09.02.1948
Efri deild: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (2872)

104. mál, sölugjald af jörðum

Páll Zóphóníasson:

Ég skal ekki lengja umr. Ég vil bara spyrja hv. þm. Barð. (GJ). hver sé að tala um það, að ríkið eignist jarðirnar? Hér er um að ræða skatt, sem renna á til sveitarfélaganna. Hann er að tala um eitthvað allt annað frv. en það, sem hér liggur fyrir.

Ég sagði, að frv. væri ætlað að koma í veg fyrir tvo ágalla. Í fyrsta lagi. að allar umbætur og verðhækkanir, sem gerðar væru fyrir opinbert fé, falli í eigu þess, er á jörðina, svo að þegar hann selur, notast ekki almenningi þau gæði, er gerð voru af hálfu þess opinbera, heldur falla þau í hlut jarðeigandans. Með skattinum er reynt að ráða bót á þessu. Hitt atriðið er að ráða bót á því, að kapitalið flytjist burt úr sveitunum, með því að láta nokkurn hluta verðhækkunarinnar renna til sveitarfélaganna. Svo tók ég það fram, að þessu yrði ekki náð nema að litlu leyti með þessu frv., en það væri spor í rétta átt og hvert hænufet í þá átt að láta almenning búa að umbótunum, sem gerðar væru, en láta þær ekki falla í skaut jarðeiganda, ætti mitt fylgi og þess vegna væri ég með frv.

Hitt er svo annað, að ég tel það eðlilegt, að ríkið eigi allar jarðir, en það kemur ekki þessu máli við. Ég er hins vegar reiðubúinn að ræða það mál við hv. þm. Barð., hvenær sem tilefni gefst til.

Það, sem hann sagði um ríkisjarðirnar, er ekki rétt nema hvað snertir einstaka jarðir og menn, sem aldrei sjá út fyrir eigin vasa og buddu, eins og hann sjálfur.