20.02.1948
Efri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

155. mál, húsaleiga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir, að hann hefur orðið við þeirri ósk að láta n. fá álit mþn., sem hann er nú búinn að geyma hjá sér í tvö ár. (Forsrh.: Ekki er það orðið nema rúmt hálft annað ár.) Nú býst ég því við, að óhætt sé að tala um innihald þeirrar skýrslu.

Ég sagði í minni fyrstu ræðu hér, að það væri í þeirri skýrslu skýrt frá því, að til væri meira húsnæði yfirleitt alls staðar í landinu miðað við fólksfjölda heldur en hefði verið, þegar 1. voru sett.

Nú vil ég leyfa mér að lesa upp, hvernig ástandið er í þeim málum eftir þeirri skýrslu:

Menn á hverja íbúð árið 1940 og árið 1945:

Stykkishólmur

8.00

5.80

Borgarnes

5.57

6.80

Bíldudalur

5.40

4.84

Súgandafjörður

8.20

5.44

Bolungavík

5.54

5.37

Hólmavík

8.28

6.24

Hrísey

7.00

8.20

Húsavík

8.95

5:60

Eskifjörður

5.90

5.45

Fáskrúðsfjörður

5.55

5.34

Stokkseyri

5.20

4.80

Eyrarbakki

5.00

4.50

Keflavík

8.23

4.24

Ólafsvík

8.80

5.00

Sandur

4.30

4.20

Dalvík

5.6

4.50

Flateyrí

5.4

5.00

Patreksfjörður

7.3

8.42

Sauðárkrókur

6.72

6.20

Þingeyri

4.50

3.80

Reyðarfjörður

7.80

8.00

Blönduós

5.36

5.20

Akranes

5.96

5.70

Ísafjörður

9.24

9.04

Siglufjörður

7.20

7.10

Akureyri

9.40

9.00

Vestmannaeyjar

6.40

8.00

Seyðisfjörður

5.70

5.20

Neskaupstaður

7.2

7.2

Ólafsfjörður

7:61

7.8

Hafnarfjörður

8.50

svipað.

Reykjavík er 1940 með 38917 menn í 7775 íbúðum, eða 5 í hverri íbúð, 1945 eru þar 46000 menn í 9510 íbúðum, eða 4.8 í hverri íbúð. Þannig hefur íbúðum fjölgað á þessum árum meira en nemur fjölgun íbúanna. Það liggur því alveg ljóst fyrir, sem ég hafði áður haldið fram, að íbúðirnar eru rýmri nú heldur en þegar húsaleigul. voru sett, miðað við íbúafjöldann. Mér hafði verið sagt, að 2/5 af íbúum Reykjavíkur væru í sama húsnæði, en 3/5 hefðu skipt um húsnæði, en þær tölur eru ekki í skýrslunni, heldur fengnar sem „stikkprufur,“ sem fasteignaeigendafélagið lét gera,í tveim götum bæjarins.

En hvað liggur fyrir opinberlega um þessi mál? Það liggur fyrir í veðmálabókum Reykjavíkur, að af þeim 7775 íbúðum, sem til voru 1940, hafi 2378 skipt um eigendur með þinglesningu, og það liggur líka fyrir, að 5 hundruð manns hafi skipt um íbúðir eftir úrskurði húsaleigun, eða fógeta. Það hafa því orðið íbúaskipti í yfir 3 þús. íbúðum síðan l. voru sett, eða um 4/11 hlutar íbúanna, sem skipt hafa um íbúðir. Það liggur enn fremur fyrir í skýrslunni, að 300 menn lifi af þeim tekjum, sem þeir fá fyrir sín hús, sem þeir leigja út, þannig að 140 hafa alls engar aðrar tekjur, en 160 hafa meira en helming sinna tekna af húsum sínum. En þessir menn eru að dunda aðeins við einhverja vinnu.

