16.02.1948
Efri deild: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (2940)

155. mál, húsaleiga

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég tel rétt á þessu stigi málsins að láta mína afstöðu til þess koma fram, Þó að mínir flokksmenn hafi talað hér. Ég hef nokkur kynni af þessum málum, ekki síður en þeir húseigendur, sem hér hafa talað fyrir þessu frv. Og það tel ég enga tilviljun. að þeir, sem beita sér fyrir þeim breyt., sem stefnt er að með flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, eru í hópi húseigenda. Með hliðsjón af því tel ég mig í hópi leigjenda, og mér skilst, að þeir megi gjarnan eiga hér málsvara í hv. þd., ekki síður en húseigendurnir, sem eiga sterka málsvara hér. En það er kaldhæðni örlaganna, að fulltrúi bændanna einn, hv. 1. þm. N-M., skuli hafa gerzt flm. að þessu frv. Kannske hann hafi verið sendur af bændum austur í Norður-Múlasýslu til þess að þrengja kjör smælingjanna hér í Reykjavík? Ég tel vísast, að sízt mundi honum hafa verið falið það umboð af kjósendum hans í Norður-Múlasýslu, því að það er svo, að baráttan í þessu máli er barátta þeirra mörgu smáu og hinna miklu færri, sem taldir eru bjargálna menn hér í bænum. Yfirleitt eru leigjendur menn, sem ekki hafa haft efni eða getu til þess að byggja yfir sig hús. Það eru reyndar til menn, sem eru leigjendur og hafa notað sér réttindi, sem leigjendum eru veitt með húsaleigul., og eru leigjendur þess vegna. En yfirleitt er í þessu efni um að ræða hagsmunabaráttu milli hinna fátæku annars vegar og hinna efnuðu hins vegar hér í bænum og annarra, sem hús eiga. Og húsaleigul. voru í upphafi sett til þess að koma í veg fyrir, að hér skapaðist óhæfilega hátt verðlag á afnotum af húsnæði í landinu, og með því var reynt að hafa áhrif á verðlagið í landinu, til þess að það hækkaði ekki upp úr öllu valdi. Þetta var líka einn þátturinn í því að vernda þá fátæku í landinu gegn áhæfilegu braski í sambandi við þessi mál, sem alltaf fylgir verðþenslu á stríðstímum. Þannig varð verðþensla í húsaleigumálunum í fyrra heimsstríðinu, sem hefði endurtekið sig í sömu mynd, ef l. hefðu ekki verið sett til þess að reyna að koma í veg fyrir það. Ég er orðinn það gamall, að ég get sagt um það, hvernig ástandið var, áður en húsaleigul. voru sett í fyrra stríðinu. Og nákvæmlega það sama hefði orðið upp á teningnum, að því er snertir síðari stríðstímann, ef húsaleigul. hefðu ekki verið sett árið 1939, með þeim breyt., sem gerðar hafa verið á þeim síðan, að allir leigjendur hefðu verið óhæfilega upptrekktir í húsaleigunni.

Hv. flm. þessa frv. tala mjög um hróplegt ranglæti, sem húseigendur séu beittir með húsaleigul. Ég held, að of mikið sé gert úr því ranglæti. Sú meginregla gilti hér allt fram að 1939, að leiguupphæðin eftir húsnæði var miðuð við 10% af verði húsnæðisins og allt upp í 15%. Og ég verð að segja, að miðað við það fjármagn, sem þá lá í húsam, þá hafi þessi leiga gefið ágæta vexti af því kapítali, sem í húsunum lá. Nú hefur þetta fjármagn, sem í húsunum lá, verið þar óhreyft. Og ég hygg, að ef húseigendur, sem hafa átt fé sitt í húsunum, hefðu lagt sömu fjárupphæð í banka, þá hefðu þeir fengið minni arð af fénu heldur en með þeirri leigu, sem þeir fengu fyrir húsnæðið árið 1939, þegar byggt var á þessari meginreglu. Ég held því, að of mikið hafi verið gert úr því, að þrengdir hafi verið svo mjög kostir húseigenda í þessu efni eins og menn vilja vera láta. Ég veit, að báðir þessir menn, sem gerzt hafa hér málsvarar fyrir húseigendur, eiga hús með fyrirstríðsverði og geta reiknað út, hvað háa upphæð þeir fengju í vexti af sinni eign, ef þeir leigðu þau út. En hvað hefur svo skeð með þeirri þróun, sem orðið hefur nú með vaxandi byggingum? Það er rétt, að það er ekki hægt að draga dul á það, að sá svarti markaður, sem hér hefur skapazt viðkomandi húsaleigu, er mjög óheillavænlegur fyrir þjóðarheildina, fyrir utan skaða þeirra, sem orðið hafa að kaupa húsnæðisafnot á svörtum markaði. En ef einstaklingar hefðu notað sér þau ákvæði húsaleigul. að láta meta húsnæði, sem þeir hafa verið látnir kaupa sig inn í, þá get ég upplýst, að húseigendum er ekki leyft að taka hærri húsaleigu en sem svarar 7% af byggingarkostnaði húsanna, þ. e. þegar upphæðin kemst undir mat. Þannig hafa húsaleigul. verið notuð, en því miður ekki nóg, því að ef leigjendur hefðu farið með húsaleiguna undir mat, þá hefði húsaleigan verið í mörgum tilfellum lægri en hún er.

