24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

155. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson [frh.]:

Þegar þetta frv. var til umr. síðast. talaði hæstv. félmrh. á móti því. Hann sagði meðal annars, að hann óttaðist, að ef frv. þetta yrði samþykkt, mundi stór hluti alþýðu manna verða fyrir þungum búsifjum og kjör hennar með því stórlega skert. Ég benti á það með dæmum við þessar umræður, að kjör annarra væru þá ekki síður stórlega skert, ef frv. næði ekki fram að ganga. Og ég get nú ekki látið hjá líða að koma enn með skýrt dæmt þessu til sönnunar.

Hér í bæ er ekkja, sem nýlega hefur misst mann sinn. Þau áttu hús, og þar eru tvö herbergi og eldhús á hvorri hæð. Á neðri hæðinni situr maður í leigu með móður sinni, sem hefur 40 þús. kr. í árstekjur og fyrir henni einni að sjá. Þegar ekkjan missti mann sinn, varð hún að skipta búi og veðsetja eignina til þess að standa undir arfi. Þær einu tekjur, sem hún hefur, eru 85 kr. mánaðarlega fyrir íbúðina á neðri hæðinni, sem fyrir stríð var leigð á 60 krónur. Hún býr svo í sinni íbúð og greiðir viðhaldskostnað af húsinu. Sonur hennar er við nám, 17 ára gamall. Ef hún gæti nú tekið húsnæði þetta til atvinnurekstrar fyrir sjálfa sig, mundi hún geta framfleytt sér og syni sínum. En þetta er henni fyrirmunað.

Ég tel, að það hljóti að verða þyngra á metaskálunum, þegar þetta dæmi er athugað, að bjarga þessari konu og leyfa henni að neyta réttar síns til þess að geta framfleytt sér og sínum heldur en að leyfa manni með 40 þús. kr. árstekjur að ganga þannig á rétt hennar.

Þetta er eitt af mörgum dæmum, sem sýna það, að þetta er vandamál, sem leysa þarf með sanngirni og taka til alvarlegrar athugunar og úrbóta. Ég hirði svo ekki að nefna um það fleiri dæmi, hve húsaleigul. verka gagnstætt öllu réttlæti, — dæmi, sem sýna, að alþýðu manna mundi vera mest gagn gert með því að afnema þau.

Hæstv. ráðh. benti á, að lausnin væri sú að byggja fleiri hús. Ég veit nú, að honum er kunnugt um þá erfiðleika, sem á því eru nú, — m. a. fyrir aðgerðir hins stóra fjárhagsráðs og áróður þeirra þm. innan stjórnarflokkanna, sem telja, að allt sé hér komið í kalda kol, sem hefur valdið því, að ráðstafanir hafa verið gerðar, er valdið hafa stöðvun á framkvæmdum, sem annars hefði verið haldið áfram. En þótt öllu þessu væri vikið til hliðar og byrjað að byggja, skil ég ekki, hvernig það á að leysa málið, ef það er rétt hjá hv. þm. Str., að því meira sem byggt sé, því fleiri íbúðir standi auðar vegna húsaleigul. Það er þungur áfellisdómur hjá hv. þm. Str., að fjölda íbúða í bænum sé óráðstafað vegna þessara laga, og væri þarft verk fyrir húsaleigun. að rannsaka þetta. Og hví tekur ekki félmrn. sig til og fyrirskipar ýtarlega rannsókn á þessu?

Vert er að benda á það, að í því peningaflóði, sem hér hefur gengið yfir, hafa verið reistar margvíslegar stórbyggingar í úthverfum bæjarins, en verið gengið fram hjá því að byggja upp miðbæinn. Þótt þörfin sé brýn, hefur ekki verið unnt að rýma hann fyrir nýjum byggingum vegna húsaleigul. Þannig liggur dýrasti hluti bæjarins óuppbyggður og það kostar bæjarfélagið margar milljónir í götum, raflögnum o. s. frv.

Skal ég svo ekki ræða þetta frekar, en koma nokkuð að rökum hv. 4. landsk. Hann sagði, að bannið á hækkun á húsaleigu yrði einskis virði, ef frv. yrði samþykkt. Ég get ekki skilið þetta. Ef einhver leyfir sér að selja vöru hærra verði en verðlagseftirlitið heimilar þá bakar hann sér ábyrgð. Og ég sé ekki annað en bannið við hækkun húsaleigu yrði í jafngóðu gildi, þótt lögin væru afnumin. Hann sagði, að „spillingin yrði gerð að fastri reglu.“ Það get ég ekki heldur séð, því að ef um spillingu er að ræða, má fyrst og fremst rekja hana til húsaleigul.

Ég skildi ekki heldur dæmi hans um það, að menn, sem orðið hefðu að greiða 15 þús. krónur til þess að komast inn í íbúðir, mundu verða að greiða aðrar 15 þúsundir, ef l. væru afnumin. Ég held miklu fremur, að færri þyrftu að greiða þessar 15 þúsundir, ef það er rétt, að miklu húsnæði sé haldið óleigðu vegna l., sem losna mundi, ef frv. yrði samþ. — og er það óhrakið, að húsnæði á hverja fjölskyldu í bænum er töluvert meira en það var fyrir stríð.

Ekkert spursmál taldi hann það vera, hvort 1. kæmu hart niður, heldur hitt, hvort þau væru nauðsynleg. Nú er það hins vegar ekki lítið spursmál, hvort þau koma hart niður á einhverjum þegnum þjóðfélagsins, — og ég þekki hv. 4. landsk. það vel af langri samvinnu hér á þingi og utan þings, að ég veit, að hann vill ekki, að ranglæti sé við haldið með lagabókstaf gegn fjölda manns.

