, og þá að það sé langt frá því, að ég sé ánægður með það eins og það er, þá mun ég þó telja það ofurlítið spor í áttina og þess vegna fylgja því. Það má vera, að þeim, sem fastastir eru í sérhagsmunastefnunni, finnist þetta spor of stórt, það eigi ekkert spor að stíga í þessa átt. En þrátt fyrir það, að þetta sé aðeins lítið hænufet í rétta átt, er það þó vinningur, og mun ég þess vegna fylgja því.