Á undanförnum árum hafa engin takmörk verið fyrir því, hvað húseigendur hafa leyft sér að taka í húsaleigu, sem hefur stafað af mjög mikilli eftirspurn eftir húsnæði og þá fyrst og fremst hér í Reykjavík. Kaupgeta fólksins hefur valdið því m. a., að fólk hefur látið sinn síðasta pening til þess að fá húsnæði með því óhæfilega háa verði, sem orðið hefur að borga fyrir það. Menn hafa orðið að borga 20 30 þús. kr., sem hvergi hefur komið fram og aldrei komið fram til skatts. Þetta er ekki vegna húsaleigul., það hefði verið sama ástandið, þó að húsaleigul. hefðu ekki verið til. Þetta er vegna þeirrar miklu eftirspurnar, sem hefur verið eftir húsnæði. Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram í umr., að í bæ, sem er jafnört vaxandi eins og Reykjavík, hlýtur alltaf að verða nokkur hluti af fólki, sem verður að lúta mjög óheilnæmu húsnæði, og það er því miður allt of stór hópur hér í þessari borg, sem lifir við slík kjör. En svo vill til, að það veit enginn, hvað sá hópur er stór. Það verður ekki séð af skýrslu mþn., hvað stór hluti af íbúðum hér er með leigukjörum, sem hafa verið ákveðin samkvæmt húsaleigul., og ekki heldur með leigukjörum frá 1939, en þetta er allverulegur hluti, og það er sá hluti fólks, sem hefur búið í þessum bæ um tugi ára. Margt af þessu fólki er efnalítið og mundi með þessari breyt. verða vísað út og mundi í mörgum tilfellum ekki geta náð í húsnæði aftur og lenti þá sennilega í því sama og tugir og hundruð af fólki nú, að búa í hermannaskálum eða sumarbústöðum, t. d. í Kópavogshreppi, þar býr fólk við húsnæði, sem er lélegt og ekki mannabústaðir. Eitthvað svipað yrði ástandið, ef þetta frv. yrði samþ. Fólk yrði að hrökklast úr bænum í sumarbústaði og annað slíkt. (GJ: Hvaða fólk kæmi í íbúðirnar?) Það kæmi fólk utan af landi. Eftirspurnin eftir húsnæði frá fólki utan af landi er svo mikil, að húsaleigul. eru brotin. Fólk er svo tilhliðrunarsamt að hleypa fólki inn utan af landi, sem ekki á rétt á því. Það er vitað, að húsnæði er keypt hér af mönnum utan af landi, sem vilja gjarnan búa hér í sælunni, sem þeir halda, að sé í Reykjavík. Það er stór hluti af fólki, sem streymir inn í bæinn og kaupir upp húsnæði fyrir þeim, sem fyrir eru. Hér er verið að opna gáttirnar fyrir innstreymi af slíku fólki. Nú er það svo, að ef við flokkum niður þá menn, sem leigja, þá eru það aðallega fyrir flokkar manna. Í fyrsta flokki eru menn, sem leigja í húsum, sem þeir búa sjálfir í, og leigja út frá sér til þess að lækka íbúðarkostnaðinn, og má vera, að það liggi fyrir skýrslur um það. Í öðrum flokki eru fráleigjendur, og hv. þm. var að minnast á, að menn leigðu fráleigjendum svo hátt, að þeir borguðu stóran hluta af leigunni. En það má benda á það, að í l. er gert ráð fyrir því, ef um fráleigjanda er að ræða, að þá skuli húseigandi vera með í ráðum um að leigja slíkum fráleigjanda. Í þriðja flokki eru svo þeir, sem hafa keypt upp húsnæði hér í bænum, ekki sízt gömul hús, til þess að ávaxta fé sitt á þann hátt að leigja, helzt með okurverði. Ég þekki ýmsa menn, suma úti á landi, sem hafa lagt sitt fjármagn í það að kaupa upp hús í Reykjavík og eru kallaðir leigustrokkar. Það er stór hluti af mönnum, sem hefur gert slíkt og lifir af því að leigja út hús, og það er velgerningur við þessa menn að fara að gefa þeim frítt um það að geta rekið út til þess að geta fengið að leigja út með tvöfaldri eða þrefaldri leigu. Það kann vel að vera, að það liggi ekki fyrir nákvæmar upplýsingar frá mþn. um það, hvað þessi flokkur manna er stór, en ef málið færi til n., þá vildi ég gjarnan, að hún athugaði þetta út af fyrir sig, hvernig húseigendahópurinn skiptist hér í bænum, því að það getur gefið upplýsingar um það, hvaða interessur eru hér á bak við. Mér er sagt, að innan húseigendafélagsins láti einmitt þessi flokkur manna nokkuð hátt, sem eiga nógu mörg hús til að leigja. Það eru ekki menn eins og hv. þm. Barð., sem hafa hæst í húseigendafélaginu, því að hann leigir víst heldur lítið af sínu húsi, þó að hann tali hátt fyrir hönd þessarar stéttar. En þetta mun vera kjarni málsins, að þeir tala hæst, sem stærsta hafa interessuna og gróðann af því að leigja. Það er svo von, að hinir komi með, sem hafa hagsmuna að gæta, því að það vilja allir fá aukið fyrir sína buddu.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að það væri betra, að l. væru hreinlega afnumin, heldur en að samþykkja þessa breyt., sem hér liggur fyrir, því að í 1. gr. l. eru fyrst og fremst þau ákvæði, að það er bannað að segja upp húsnæði, og það er ef til vill hyrningarsteinninn fyrir því, að fólk hefur getað notað sér l., nema með þeim takmörkunum, sem l. gera ráð fyrir, að hver húseigandi noti sér, ef maður hefur í frammi óhæfilega framkomu, stendur ekki í skilum o. s. frv.

