20.02.1948
Efri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

155. mál, húsaleiga

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég geri nú frekar ráð fyrir að langar umr. um þetta mál hafi ekki mikla þýðingu. Menn eru einkennilega mikið og hafa verið, margir hverjir fyrir fram sannfærðir um það, að afnám húsaleigul. — eða það gagnstæða — sé hið rétta í þessu máli, og mönnum er ákaflega ógjarnt að hlusta þar á rök. Þetta var svo, þegar gömlu húsaleigul. voru afnumin eftir næstsíðustu styrjöld, og er mér það mjög minnisstætt, hvernig sú barátta var, því að ég tók verulegan þátt í henni. Menn voru yfirleitt þeirrar skoðunar, að ef húsaleigul. væru afnumin, mundi koma hér til stórkostlegasta húsnæðisleysis, og þeir sem beittu sér fyrir þessu, voru svo eindregnir, að ég hef sjaldan talað við sannfærðari menn. Reynslan varð þó sú að afnám þeirra l. leiddi til þess í fyrsta lagi, að ekkert skeði af þeim vandræðum sem þeir, sem beittu sér fyrir þessu höfðu spáð, og í annan stað rættist fram úr húsnæðisvandræðunum á miklu auðveldari hátt en menn höfðu gert ráð fyrir og einmitt vegna afnáms l. Skal ég aðeins koma að því í lok ræðu minnar, hvers vegna þessu er þannig háttað.

Í fyrsta lagi vil ég segja um þessi l., að þegar þau voru sett, var gert ráð fyrir því, að öllu verðlagi yrði haldið niðri í landinu og það mundi takast. Þegar húsaleigul. voru sett, var húseigendum ákveðin húsaleiga, miðað við það að peningarnir væru þrisvar sinnum verðmeiri en þeir eru nú. M. ö. o., síðan l. voru sett, hefur sú húsaleiga, sem húseigendum er ætluð samkv. l., ekki orðið meiri en í mesta lagi 1/3 af því, sem gert var ráð fyrir við setningu 1., því að það var ákveðið gert ráð fyrir því, þegar 1. voru sett, að það mundi takast að halda niðri verðlagi og kaupgjaldi í landinu og á þeim grundvelli er löggjöfin reist. Þessi grundvöllur hefur smátt og smátt horfið, þannig að það eru alls ekki til staðar þær forsendur fyrir húsaleigul. í heild, sem voru til staðar, þegar þau voru sett, og að eðlilegri venju ættu þessi l. þess vegna að hverfa úr sögunni. Nú geng ég inn á það, eins og ýmsir aðrir, að vegna þess að sú vísitala, sem reiknað er með í landinu, fer mjög eftir því hver ráðgerð húsaleiga er, þá geng ég inn á það, að ekki sé hægt að afnema húsaleigul. með öllu, heldur beri aðeins að sýna þá tilhliðrun, sem sýnist sjálfsögð, að húseigendur fái að ráða því, hverjum þeir selja húsnæði á leigu. Það hafa verið færð svo ýtarleg rök fyrir því, að þetta sé réttlátt, að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér í þessari hv. d. En ég vildi þó aðeins með örfáum orðum gera að umræðuefni það, sem helzt hefur komið fram hér og annars staðar gegn þessum breyt.