Nú er að heyra á hv. 1. landsk. þm. að hann væri að víta mig fyrir, að ég væri að blanda mér í þessar umr. Hann sagðist ekki vita, hvað ég eiginlega væri að skipta mér af málum, sem mér kæmu ekki við, þar sem þau væru ekki viðkomandi Norður-Múlasýslu. Hann sagðist ekki skilja, að bændum, sem kosnir voru á þing af mönnum á útkjálkahéruðum, kæmi við mál, sem varðaði Reykjavík. Ég vil nú biðja hv. þm., af því að hann er kallaður 1. landsk. þm., að reyna einu sinni að vera ekki stéttarþm., heldur reyna að líta á þjóðarheildina og hvað henni er fyrir beztu, en miða ekki bara við eina einustu stétt, því þó að hún sé merkilegur liður í þjóðarheildinni, þá er hún þó ekki nema einn hlekkur í henni, en það þarf að hugsa um þá alla, ef vel á að fara.

Það hefur mikið verið talað um heilsuspillandi íbúðir hér í þessum bæ, og langar mig í því sambandi að skýra frá, hvað skýrslan leiðir í ljós. Þar stendur, að 1928 hafi 33% af húsnæði í bænum verið það, sem kallað er kjallara- og súðaríbúðir, en þær eru nú komnar niður í 14.6%. Þannig er það nú, að jafnvel þó að það ástand sé enn öðruvísi en æskilegt væri í húsnæðismálum bæjarins, þá er það þó að síga í áttina til hins betra. Þessar upplýsingar voru einnig í skýrslunni, sem almenningur mátti helzt ekki sjá.

Þá vil ég spyrja, vegna þess að hv. 1. landsk. þm. hefur haldið því fram, að húsaleigul. hafi ekki skert tekjur neinna, hvort hann mundi ekki telja sínar tekjur skertar, ef hann byggi við sömu laun að krónutölu vísitöluuppbótarlaust eins og hann bjó við 1940. Mér hefur skilizt, að sjómenn landsins teldu það ekki og yfirleitt engir landsmenn. Þá hélt ég líka, að þessum 300 mönnum gengi illa að lifa af tekjum af einum húsum, sem ákveðnar voru 1940 eða fyrr.

Ég get hugsað það, að ef hv. þm. í stað þess að heita 1. landsk. þm. héti þm. þeirra manna, sem lifa af rentum af þeim peningum, sem þeir fá af húsum sínum, sem þeir leigja út með gamalli leigu, þá mundi hann heimta uppbót þeim til handa og hana ríflega.

Þá vil ég benda á það, sem ég hef reyndar bent á áður, að þessi breyt. á l. er frá mínu sjónarmiði fyrst og fremst flutt til þess að losa úr læðingi það húsnæði í bænum, sem nú stendur autt, og er það í raun og veru það sama, sem liggur þar á bak við og felst í því frv., sem ég flyt um skatt á því húsnæði, sem þar er talið óhæfilega stórt, en það mundi einnig hjálpa til þess að auka húsnæðið.

Það þýðir ekki annað en að horfast í augu við þá staðreynd, að svo að segja um alla Reykjavík er — og í sumum götum mikið — húsnæði, sem ekki er leigt út, beinlínis af þeirri ástæðu að menn vilja ekki festa það af ótta við að geta ekki losað það aftur, ef á þarf að halda. Þetta húsnæði mundi koma á markaðinn, ef þessar ráðstafanir væru gerðar, sem hér hefur verið talað um, og verða aðgengilegt fyrir þá menn, sem búa í bröggum og öðrum slæmum íbúðum. Það er að vísu afar misjafnt að búa í bragga. Ég hef komið í bragga, sem fólk fékk hjá bænum til þess að vera í, í 10 ár eftir að hafa lagt í kostnað við að laga hann fyrir 12–13 þús. kr., það hafði sett í hann olíukyndingu og býr nú í honum fyrir ekki neitt næstu 10 ár. Og ég er viss um, að þó að það ætti kost á góðri íbúð í bænum, þá dytti því ekki í hug að skipta um og flytja úr þeim bragga, því að hann er sambærilegur við góða íbúð í bænum.

Ég býst við að það séu misjafnar íbúðir í bröggum, ég hef aðeins komið í tvo, og það hafa verið góðar íbúðir.

