29.01.1948
Efri deild: 50. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (2886)

137. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Eins og tekið er fram í grg. þessa frv., er frv. flutt af n. eftir ósk frá ráðh. Sú eina breyt., sem þar er farið fram á frá núgildandi l., er sú að ráðh. yrði veitt heimild til þess, þegar í hlut eiga fámenn læknishéruð, að auka styrki til læknisbústaða og sjúkrahúsbygginga upp í allt að 3/5 af byggingarkostnaði, í staðinn fyrir að í 1. er ætlazt til, að það sé 2/5.

Þegar n. tók þetta mál til flutnings, tók hún ekki endanlega afstöðu til málsins. Það kom fram í n., að það væri dálítið mikið að láta ráðh. hafa þessa heimild, því deila má um, hver séu hin fámennu læknishéruð. Þá kom og fram í h., hvort ekki væri reynandi að binda þetta frekar, t. d. með tölum um, hve margir íbúar þyrftu að vera í læknishéraði, sem nyti þeirra réttinda. En um það var ekki tekin afstaða.

Nú vil ég fyrir hönd n. biðja hæstv. forseta að taka málið ekki aftur á dagskrá, til þess að ekki þurfi að vísa því til n., en n. mun halda um það fund og þá taka afstöðu til málsins og þá koma sér saman um brtt. við frv.

Ef við lítum á læknishéruðin, þá eru t. d. 5 á landinu, þar sem íbúatalan er fyrir neðan 500, 286 þar, sem fæst er, 314 og 329, 444 og 498. Ef maður vildi t. d. binda sig við íbúatöluna 500, þá eru a. m. k. á tveimur þessara staða til læknisbústaðir, og þá eru þessi aukaútgjöld ríkissjóðs bundin við 3 hin. Vildi maður fara með töluna í 1000, væru það 16 læknishéruð, sem hefðu neðan við 1000 íbúa, og búið er að byggja læknisbústaði í fullum helming þeirra. — Hvaða afstöðu n. tekur um þetta, skal ég ekki slá föstu nú, en bið hæstv. forseta að lofa n. að fá tíma til að athuga þetta milli umr. og taka það ekki aftur á dagskrá, fyrr en hann hefur frétt frá henni.