Sumir þeirra, sem mæla gegn afnámi þessara ákvæða, segja sem svo, að með því að samþykkja eins og frv. gerir ráð fyrir, að húseigendur skuli hafa heimild til að segja leigutökum upp, þá sé þeim opin leið, að þvinga fram hækkaða leigu. Það er ekki til neins að ganga fram hjá því, að þetta eru langsterkustu rökin. sem teflt er fram gegn afnámi ákvæðanna, og þess vegna vil ég fara um það nokkrum orðum. Þeir segja sem svo: Afnám á þessum ákvæðum l. eða m. ö. o. heimild til handa húseigendum til að segja upp þýðir sama og afnám laganna í heild, vegna þess að húseigendum er þá í lófa lagið að þvinga fram hækkun á leigunni. Um þetta er fyrst og fremst það að segja, að það eru ákaflega fáir leigutakar, sem búa lengur við gömlu leiguna. Ég man ekki hlutfallið nákvæmlega. sem kom fram, þegar þetta var rannsakað af þar til skipaðri n. fyrir 1–2 árum síðan en það mun hafa komið í ljós, að mikill minni hluti þeirra manna, sem bjuggu í gömlu húsunum 1939, bjó í húsunum, þegar rannsóknin fór fram. Meiri hlutinn hafði flutt úr gömlu húsunum, og það veit hver maður, að leigan hefur við þessa flutninga óhætt að segja alveg undantekningalaust breytzt eitthvað verulega. Þetta munu menn segja, að séu rök fyrir því, að frekari breyt. mundu jafnframt breyta leigunni frá því, sem nú er, gagnvart þeim, sem eftir eru í gömlu húsunum. En þegar athugað er, hve miklar breytingar hafa orðið, síðan n. gerði þessa rannsókn, kemur í ljós, að það eru ekki nema örfáir leigutakar, sem raunverulega búa við þessa lagavernd. sem eftir er. Ég gæti nefnt alveg sæg af dæmum, t. d. er hér ríkisstofnun, sem hefur geysimargt fólk í þjónustu sinni, þar sem er einn einasti maður, sem býr við gamla húsaleigu, sem vísitalan er reiknuð eftir. Þar er viss maður, sem býr við 140 kr. húsaleigu, með vísitölunni, en svo er sægur, sem vinnur fyrir sama kaup og lægra kaup, en borgar upp í 1000 kr. í leigu. Sumir þessir menn hafa orðið að segja upp vinnunni, því að þeir þurfa að leita sér að betur borgaðri atvinnu vegna húsaleigunnar. Hvaða eftirsjón er þá í ákvæðum, sem eru orðin þannig, að svo að segja í hverju húsi hér í bænum, í hverri ríkisstofnun. í hverri einustu skrifstofu eru örfáir menn af hundraði, sem búa við þessa leigu, en menn, sem hafa sama kaup eða lægra kaup, borga kannske tífalda leigu? Svona hlutum er ómögulegt að halda uppi í einu þjóðfélagi. Hvaða réttlæti mundi þm. þykja í því, ef við ynnum í einhverri stofnun og hefðum t. d. 2 þús. kr. í laun auðvitað mundum við krefjast þess, að fyrir sömu vinnu væru borguð sömu laun — og sumir þm., sem byggju við þetta, borguðu 120 kr. í húsaleigu, en allir hinir yrðu að sætta sig við að borga upp í 1000 kr. ?

Ég ætla ekki að verða langorður, en aðeins nefna annað dæmi þess, hvaða vernd er í þessum l. fyrir leigutaka í þessum bæ. Ég ætla að nefna dæmi varðandi sjálft ríkið, en ríkið varð að taka nokkuð stóra hæð á leigu í þessum bæ, sem liggur alls ekki nærri miðbænum. Hvað haldið þið, að húsaleigunefnd hafi metið það? Þessi húsaleigunefnd, sem á að vera verndari fyrir borgarana, hafði metið þessa einu hæð fyrir 65 þús. kr. og að það skuli vera þannig borgað í næstu 5 ár. Ef maður rannsakar þetta mat, kemur í ljós, að það er ½ millj., sem, er borguð í húsaleigu fyrir þetta hús. Þetta er öll verndin. Nú er búið að skjóta þessu máli til yfirhúsaleigunefndar. Ég gæti nefnt hundruð dæma í þessu sambandi. Það þýðir ekki að stinga kollinum ofan í sandinn og telja sér trú um, að húsaleigul. séu verndari fyrir borgarana.