Að öðru leyti á ekki að vera heimilt að segja mönnum upp. Varðandi þau dæmi, sem hv. 1. þm. N-M. var að koma með, að menn lokuðu fyrir salerni, geymslu o. s. frv., þá veit ég, að það eru til þessi dæmi, en ég skal segja honum dæmi af sjálfum mér. Árið 1919 hafði ég búið hjá sama leigjanda mjög friðsamlega allt frá 1914. Ég hafði hækkað við hann húsaleiguna, eftir því sem sanngjarnt þótti, um 50%. En svo var búinn til ófriður milli heimilanna tveggja svo hatrammur, að jafnvel börnin voru ekki í friði. Hver var ástæðan? Annar maður hafði boðið honum tvöfalt verð í húsnæðið. Það er ekkert annað en græðgi í meiri peninga, sem kemur af stað svona ófriði milli heimila, sem yfirleitt hafa komið sér prýðilega saman, engin yfirvöld geta komið í veg fyrir það, mannfólkið er einu sinni svona. Þetta er bara dæmi úr mínu eigin lífi. Ég varð að hrökklast út vegna þessa ófriðar. Ég varð að búa hálfan mánuð í eldhúsi hjá vinafólki mínu. Hið sama mundi verða upp á teningnum nú. Leigjendum yrði sagt upp í hundraða- og þúsundatali, og fátækar fjölskyldur hefðu engan stað til þess að flýja inn í. Það mundi sennilega verða flúið á arma bæjarstjórnarinnar til þess að fá einhver ráð fyrir það fólk, sem væri á götunni. Hvað gæti bæjarstj. gert? Hún hefur takmarkað húsnæði. Ég held, að hermannaskálarnir séu meira en uppteknir, því að mér er tjáð, að fyrir skömmu hafi um 1800 manns búið í hermannaskálum í nágrenni Reykjavíkur, sem ekki hafa neina von um að komast í mannsæmandi húsnæði. Þannig er því miður ástatt í þessari borg. Og svo á að opna allar gáttir til þess að skapa það ástand, sem er hverjum heilsýnum manni sýnilegt. Ég verð að segja það, að ég þekki báða þessa hv. þm. vel og trúi ekki, að þeir vilji, að þetta ástand skapist hér í bænum. Það skal viðurkennt af mér, að ég býst við. að Reykjavík sé sérstæð í þessum efnum. Það kann að vera, að það séu einhver vandræði í stærri kauptúnum landsins. Hins vegar neita ég því, að það sé nokkuð líkt því, sem er í Reykjavík. Því er haldið fram, að það sé betra ástand nú heldur en 1939. hlutfallið milli húsnæðis og mannfjölda sé betra nú heldur en þá. Mér þætti gaman, að þeir, sem halda þessu fram, gætu rökstutt þetta mál. Ég hef það meira á tilfinningunni heldur en ég geti þar farið með tölur, að það sé rétt, sem haldið er fram, að fólk bjó yfirleitt þrengra og í mjög slæmu húsnæði 1938–1939, en hið betra húsnæði lá þá mjög á lausum kili. Nú er ekki talað um, hvort húsnæði sé betra eða verra, það er alveg sama. Það eru náttúrlega til góðar íbúðir, sem eiga að leigjast fyrir svo ógurlega hátt verð, að enginn launamaður, þó að hann sé í hærri flokki embættismanna, ræður við þá leigu, sem krafizt er, þegar jafnvel 4 herbergja íbúðir eru komnar upp í 1500–2000 kr. á mánuði. En það liggur í augum uppi, að það geta ekki allir menn tekið svona húsnæði, og spurningin er þá, hvort þetta húsnæði þarf að vera svona dýrt. Við vitum, að í byggingarmálunum er það ástand, að húsin verða dýr. Og þá kem ég að því, að ég er enn á þeirri skoðun, að til þess að bjarga hinu efnaminna fólki í Reykjavík þá dugi ekkert annað en verkamannabústaðalöggjöfin til að bjarga því frá því að hrekjast á milli ágjarnra húseigenda. Og það ber að sjálfsögðu að leggja á það mikla áherzlu fyrir allan almenning í bænum að framkvæma þessa löggjöf eins og þjóðfélagið frekast hefur efni á, og meðan við erum ekki komnir lengra í því að geta fullnægt húsnæðisþörfinni, þá sé ég ekki, að við getum opnað allar gáttir til þess að hrekja það fólk sitt í hverja áttina, jafnvel út á götuna, eins og það almennt er kallað. Þá hefur verið talað um, að það væri hróplegt ranglæti að láta þessa löggjöf vera enn þá í gildi, það séu nú 2½ ár síðan styrjöldinni lauk. Hér hefur verið upplýst, að gömlu húsaleigul. frá 1915–1916 hafi gilt í 9 ár eftir stríðslok, og ég hygg, að hver sanngjarn og dómbær maður verði að játa það, að ástandið er nú sízt betra heldur en það var eftir hina styrjöldina. Ég hygg, að hlutfallið milli fólksfjölda og húsnæðis nú sé ekki í samræmi við það, sem var 1939. Það var meira húsnæði 1939 þrátt fyrir allt heldur en nú, og veldur því ekki fæðingaaukningin ein, heldur þetta ógurlega aðstreymi úr öllum hlutum landsins, sem liggja fyrir opinberar skýrslur um.

