10.02.1948
Efri deild: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (2870)

104. mál, sölugjald af jörðum

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að segja mörg orð, en ég verð að leiðrétta rangfærslur hv. þm. Barð. (GJ). Það er undarlegt með þennan hv. þm., sem sækir manna bezt þingfundi, hve illa honum gengur að hafa rétt eftir. Um viðleitnina verður ekki efazt, og eftirtektarhæfileikinn getur því ekki verið meiri en þetta.

Ég hef ekkert sagt um það, að ég mundi greiða atkv. móti betri vitund. Ég sagði, að ég hefði takmarkaða trú á frv. og teldi aðra tilhögun betri. Ég sagði, að ég hefði því minni trú á þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, og lýsti yfir andstöðu minni við hana. Það hefur engin flokkssamþykkt verið gerð um þetta mál af Framsfl., en það hefur orðið samkomulag um málið á búnaðarþingi og mér finnst, að nokkurt tillit beri að taka til þess, ef það hefur verið afgreitt þar ágreiningslaust. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða meira um þetta.

Ég þarf ekki heldur að svara bollaleggingum hv. þm. um ríkisjarðirnar. Ég tók frá upphafi þá stefnu í því máli, að bezt væri, að bændur settu sjálfir jarðirnar, sem þeir búa á. En stundum er þetta ekki hægt. Svo var það fyrir nokkrum árum, er taka þurfti jarðirnar upp í skuldir. Þá var jarðakaupasjóður stofnaður, og eins og á stóð, var það hyggileg ráðstöfun. Jafnframt voru sett l. um það, að ábúendur gætu fengið jarðirnar aftur með vissum skilyrðum, þótt það væri athugavert við þau 1., að skilyrðin voru of þröng. Það má kalla þetta miðlunarskrifstofu, en ég álít bezt að löggjafarvaldið greiddi fyrir því, að allir bændur yrðu sjálfseignarbændur. en ef það er ekki hægt, að opinber aðili kaupi jarðirnar, ekki til þess að þær verði eign ríkissjóðs, heldur til þess að selja þær aftur þeim sömu, ef þeir geta keypt þær, eða öðrum ábúendum, svo að löggjafarvaldið tryggi á þann hátt sjálfseignarbændur. Þetta hefur alltaf verið sannfæring mín, og ég hef aldrei fylgt öðru en því, sem verið hefur í fyllsta samræmi við þetta.