30.01.1948
Efri deild: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (2914)

140. mál, fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Flm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég veit, að allir hv. þdm. minnast þess, að á síðasta þingi var flutt frv. um fiskiðjuver ríkisins að tilhlutun þáv. atvmrh. Þar var gert ráð fyrir, að ríkið reisti 4 fiskiðjuver, á Suðurnesjum, í Hornafirði, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði, þannig að ríkið tæki að sér forustu í fiskiðnaði landsmanna eins og að undanförnu í síldariðnaðinum. Þetta frv. náði ekki samþykki eða öllu heldur dagaði uppi á síðasta þingi í Nd. og hefur ekki komið fram aftur á þessu þingi, meðal annars af því, að ekki hafa þótt vera sömu ástæður fyrir hendi gagnvart sumum af framangreindum stöðum, og kem ég nánar að því síðar. En hins vegar hef ég leyft mér ásamt hv. 1. þm. N-M. að flytja frv. um fiskiðjuver ríkisins í Höfn í Hornafirði. Það blandast engum hugur um það, að við höfum stórkostlega þörf fyrir að auka fiskiðnað okkar. Við höfum lengst af verið fiskveiðaþjóð, og var lengi vel eina fiskiðnaðaraðferð okkar að verka í salt, og vorum við komnir þjóða lengst í þeirri grein. Það hefur hins vegar gerzt í heiminum, að okkur er ekki nægilegt að framleiða góðan saltfisk, og höfum við því orðið að fara inn á nýjar leiðir.

Hv. þdm. muna, að upp úr kreppuárunum í kringum 1930 varð sú stefna ofan á að inniloka sem mest öll viðskipti með tollmúrum, og varð þá saltfiskmarkaður okkar mjög þröngur, og var þá farið inn á þá braut að byggja hraðfrystihús, og hefur fiskurinn að miklu leyti verið hraðfrystur síðan. Fyrst og fremst hefur þó verið um það hugsað að verka aðeins það verðmætasta af fisknum. þ. e. a. s. flökin, en hitt hefur að miklu leyti farið til spillis, svo að okkur vantar enn allmikið til að hafa náð gernýtingu aflans. Það er enn fremur kunnugt, að þegar kom fram á stríðsárin, þá jókst útflutningur á ísvörðum fiski til Englands. En nú er það uppi á teningnum, að ísfiskmarkaðurinn er lokaður nema fyrir togarana, sem sigla á England, og það litla af vélbátafiski, sem mun verða hægt að selja til Vestur-Þýzkalands. En þó að ísfiskmarkaðurinn væri mikill á stríðsárunum, þá er hann alltaf ótryggur á friðartímum, og verður þá alveg nauðsynlegt að auka möguleikana á því að hagnýta aflann, einkum þegar þess er gætt, að fiskiskipaflotinn hefur nær tvöfaldazt á tveim síðustu árum, eða vaxið úr 24400 smál. árið 1945 upp í 44200 smál. árið 1947 skv. upplýsingum Fiskifélagsins og er þá enn ókominn helmingur nýsköpunarskipanna. Það er því augljóst mál, að við verðum að gæta þess alvarlega að hafa möguleika til að verka aflana, þegar veiðiskipin eru orðin svo mörg, og þá eru þeir möguleikar fyrir hendi — í 1. lagi að fjölga hraðfrystihúsunum, í 2. lagi auka niðursuðu, fiskúrgangsvinnslu og fiskimjölsframleiðslu og í 3. lagi söltun, því að alltaf má gera ráð fyrir einhverjum saltfiskmarkaði. Það er því ljóst, að hefjast verður handa um að efla fiskmarkaðinn til þess að tryggja rekstur bátaflotans og afkomu útvegsmanna. Þessi nauðsyn er sérstaklega brýn á Hornafirði.

Ég gat þess áðan, að í frv., sem kom fram í fyrra, hefði verið gert ráð fyrir, að ríkið reisti fiskiðjuver á 4 stöðum. Á tveim þessara staða, Vestmannaeyjum og Ísafirði, hafa nú verið hafnar framkvæmdir í þessa átt fyrir forgöngu bæjarfélaganna og útgerðarmanna á staðnum, og hygg ég að þetta sé aðalástæðan fyrir því, að frv. hefur ekki verið flutt aftur á þessu þingi. Á Hornafirði er hins vegar engin von til, að skapazt geti slík samtök, með því að þar eru ekki nema um 350–360 íbúar og útgerð ekki mikil. Þrátt fyrir það, að fámennt sé í Hornafirði, þá hefur þar verið aðalverstöð Austfjarðabátanna um 30 ára skeið. Þar voru alltaf fram undir stríð 30–40 vélbátar gerðir út til veiða. Aflinn var yfirleitt saltaður, en sú verkun féll niður á stríðsárunum, en í staðinn var fiskurinn fluttur ísaður til Englands. Á síðustu vertíð, þegar ísfiskmarkaðurinn lokaðist í Englandi, þá var farið að salta aflann, en veiðin varð svo mikil, að miklum erfiðleikum var bundið að fá aflann saltaðan, og urðu bátar oft að liggja í landi, þótt gæftir væru, vegna skorts á húsrúmi til söltunar, eða þá að bátarnir urðu að fara með afla sinn til Austfjarðahafna, en það gerir alla útgerðina mun óhagstæðari. Á Hornafirði eru sem sé svipaðar aðstæður fyrir fiskveiðar og hér í Rvík fyrir vetrarsíldveiðarnar, og sýnir þetta, að það þolir enga bið, að byggja þarna fiskiðjuver og bæta þar með aðstæðurnar til að verka afla bátaflotans, og til þess er þetta frv. flutt. Það er, eins og ég sagði í upphafi svipað því frv., sem flutt var hér á Alþ. í fyrra um fiskiðjuver ríkisins, og sé ég ekki ástæðu til að ræða það nánar, en vildi óska þess að, að þessari umr. lokinni yrði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.