08.02.1948
Efri deild: 54. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (2861)

104. mál, sölugjald af jörðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja mjög mikið umr. á þessu stigi, en vil þó gera nokkrar aths. við frv. Fyrir þeirri mþn., sem undirbjó frv. í fyrstunni, vakti aðallega tvennt, eins og sést á grg. frv. Það fyrst að torvelda, eftir því sem unnt væri, að utansveitarmenn gætu náð eignarhaldi á jörðum án þess að sitja á þeim sjálfir eða reka þar búskap. Ég sé ekki, að þetta frv., þótt það yrði að l., fyrirbyggi á nokkurn hátt, að einstakir menn nái eignarhaldi á jörðum út af fyrir sig. Það kann að gefa viðkomandi sveit einhverjar sárabætur fyrir það, að þessu takmarki hefur ekki verið náð, en takmarkinu sjálfu verður ekki náð með frv. Hin ástæðan var sú að halda verði jarðanna innan hæfilegra takmarka, svo að auðveldara sé að stunda á þeim búskap, og torvelda, jafnframt fjárflótta úr sveitunum í sambandi við sölu á jörðum. Þetta er annað atriðið, sem mþn. lagði áherzlu á. Ég sé ekki heldur, að með þessu frv. sé þessu síðara atriði náð.

Hv. 2. þm. Árn. hefur bent á, að það er hægt að fara alls konar krókaleiðir í þessum efnum. Hann er sjálfur lögfræðingur og þekkir þetta þar af leiðandi vel, eftir að hafa verið 5–6 ár að læra, hvernig á að fara í kringum l. Ég hef ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að læra, en ég sé ýmsar leiðir til að fara í kringum þetta og skal t. d. benda á eina. Það er ekkert hægara fyrir bónda, sem vill selja jörðina sína, heldur en að leigja jörðina kaupanda fyrir ákveðið verð, gefa svo afsal eftir ákveðið árabil og láta leiguna ganga upp í jarðarverðið. Þetta er aðeins ein af fjöldamörgum aðferðum, sem sjálfsagt verða notaðar til þess að fara í kringum þessi ákvæði. Ég veit, að hv. þm. Dal. er ljóst, að menn gera mjög mikið að því að reyna að forðast lágt stimpilgjald og hafa þar af leiðandi ekki gefið upp söluverðið. Þess vegna hefur Alþ. orðið að fara inn á þá braut að ákveða, ef ekki er gefið upp söluverð, að stimpla afsal með fimmföldu fasteignamati. Þetta er komið fram vegna þess, að þegnunum þykir ríkissjóður fara hér um of ofan í vasa manna í sambandi við sölu eigna. En hvað mundi þeim þá finnast, ef ætti að taka 60% af andvirðinu? Það er enginn vafi á því, að það eru til alls konar möguleikar til þess að komast fram hjá þessu. Ég skal viðurkenna. að það frv., sem hér liggur fyrir nú um forkaupsrétt sveitanna fram yfir forkaupsrétt ábúanda, skapar að nokkru leyti möguleika til að geta selt jarðirnar opinberlega öðru verði en eðlilegt er, þar sem viðkomandi sveitarsjóður grípi inn í og keypti jörðina við hæsta afsali, en það frv. er ekki orðið að l. enn, og það eru hins vegar til margar aðrar leiðir, sem verða áreiðanlega notaðar, og ég sé ekki, að þetta frv. muni stöðva það. Frv. sjálft gerir hins vegar ráð fyrir því að ná öðrum árangri en mþn. ætlast til. Það hefur tvenns konar markmið að stefna að. Annars vegar að hefta fjárflótta úr sveitunum, þannig að mikill meiri hluti jarðarverðsins verði eftir hjá sveitarfélaginu. En hinn megintilgangurinn er að nota þetta fé til ýmissa verklegra framkvæmda í sveitum landsins, en þar er farið inn á braut, sem farið hefur verið inn á fyrr hér á Alþ., þó að ekki hafi verið gert mikið að því, m. a. er farið inn á það með ölfrv. Það er að reyna að nota féð til þess að bera á sárin eins og nokkurs konar smyrsl. Þar er ætlazt til, að fé, sem kemur inn fyrir ölbrugg, verði notað til líknarstarfsemi í landinu, en hér er ætlazt til, að þær sneiðar, sem skornar eru af eignum manna, verði notaðar til framfara í sveitunum. Ég veit ekki, hvort það er hv. flm. ljóst, að þetta er eins og að selja hv. þm. Dal. bók, sem er ekkert annað en lélegur reyfari að innihaldi, en spjöldin eru ágæt og bókin vel bundin og gyllt. Það er þessi aðferð, sem þeir hafa hér. Ég er fyrst og fremst á móti frv. vegna þess, að ég tel það rangt að taka einhverjar sér stakar fasteignir í landinu og setja á þær slíkan söluskatt. Ég teldi þá rétt að láta það ná yfir allar fasteignir í landinu. Ég er þess utan hræddur um, að þetta frv. gæti haft aðrar afleiðingar en til er ætlazt. Ég er hræddur um, að það yrði til þess, að fasteignamat í landinu yrði stórkostlega að hækka. Við vitum, að fasteignamat er mjög lágt, miklu lægra en almennt gangverð. Það hafa komið fram háværar raddir um það að hækka fasteignamatið að einhverju leyti í samræmi við það, sem gangverð er á eignum nú, en það hefur mætt alveg ákveðinni mótspyrnu vegna þess, að þetta er enn þá raunverulega tryggasti tekjustofn sveitanna. Ef ætti að hækka matið þannig, að það hækkaði fasteignaskattinn, eða hækka fasteignaskattinn sérstaklega, þá hafa á móti því komið þau rök, að þetta er kannske tryggasti tekjustofn sveitanna. Frá þessum stofni fá sýsluvegirnir og hreppsvegirnir sínar tekjur. Það er lagt ákveðið gjald á fasteignir til þess að geta þokað áfram ýmsum framkvæmdum í sveitunum sjálfum. Ef þetta frv. yrði svo til þess að hækka stórkostlega fasteignamatið og hækka þar af leiðandi skattanna til ríkisins, þá minnkar það um leið tekjurnar til sveitanna.

Þá vil ég benda hv. frsm. á, að ég tel mjög vafasamt. að 1. málsl. 4. gr. geti staðizt. Það er hægt að segja, að seljandi jarðar greiði sölugjaldið, en það er ekki hægt að fyrirbyggja, að seljandi og kaupandi geri með sér samning um, hvor þeirra eigi að greiða það, svo að það er ekki alveg ugglaust, að seljandi greiði gjaldið, þó að það sé sagt hér.

Ég skal hins vegar ekki eyða tíma hæstv. forseta í að ræða þetta mál nánar, því að það er þrautrætt, en vildi frá minni hálfu aðeins láta þetta koma fram á móti frv. í heild. Ég er þó enn meira á mótt brtt. 288 en frv., og mér dettur ekki í hug að halda, að hv. 1. þm. N-M. hafi borið hana fram í alvöru.