Ég kem þá að hv. 1. landsk. Það voru tveir meginþættir í hans ræðu. Hann vildi í fyrsta lagi fá hv. þdm. til að trúa því, að frv. væri flutt í eiginhagsmunaskyni, af því að við flm. værum sjálfir húseigendur. Í öðru lagi vildi hann sanna, að hann væri heill í málinu, þar sem hann væri leigjandi og yrði vísað út á gaddinn eins og stóðhrossi, ef frv. næði fram að ganga. Ég veit nú ekki, hvort á að taka atkvæði hans í málinu alvarlega, ef það eitt ræður afstöðu hans, að hann sé hræddur um að verða rekinn eins og stóðmeri út á gaddinn, Annars get ég gert honum það til geðs og sárabóta að upplýsa það, að sjálfur er ég ekki húseigandi og hef ekki verið í mörg ár, ef það kynni nokkuð að breyta viðhorfi hans og þeirri persónulegu hagsmunaafstöðu. sem hann hefur til málsins. Ég benti honum á — og hann hoppaði upp, — hvort það væri annars nokkur sanngirni í því, að hann sæti í því húsnæði, sem hann hefur, þar sem hann er maður sæmilega fjáður, en leigir hjá ekkju, sem hefur tapað sinni fyrirvinnu. Hitt er annað mál, að ég trúi ekki þessum ummælum hv. 1. landsk., því að ég hygg, að samkomulag hans við húseiganda sé betra en hann vildi vera láta, og hann verði varla rekinn út sem stóðhryssa, svo framarlega sem viðkomandi þyrfti ekki að nota húsið til starfrækslu sér til lífsuppeldis.

Hv. 1. landsk. staðfesti það annars, að óbúandi væri við það ástand í húsnæðismálunum, sem skapaðist af slæmri sambúð húseigenda og leigjenda, og lýsti því, hvernig búið hefði verið að honum og reynt að flæma hann burt. Ég fæ því ekki skilið, hvernig hann vill láta slíkt ástand ríkja áfram á þúsundum heimila. Ég saka ekki hv. 1. landsk. um þann ófrið, er hann átti l, því að hann er ágætur friðsemdarmaður. — en húsaleigulögin hafa samt getað komið honum úr jafnvægi, og ætti það raunar ekki að verða létt á vogarskálunum hjá honum.

Hann sagði enn, að ekkert nema verkamannabústaðalöggjöf gæti fyrirbyggt það, að alþýða manna þyrfti að hrekjast milli húsnæðisokrara og braskara.

Húseigendur hafa um mörg undanfarin ár verið undir sterkara verðlagseftirliti en aðrir þegnar þjóðfélagsins, jafnvel eina stéttin, sem fyrirmunað hefur verið að hækka sínar tekjur, og er þetta ekki til að bera saman við sparisjóðseigendur, þá að sannarlega hafi verið farið illa með þá. En sparisjóðseigendur höfðu þó það frjálsræði fram yfir húseigendur að geta tekið peninga sína út og lagt þá í eitthvað, sem arðvænlegt þótti, og spilað þannig í eins konar happdrætti. En þetta var húseigendum fyrirmunað, þeir hafa ekki getað losað sitt fé. Þeir hafa ekki getað selt hús og íbúðir sökum þess, að ekki var hægt að koma leigjendunum út, og þá vildi enginn kaupa. Þannig hafa þeir verið dæmdir til að þola hinn mesta órétt og ófrið á sínum heimilum án nokkurrar réttarbótar. Ofan á allt þetta hafa þeir fengið þá nafnbót hjá hv. 1. landsk. að vera einir af mestu okrurunum í þjóðfélaginu.

Þá minntist hv. 1. landsk. á, að þetta mál snerti dýrtíðarráðstafanirnar. Það er rétt, að það mundi verka á vísitöluna, ef engar ráðstafanir væru áður gerðar, er kæmu þar á móti. Það mundi þýða 53 stig samkvæmt leyniskýrslunni. En er það þá bara þetta eina, sem verkar á vísitöluna? Ætli hv. 1. landsk. ætti ekki að vera ljóst, að samningur sá, er hann var að reyna að troða upp á sjómenn, þó að þeir vildu ekki líta við honum, gæti haft sín áhrif til lækkunar vísitölunni t. d., ef skynsamlega væri á haldið? En það er talið sjálfsagt að berjast fyrir því að ala sjómenn og verkamenn upp í því að krefjast a. m. k. 40 þúsund króna launa, jafnvel þó að það stoppaði allt atvinnulíf í landinu. Og á sama tíma er það talið sjálfsagt að berjast gegn hækkun vísitölunnar með því að varna fátækum ekkjum þess að fá meira en 85 krónur á mánuði fyrir íbúðir, sem þær lifa af að leigja út. Það er ekki lítið samræmi í þessu. Ég held, að það væri gott fyrir þá, sem þykjast vinna fyrir smælingjana hér, að athuga afstöðu sína til þessara mála í heild.

Það hafa komið fram óskir hér um, að þetta mál verði fellt við þessa umræðu. Við flm. óskum hins vegar eftir, að því verði vísað til heilbr.- og félmn. Ég endurtek þá ósk, og um leið langar mig til þess að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann reyni að sjá svo um við atkvæðagreiðsluna um málið nú, að sem flestir hv. dm. geti verið viðstaddir eða þeir viti um, er atkvgr. fer fram að minnsta kosti.