11.02.1948
Efri deild: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (2871)

104. mál, sölugjald af jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég ætlaði ekki að segja meira um þetta mál nú. Þó er það svo, að ég get ekki orða bundizt, heldur verð að minnast á ræðu hv. þm. Barð. (GJ). Skynsemissólin hefur ekki verið í hvirfilpunkti hjá honum við þessa umr. Sumir halda því fram, að hann sé ruglingslegur í ræðum sínum, en nú hefur borið óeðlilega mikið á þessu.

Fyrst sagði hann, að ég vildi ekki ýtarlegar umr. um þetta mál. Það hef ég ekki sagt, heldur að málið hafi verið rætt lengi við 1. umr., sem var mjög uppbyggileg umr., og kom þá ýmis speki frá munnum okkar hv. þm. Barð., þótt ekki sé ástæða til að tyggja það upp aftur.

Nú hélt hv. þm. Barð. því fram, að 17. gr. jarðræktarl. væri hér endurgengin á ferðinni, nema þetta væri verra, eins og uppvakningar venjulega eru. Hugmyndir hans um takmörkun eignarréttarins eru eitthvað sljóvar, því að samkvæmt 17. gr. eignaðist ekki jarðeigandinn umbætur, sem gerðar voru. Þær voru ekki taldar með í eignaskýrslum og töldust einskis eign, og þær mátti ekki veðsetja. En hér er um algerlega frjálsan umráðarétt að ræða, þar til menn fara út í brask, þá eru lagðar á dálitlar hömlur. Þetta er léttara en stimpilgjaldið, er sett hefur verið á fasteignasölu. Ef ekki er um að ræða meira en fimmfalt fasteignamatið, kemur sölugjaldið ekki til greina. En hann vildi gera úlfalda úr mýflugunni og sagði, að greiða yrði 60% af söluverðinu. Samkvæmt því, sem venja er í mæltu máli, varð ekki annað séð en hann ætti við söluverðið allt. Það getur alltaf komið fyrir, að mönnum skjátlist, en það er bezt að viðurkenna það og vera ekki með undanskot.

Svo segir hann, að hv. 8. landsk. þm. hafi komið með aðrar tölur en ég. Ég reiknaði eftir sölugjaldi frv., en hv. 8. landsk. þm. eftir sölugjaldi brtt. Það gæti ekki verið um brtt. að ræða, ef hún breytti engu.

Ég get tekið það fram, að ég legg ekki sérstaka keppni á þetta mál. Ég get tekið undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði, að hér er ekki um algera lækningu að ræða, en þetta er í áttina til bóta. Ef ég sé ókosti á frv., sem ég flyt, tel ég sjálfsagt að breyta því til bóta. Það getur svo farið, ef þetta frv. bregzt, að ég og hv. þm. Barð. getum sameinazt um að fá það lagfært á næsta þingi, eins og við börðumst saman fyrir því að afnema búnaðarmálasjóð, og látið það þá ná líka til húseigna. Annars sé ég ekki ástæðu til þess að svara frekar.