Ég nefni aðeins þessi tvö dæmi til þess að tefja ekki tímann. Annað, þar sem um einstakling er að ræða, en hitt, þar sem ríkið er aðili, og sýna þessi dæmi, hversu mikil vernd þessi löggjöf er. Sannleikurinn er sá, að þegar litið er á þær skýrslur, sem fyrir liggja, þá er það auðsætt, að byggt hefur verið miklu meira en samsvarar innflutningi til bæjarins og fólksfjölgun, og þó gildir þetta miklu meir nú heldur en þegar skýrslurnar voru gerðar, því að flutningur til bæjarins hefur rénað síðan og meira að segja hafa nokkrir flutzt burt, því að margt fólk var hér á stríðsárunum sem foksandur.

Byggingar hafa aldrei verið meiri en nú og til þess að sjá það þurfa menn ekki annað en líta hérna suður á Melana og austur í Hlíðarnar, en þar voru tún fyrir 2–3 árum, en nú eru þau þéttsetin af stórbyggingum. Samt sem áður hafa húsaleigul. ekki orðið til þess að koma í veg fyrir það, að enn eru húsnæðisvandræði, og er auðvelt að gera sér það ljóst, hvers vegna svo er og hvers vegna mjög mikið af húsnæði nýtist alls ekki. Ég vildi biðja þá, sem eru fylgjandi húsaleigul., að taka sér ferð á hendur suður í Kaplaskjól og austur í Hlíðar til þess að sjá, hversu margar íbúðir þar eru, sem standa auðar, en það stafar af því, að ekki er hagkvæmt að leigja þær, sökum þess að þessar íbúðir á að selja, og ekki er hægt að selja þær, nema þær standi auðar, og þess vegna þora menn ekki að leigja þær. Þannig er ástandið og húsaleigunefnd hefur alls ekki ráð yfir að koma þessu öðruvísi fyrir. Fjöldi manna býr miklu rýmra en annars vegna þess, að þeir vilja ekki hleypa leigutökum inn í íbúðir, til þess að þeir geti seinna, þegar á þarf að halda, leigt vinum sínum eða venzlamönnum, t. d. börnum sínum, sem kunna að vera fjarverandi um stundarsakir. Það er því ekkert að furða, þó að menn vilji ekki festa herbergi sem þeir sjálfir kunna að hafa not fyrir eftir nokkra mánuði, og ég hygg, að þetta gildi jafnt, hvort sem menn eru löghlýðnir eða ólöghlýðnir. Ég er hér ekki að tala út í bláinn, Því að ég hef komið í fjöldamörg hús, þar sem svona stendur á. Einnig veit ég, að oft er það svo, að ef menn gætu losnað við leigjendur úr íbúðum sínum, þá mundu þeir leigja þær fólki, sem þeir þekkja eða skyldfólki sínu, og þannig mundi í mörgum tilfellum útrýmt því ósamkomulagi sem oft á sér stað milli leigjenda og húseigenda.

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, að þessi lög vernda ekki nema lítið brot af leigutökum, en hins vegar algild rök, að þegar um lög eins og þessi er að ræða, þá koma þau aldrei að tilætluðum notum nema lítinn tíma, en koma síðar til að verka alveg gagnstætt því, sem þau áttu að verka. Það er hægt á stríðstímum að setja slík lög, svo að gagni megi verða, en þegar ástandið færist aftur í fyrra form, þá verða þau einskis verð og næsta skaðleg.

Það mun sannast og reynast, að strax og breyt. verður gerður á þessum lögum í þá átt, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, bendir til, þá mun rætast úr húsnæðiserfiðleikunum. Menn munu þá leigja nýjar íbúðir, þótt síðar eigi kannske að selja þær, því að öllum hlýtur að vera það ljóst, að menn gera það ekki að gamni sínu að láta nýjar, dýrar íbúðir standa auðar tímunum saman, þó, að kaupandi fáist ekki strax. Munurinn verður þá sá, að menn geta sagt upp leigutökunum, þegar þeim þykir henta.