Ég hef tæpt á því, að almennt sé þessi harmagrátur um rétt húseigendanna málaður of svart og því ekki eins mikil ástæða til að halda því fram sem höfuðrökum í þessu máli. Hitt er skiljanlegt, að jafnvel þeir, sem eiga hin gömlu hús og ekki eingöngu vilja leigja, heldur selja, — því að það er önnur hlið á málinu, að til þess að geta selt húsin þarf að rýma þau. — vilji fá fyrir þau þrefalt til fjórfalt verðmæti við það, sem var 1939. Hvað lengi það getur staðizt, að menn geti selt fyrir þetta háa verð, er ekki gott að segja, en heldur er peningavelta manna þverrandi en vaxandi. En þetta hefur gerzt undanfarin ár, að menn hafa keypt gömul hús fjórföldu og fimmföldu verði, og margir húseigendur hafa viljað losa húsin til þess að geta selt þau. Og ég vil segja: Er nokkur ástæða til þess að lyfta undir þetta brask, sem hér um ræðir? Við höfum nýverið verið að tala um jarðabrask og söluskatt af jörðum, og mér hefur heyrzt, að hv. 1. þm. N-M. væri lítið hrifinn af því, að jarðir komizt upp í svo ógurlega hátt verð fyrir brask hneigð einstakra manna. En þetta má ske í Reykjavík, þar má ýta undir brask með öll hús. Hv. þm. ætti að vera sjálfum sér samkvæmur, þegar hann er að flytja mál fyrir sína umbjóðendur, sem eru bændur, sem búa á jörðunum, hann ætti líka að hugsa um fólkið, sem býr í gömlu húsunum hér í Reykjavik.

