06.02.1948
Efri deild: 54. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

104. mál, sölugjald af jörðum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og kemur fram í grg. þessa frv., þá er það samið af mþn., sem skipuð var af búnaðarþingi 1945 til þess að athuga, hvernig hindra mætti óeðlilega verðhækkun á jörðum. N. hefur athugað málið mjög gaumgæfilega, og árangurinn af þeirri athugun er þetta frv., sem flutt er hér. Það kemur enn fremur ljóst fram, að rannsókn n. hefur leitt ýmislegt í ljós, sem sýnir, að full nauðsyn er á að hindra óeðlilega verðhækkun á jörðum, sem mun hafa illar afleiðingar fyrir þá, sem á þeim eiga að búa. Verð á jörðum hefur verið allmikið síðustu árin, þannig að allmikið af þeim jörðum, sem seldar hafa verið, hefur verið selt á háu verði, og það háa verð hefur sérstaklega skapazt næst stærstu kaupstöðum landsins. T. d. í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum hefur nú á síðasta tíma verið seldur um það bil þriðjungur af jörðum. sem þar hafa verið seldar, fyrir þrefalt fasteignamatsverð og þar yfir. Sömuleiðis hafa verið seldar þannig á sama tíma þó nokkrar jarðir í Árnessýslu, og helmingur þeirra jarða, sem seldar hafa verið í Gullbringu- og Kjósarsýslu á sama tíma, hafa verið seldar fyrir þrefalt fasteignamatsverð eða meira. Og dæmi eru til þess, að jörð hafi verið seld fyrir seytjánfalt fasteignamatsverð, og hlýtur slíkt að hafa slæmar afleiðingar fyrir búskap á þeirri jörð síðan. — Í sambandi við þetta og til að ráða bót á því er þetta frv. flutt. — En n. bendir á annað í sambandi við þetta mál, að fleiri leiðir hefðu getað komið til greina til þess að hindra óhæfilega verðhækkun í sölu jarða, t. d. að lögfesta verðhækkunarskatt og mín skoðun er sú, að það hefði kannske verið heppilegri leið en sú, sem hér er farin. Og út af ræðu hv. 2. þm. Árn. (EE) vil ég segja það, að hefði nú leið verið farin, þá hefði hún getað komið mikið í veg fyrir það, sem hann taldi galla á þessu frv., að opnuð væri leið fyrir svartan markað í sambandi við jarðasölu. En ef það hefði átt að gera það, þá kostar það miklu meiri lagabreyt., sem sé að byggja fasteignamatið upp öðruvísi en nú er gert. Það þyrfti þá að taka upp þau ákvæði í l. um fasteignamatið, að sér væru metnar þær eignir, sem yrðu tvímælalaust eignir ábúendanna, og sér það, sem væri eign þess opinbera. En till. um slíka breyt. lá ekki fyrir landbn. En ég læt þetta aðeins koma fram af þessu tilefni.

Þá eru það brtt. á þsk. 288. sem við hv. 1. þm. N-M. flytjum við frv. það er ekki deilt um það, að tilgangurinn með flutningi þessa frv. er ekki fyrst og fremst sá að afla tekna í sveitarsjóði eða fasteignasjóði svo kallaða, heldur eingöngu að koma í veg fyrir, að jarðir hækki of mikið í verði. Til þess að hindra verðhækkun á jörðum teljum við flm. þessarar brtt., að ástæða sé til að hækka það sölugjald. sem á að koma í veg fyrir verðhækkunina, nokkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. sjálfu, þegar verð jarðanna er farið að fara óhæfilega hátt yfir fasteignamatsverð. Við erum sammála því ákvæði frv., sem gerir ráð fyrir því, að það sé ekki óeðlileg verðhækkun á jörðum, að verð þeirra sé allt að 400% umfram fasteignamatsverð, miðað við fasteignamatið frá 1939. Og þegar jarðir eru seldar fyrir verð, sem er 400–500% umfram fasteignamat, þá gerum við ráð fyrir sama sölugjaldi af þeim í brtt. okkar og gert er ráð fyrir í frv. Hins vegar teljum við, að þegar farið er að selja jarðir á sexföldu og sjöföldu verði og þar yfir, þá sé verðið í flestum tilfellum komið óhæfilega hátt, og við ætlumst til þess með okkar brtt., að krafizt sé hærra sölugjalds af slíkum upphæðum en eftir ákvæðum frv., þannig verði krafizt af því, sem er 500–600% umfram fasteignamat. 25% þeirrar upphæðar, í stað 20% eftir frv., af því söluverði, sem er 600–700% umfram fasteignamat, 40% í stað 30% eftir frv., og af söluverði, sem er 700% og hærra umfram fasteignamat, verði krafizt 60% upphæðarinnar, í stað 40% eftir frv. Við teljum, að með því að hækka nokkuð þessa hærri flokka sé gerð meiri trygging fyrir því, að tilgangi lagasetningarinnar verði náð, heldur en eftir frv., þeim tilgangi að hindra verðhækkun á jörðunum, en muni ekki skapa sveitarsjóðunum neitt meiri tekjur en ákvæði frv. eins og þau eru.