Þá vil ég minna hæstv. forsrh. á það, að í þeim uppástungutill., sem fulltrúi hans í stjórnarráðinu gerði og hann sjálfur taldi sig um skeið geta hallazt að, var gert ráð fyrir því, að leyft yrði að segja upp húsnæði í öllum húsum, sem eigendur byggju sjálfir í og leigðu út frá sér, sem vafalaust hefur verið byggt á því að koma í veg fyrir það óskaplega ósamlyndi, sem víða ríkir milli húseigenda og leigjenda og á rót sína að rekja til þess, að sambýlinu er þrengt upp á þá, og mundi hverfa með öllu, ef húseigandi væri frjáls að því að taka þá leigjendur, sem hann vildi til sín í húsið.

Ég benti á þetta í minni fyrri ræðu, þar sem ég benti á það grimmasta ósamlyndi, sem ég þekki, er leiddi til þess, að leigjandinn þurfti að útvega sér fógetaúrskurð til þess að fá sultutaukrukku úr geymslu, sem var sameiginleg báðum aðilum, en húseigandi neitaði um lykla til þess að ná henni. Þá benti ég einnig á það, sem ég þekki svartast, þar sem húseigandinn negldi fyrir salernið, til þess að leigjandinn gæti ekki gengið þangað örna sinna. Svona dæmi mun lengi mega telja, þar sem leigjandi verður að fá fógetaúrskurð vegna sinna daglegu þarfa, sem honum hefur verið neitað um.

Það hefur vafalaust verið til þess að fyrirbyggja slík tilfelli sem ég nefndi, að fulltrúi ráðh. lagði til, að leyfð yrði uppsögn á húsnæði, þar sem eigandinn byggi sjálfur, en þær till. taldi einnig hæstv. ráðh. sjálfur um skeið til bóta, að gerðar væru. Ef horfið hefði verið að því ráði, — hvað ætli þær uppsagnir hefðu orðið víðtækar? Því miður get ég ekki svarað því nú sem stendur. Ég er liðlega hálfnaður með að fara yfir bæjarskrána, en þar getur maður séð, hve margir menn eiga fleiri en eitt hús. Ég er ekki búinn að finna nema 18 menn, sem eiga fleiri en eitt hús, en ef líða nokkur kvöld, þangað til við tölum um þetta næst, getur verið, að ég hafi fundið, hve margir þeir eru. En þessir menn verða aldrei ákaflega margir, og verður þá ekki ákaflega mikið á milli þess, sem hæstv. ráðh. var um skeið samþykkur, og þess, sem við leggjum til, að gert verði.

Þegar ég er búinn að fara yfir bæjarskrána, sem ég væntanlega verð búinn að fyrir 2. eða 3. umr. málsins, þá getum við séð, hvernig málið liggur fyrir. En ég held, að það sé ákaflega fjarri því, sem hv. 1. landsk. vildi vera láta og mér skildist líka nú hæstv. ráðh., að með þessu, að halda húsaleigul. þannig í gildi, sé verið að vernda einhverja minni máttar stétt heldur en hina, sem settir eru þar sem andstæður.

Það, sem verið er að gera, ef þessi breyt. nær fram að ganga, er fyrst og fremst það, að það er verið að losa um húsnæði í bænum, sem nú er haldið föstu vegna húsaleigul. (Forsrh.: Það er hreinasta blekking:). sem mundi leiða til þess, ef þetta yrði gert, að ýmsir menn, sem búa í bröggum og heilsuspillandi íbúðum, sem mun vera rúm 14%, mundu geta losnað úr þeim. Það má þess vegna alveg snúa þessu við. Það er þess vegna hv. 1. landsk. og hæstv. forsrh., sem ekki vilja losa um þetta húsnæði, þeir vilja ekki koma því á markaðinn, og þeir eru að gera leik að því að halda fólkinu í heilsuspillandi íbúðum með því að láta þessar íbúðir vera lokaðar fyrir því. Hvort það þarf fógetaúrskurð til þess — og hér er það þjóðin, sem er forsetinn — að láta þessa menn ljúka upp þessum lokuðu íbúunum, skal ég láta ósagt. Þeir skyldu þó ekki hafa verið báðir með því að vilja ekki stóríbúðaskattinn, en með því að láta l. vera í gildi eins og þau eru og þannig fá á sig stimpilinn, fyrir hvern þeir væru að vinna?