06.02.1948
Efri deild: 54. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (2866)

104. mál, sölugjald af jörðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þessu frv., sem hér er fyrir er, að því er mér skilst, ætlað að bæta úr tveimur meinsemdum, sem báðar hafa gert vart við sig í landinu í heild. Önnur er sú, að fyrir áhrif ýmissa viðburða í landinu hefur hækkað stöðugt verð á jörðum og lóðum í landinu. Þetta hækkar af því, að hið opinbera leggur vegi, byggir hafnir og af ýmsum fleiri ástæðum, sem gerir mönnum léttara að lifa en áður. Þetta allt verður til þess, að sá maður, sem kaupir þær jarðir, treystir sér til að gefa meira fyrir þær en áður. Þannig rennur kostnaður við umbæturnar smám saman inn í landverðið.

Það fé, sem hið opinbera leggur fram í því augnamiði að létta þjóðfélagsþegnum lífsbaráttuna, rennur á næstu árum í vasa þeirra manna, sem landið eiga. Þeir menn, sem nota jarðir, hvort heldur þeir byggja eða rækta, verða að vaxta þetta. Ég skal taka dæmi. Þegar einhvers staðar verður lagður vegur í gegnum sveitina, sem kostar 100 þús. kr., verður þetta til þess að hækka verðið á jörðunum og enn fremur til þess, að þau gæði, sem áttu að koma fólkinu til góða, renna í vasa einstakra manna, sem jarðirnar eiga og græða á þessu vegna hækkaðrar jarðarleigu. Þessu er frv. ætlað að ráða bót á. Ef land er selt margföldu verði miðað við það, sem metið er, þá álít ég, að nokkur hluti af því fé renni í sjóð sveitarinnar, sem hlut á í málinu. Ég viðurkenni, að þetta er ekki nema mjög lítil vörn við þessu, en með þeim l., sem hér hafa nýlega verið samþ. og send Nd., um kauprétt á jörðum, er reynt að fyrirbyggja, að á bak við þetta ákvæði sé farið, og enn fremur, að hreppurinn geti ráðið því, hverjir komi á jarðirnar. En þessu vilja þeir ekki breyta, sem ráða og eiga jarðirnar, því að þeir telja sér hag í því að eiga jarðirnar og láta þær hækka í verði. Því er það, sem við flytjum þetta frv., ef það skyldi verða til þess að bæta eða létta afkomu manna í landinu. Hitt er annað atriði, að undanfarin ár hefur fólkið flutt úr sveitinni í bæina. Árið 1930–1938 seldu bændur, sæmilega stæðir, jarðir sínar í einni ákveðinni sveit, ekki langt hér frá, sem hv. 2. þm. Árn. (EE) ætti að þekkja. Það var af því, að þeir voru orðnir svo gamlir og þeir voru að hætta að búa. Þeir fluttu með sér 1 millj. og 500 þús. kr. Í staðinn koma menn og kaupa með því að taka lán og skulda því meira og minna. Aðstaða sveitarfélags til að leggja á útsvör og standa undir öllum þörfum breytist við þetta. Þar eru möguleikar til að fá útsvörin allt aðrir. Á þennan hátt hefur fé farið út úr sveitunum með mönnum, sem hafa stundað starf sitt í sveitinni og hafa síðan viljað selja jarðirnar vegna þess, hve gott verð er fyrir þær. Til þess að fyrirbyggja, að þessi fjárflótti haldi áfram, er gert ráð fyrir því, að sölugjald þetta renni til sveitarinnar, sem jörðin er í. Mundi þá sveitin fá svolítið af þeim gjöldum, sem þessir menn hefðu annars farið með úr sveitinni, og svo yrði fjárflóttinn ekki eins mikill.

Með þessu frv. er að mínum dómi, stigið spor til hins betra, þó að ég viðurkenni, að það sé ekki nema pínulítið skref í áttina til þess, sem vera þarf. Ég tel sjálfur, að það eigi að samþykkja brtt., og náttúrlega tel ég, að ef hún verður samþ., þá eigi að samþykkja frv., þótt það gangi ekki nema litið í þá átt, sem það þarf að ná.