Því hefur verið haldið fram, og um það skal ég ekki deila, að sums staðar úti á landi væri þörfin fyrir húsaleigul. ekki — eins brýn og hér. Um þetta skal ég ekki fullyrða, fyrr en fyrir liggja öruggar heimildir í því efni. Mér hefur þó verið tjáð, að í bæjum, sem komnir eru upp í 2000 íbúa, þar sé húsnæðisskortur áberandi, og þar sem húsnæðisskortur er, þar er opin leið til þess að okra. Þessi löggjöf hefur verkað eins og bremsa á þetta. Menn hafa ekki getað sett húseignir í toppverð.

Þá hefur mikið verið talað um, að húseigendur hafi orðið hart úti. En við skulum athuga, hvað t. d. löggjöfin um dýrtíðarráðstafanir leggur mönnum á herðar. Húseigendur eru ekki teknir þar, nema að, því er snertir nýju húsin, ekki húseigendur gömlu húsanna. Hvað leggja 1. á kaupsýslufólkið? Við heyrðum tóninn í kaupsýslumönnunum. Þeim fannst sinn stakkur nokkur þröngt skorinn, þegar um álagningu er að ræða. Við vitum að margir launþegar hafa kveinkað sér við að laun þeirra hafa verið stýfð. En við húseigendum er ekki hróflað, svo að ég hygg, að þetta ranglæti, sem menn eru að breiða sig út yfir hér, sé ekki eins áberandi og menn vilja vera láta, ef þetta er krufið til mergjar. Húseigendur fá það sama og þeir fengu áður. Það er ekki farið inn á þeirra svið. Það er ekki verið að þrengja þeirra kosti.

Ég ætla ekki að svara fyrir hæstv. ríkisstj. í þessu máli. En ég held, að með hvað miklu kappi sem menn sækja þetta mál og verja það, þá verði þó eitt að ráða sem höfuðsjónarmið, hvort við viljum reyna að standa við það að varna nýrri verðbólgu, sem verður afleiðingin af því að gefa laust allt varðandi húsaleigul., því að mér er fullkomlega ljóst, að um leið og húsaleigan fær að blómgast á frjálsum markaði, eins og ætlazt er til, og hver einasti maður verður að fara að kaupa sér helmingi dýrara húsnæði en áður, þá yrði afleiðingin af því auknar kröfur um launahækkanir hjá öllum þorra manna. Út frá þessu sjónarmiði held ég, að það sé augljóst, að með þessu er verið að knýja fram öngþveiti í húsnæðismálunum í þessum bæ, bara með uppsagnarákvæðinu einu, því þó að flm. ætlist til, að fram fari mat á húsnæðinu, þá er vitað, að það verður farið í kringum það, alveg eins og gert er í dag. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé í rauninni andvana fætt mál, og ég dreg enga dul á, að ég býst ekki við, að neinar till. komi frá meiri hl. heilbrmn., sem ég geti sætt mig við, og mun ég því verða á móti málinu strax við 1. umr. En fari svo, að málið fari til n., þá ætlast ég til, að hún afli allra þeirra gagna, sem mögulegt er, í þessu máli, svo að ekki verði farið á hundavaði í þeim till., sem n. vill gera, til stórtjóns fyrir alla, sem undir l. búa í dag. Það verður að ætlast til þess af n., að hún leggi sig fram um sannan rökstuðning í málinu, ef hún vill, að á hana sé hlustað af andstæðingunum. Ég get svo látið máli mínu lokið, þar sem fundartími er þegar kominn að þrotum, en þar sem málið er ekki útrætt, fæ ég sennilega tækifæri til að opna munninn í annað sinn, ef mér finnst ástæða til.