09.02.1948
Efri deild: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (2873)

104. mál, sölugjald af jörðum

Gísli Jónsson:

Það er í rauninni enginn ágreiningur milli mín og hv. 1. þm. Eyf. Ég sagði, að hann hefði ekki viljað brjóta samkomulag, sem gert hefði verið um málið, og nú segir hann, að samkomulag hafi orðið um málið á búnaðarþingi og þess vegna sé hann því meðmæltur. Sama sagði hann í sambandi við dýrtíðarl. Þá var það samkomulag flokkanna, sem hann vildi ekki brjóta. Annars er skoðun okkar á málinu lík.

Hins vegar er rétt að geta þess, að það var ekkert samkomulag á búnaðarþinginu um þetta. Hv. þm. Borgf. (PO), sem sæti á í stjórn Búnaðarfélags Íslands, hefur sagt mér, að hann muni berjast gegn þessu frv. í Nd. (ÞÞ: Hann á ekki sæti á búnaðarþingi). Nei, en hann er í stjórn Búnaðarfélags Íslands. (PZ: Hvernig féllu atkv. á búnaðarþingi?) Meiri hl. var með því, en þar fyrir var ekki um samkomulag að ræða.

Ég er búinn að heyra það oft hjá öðrum en hv. þm. Dal., að þm. Barð. sé vitlaus og illgjarn.(ÞÞ: Þetta sagði ég ekki). En þetta eru náttúrlega engin rök og kemur ekki nærri kjarna málsins. Svona kjaftshögg lenda beint aftur á þann, sem gefur þau. Ég hef heyrt svipuð rök frá ráðherrastólunum, en hvað oft hafa þeir ekki orðið að éta þau ofan í sig? Það eru léleg rök að hafa ekki öðru til að svara þeim, sem rekur ofan í mann vitleysurnar, en að hann sé vitlaus og flámæltur.

Við hv. 1. þm. N-M. (PZ) mun ég ræða við næstu umr. Ég vil ekki þreyta hæstv. forseta frekar nú.