Ég þarf svo ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta. Ég vil undirstrika það, að þær mótbárur, að leigan yrði stórhækkuð, ef l. yrðu úr gildi numin, hafa ekki við nein rök að styðjast. Ég ætla ekki að svara þessu öðru en því, að ég tel enga ástæðu til að láta það litla brot af leigutökum, sem þessi lög vernda, njóta lengur þessara sérréttinda. Í annan stað vil ég spyrja, hvaða gagn það sé leigutökum að lækka húsaleiguna um 10%.

Í þriðja lagi vil ég spyrja, hvaða trygging sé fyrir því, að haft hafi verið eftirlit með þeim. sem búa í gömlu húsunum, og hvaða trygging sé fyrir því, að leigan hafi ekki verið hækkuð þar. Það er enginn skyndidómstóll hér til þess að dæma um það.

Í fjórða lagi eru rök okkar þau, að jafnskjótt sem rætist úr húsnæðisvandræðunum, þá dregur stórkostlega úr okurleigunni eða hún hverfur. Þeir, sem þykjast nú bera málstað leigutakanna fyrir brjósti með því að vera á móti breyt. eða afnámi húsaleigul., þeir gera það aðeins fyrir örlítið brot hinna fjölmörgu manna, sem hér eiga hlut að máli.

Í fimmta lagi hygg ég, að þeir, sem eru á móti þessu ættu að geta séð út einhverja leið til þess að fylgjast með því, að leigan sé jöfn og réttlát, og ég fyrir mitt leyti veit, að hún muni koma miklum mun réttlátara niður, eftir að l. hafa verið afnumin, en vitanlega þarf að setja um það föst ákvæði.

Ég flyt hér ásamt hv. þm. N-M. frv. um stóríbúðaskatt, og er því ætlað að koma að nokkru í veg fyrir, að menn hafi óhóflega stórar íbúðir, og ef það frv. verður að lögum, þá ætti það einnig að verða til þess, að meira framboð verði á húsnæði. Annars virðast mér nú fullar líkur fyrir, að menn vakni einhvern daginn við það, að Reykjavík er yfirbyggð. Ég veit með vissu, að nú er til í bænum svo mikið af ónotuðu húsnæði, að menn gera sér almennt ekki grein fyrir því. Mér virtist snjallræði, að þeir hv. þm., sem berjast á móti frv. þessu, fengju sér bíltúr, t. d. hérna vestur í Kaplaskjól. Þá mundu þeir sjá allar íbúðirnar, sem standa auðar vegna húsaleigulaganna. Það er álit mitt, að ef ráðnir væru tveir dugandi menn til þess að ferðast um bæinn og afla upplýsinga um autt húsnæði, þá mundu þeir ljúka því á ca. ½ mánuði og ráðuneytið væri þar með búið að fá óyggjandi upplýsingar um þetta, svo að maður þyrfti ekki að vera með getgátur varðandi það. Það liggur í augum uppi, að þetta, yrði ekkert vandaverk og húsaleigunefnd ætti að geta innt það af hendi, svo mikið fé sem hún hlýtur fyrir starfsemi sína. Ég er ekki með þessu að ásaka húsaleigun. fyrir að hún skuli ekki hafa gert þetta, því að hún hefur enga skipun fengið um það en er aðeins að benda á það, að þetta væri ráð. Ég skal ekki að svo stöddu þreyta menn með fleiri orðum, en vil að endingu enn þá segja þeim, sem þykjast vera að vernda rétt leigutakanna með því að vera á móti frv. þessu, að það er aðeins lítið brot þeirra, sem l. koma að gagni, og það á kostnað þeirrar okurleigu, sem víða á sér stað, — og sá ógnarlegi mismunur á greiðslu fyrir þessi frumskilyrði mannlegra þarfa — húsnæðið —. þar sem einn þarf að borga 100 kr., en annar 1000 kr. af nákvæmlega sömu launum og fyrir nákvæmlega það sama, er óþolandi, og þess vegna ber að stefna að því, að afmá þennan mismun. Misrétti er eitt það versta af öllu óréttlæti, og þess vegna ætti mönnum að vera ljóst, að það er ekki hægt með nokkurri sanngirni að láta þessi l. gilda lengur.