24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

155. mál, húsaleiga

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hafði hér í fyrri ræðu minni fært fram meginástæður og rök fyrir því, að ég tel óviturlegt og óverjandi að samþykkja þetta frv. Ég endurtek ekki þau rök, en hins vegar hefur engin ræða, sem síðan hefur verið flutt hér, afsannað þau rök, — ég segi hiklaust, í engu afsannað þau.

Ég mun þá fyrst víkja máli mínu til hv. frsm., 1. þm. N-M. Hann talaði að vísu ekki langt mál, en vildi þó reyna að rökstyðja ýmis atriði,sem mæla með því, að l. sé breytt. Að vísu var ræða hans hvorki löng né veigamikil, aðallega hnútur til mín skildist mér, eins og þegar hann lézt fara að draga í efa þingmannsheiti mitt, fyrsti landskjörinn. En ég ber það nú að lögum eins og hann þingmannsheitið fyrri þingmaður N-M. Það er vitanlegt, ef hann vill fara út í jöfnuð okkar á milli, að um 600 kjósendur standa bak við hann, en um 4500 bak við mig. Ég hygg því, að ég hafi jafnan rétt til míns þingmannsheitis og hann, og ég þykist tala hér í umboði þeirra þúsunda, sem bak við mig standa, en ég efast um, að hv. 1. þm. N-M. tali í umboði hinna 600 kjósenda sinna í þessu máli. Ég tel mig ekki tala hér sem neinn stéttarfulltrúa, eins og hann vildi orða það, ég þykist taka alhliða sjónarmið í flestum málum, hvort sem bændur eða fólk við sjávarsíðuna á í hlut, eftir því sem ég tel rétt vera. En sum mál geta þá heitið stéttamál, en þetta mál er það ekki, húseigendur eru í öllum stéttum, og leigjendur einnig í öllum mögulegum stéttum.

En það var annað, sem hv. 1. þm. N-M. og fleiri. m a. hv. þm. Str., sögðu, að húsaleigul. gerðu ekkert gagn. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það, en lesa með leyfi hæstv. forseta. umsagnir nokkurra húsaleigunefnda, er þær sendu til mþn., sem hefur fjallað um þetta mál, sem svör við þeirri spurningu, hvaða áhrif nefndirnar telji að húsaleigulögin hafi haft.

Reykjavík segir: „Lögin hafa að verulegu leyti hindrað hækkun á húsaleigu, en einkum hafa l. haft mikil áhrif í þá átt að hindra húseigendur í því að auka við sig húsnæði, sem að sjálfsögðu hefði leitt til aukinna húsnæðisvandræða hér í bænum. Hefur n. þráfaldlega orðið þess vör í starfi sínu, að húseigendur telji í fullri alvöru, að þeir hafi „brýna þörf“ fyrir aukið húsnæði, jafnvel þeir, er nú hafa miklum mun rýmra húsnæði en þeir létu sér nægja fyrir síðasta ófrið og stafar þetta að miklu leyti af bættum fjárhag þeirra.“

Þetta segir húsaleigunefndin í Reykjavík. En nú hefur verið dregið hér í vafa, að l. hefðu þýðingu fyrir aðra kaupstaði og kauptún landsins. Ég leyfi mér því að lesa umsögn húsaleigunefndarinnar í Hafnarfirði :

„Húsaleigulögin hafa komið í veg fyrir, að gömlum leigjendum hafi verið sagt upp og húsaleiga hækkað í flestum tilfellum, og hafa verkað á þessu sviði til stórbóta. Hefðu engar skorður verið reistar við þessu, hefði hér orðið hreinasta öngþveiti og vandræði. Hins vegar hafa l. ekki fyrirbyggt, að fólk flytti í bæinn, og í einstökum tilfellum hefur fólk bókstaflega verið flæmt úr íbúðum, en þegar litið er á heildina, hafa l. verkað verulega til bóta. Það væri því mjög vanhugsað og til stórrar óþurftar að afnema 1.“

Ísafjörður segir, — það er ekki langt: „Búumst við, að ef húsaleigul. hefðu ekki verið sett, þá hefði fjöldi fólks verið hér bókstaflega á götunni, auk þess sem húsaleigan hefði án nokkurs vafa hækkað stórlega, og þá ekki síður í hinum lélegri húsum en skárri.“

Siglufjörður svarar aðeins með þrem orðum: „Haldið niðri húsaleigu.“

Akureyri segir: „Lögin hafa að verulegu leyti hindrað hækkun á húsaleigu og enn fremur komið í veg fyrir húsnæðisvandræði. Hins vegar valda þau miklu misræmi hvað snertir húsaleigu og hafa í sumum tilfellum haft óheppileg áhrif á viðskiptasiðferði.“

Þá koma svör frá ýmsum kauptúnum, og það er allt á sömu lund að kalla, Húsavík, Keflavík, Ólafsfjörður, Stykkishólmur, Neskaupstaður og loks Suðurfjarðahreppur í kjördæmi hv. þm. Barð., en það er eina neikvæða svarið, og er þannig: „Teljum ekki, að l. hafi haft nein áhrif hér,“ — og er það af skiljanlegum ástæðum í plássi, þar sem fólki fer fækkandi.

Þessi gögn, sem ég hef nú vitnað í, liggja fyrir n., en hv. 1. þm. N-M. varast að láta það koma fram. Nú er það svo, að það liggja fyrir mjög greinilegar skýrslur um aukið húsnæði í Reykjavík frá 1940 til ársloka 1946, og það gefur heildaryfirlit yfir það, hve húsnæðið hefur stækkað. Það kemur í ljós af þessu, að mikill hluti bæjarbúa hefur með bættum efnahag leyft sér að búa við miklu stærra húsnæði en fyrir stríð, og einmitt þetta þýðir það, að húsnæði losnar ekki að sama skapi og byggt er handa þeim húsnæðislausu. Vandræðin eru því mikið til þau sömu hjá þeim, sem þurfa að fá leigt hjá öðrum. Það er nú svo, að síðan 1939 hefur meðalstærð íbúða aukizt úr 2.9 í 3,4 herbergi, íbúðirnar hafa stækkað um þetta, en ekki mun upplýst, hve margir eru að meðaltali í íbúð. Á þessu sést, hvort fólk býr ekki rýmra en fyrir stríð. Ég hygg, að það sé ólíkt rýmra víða, en þrengslin koma harðast niður á fátækum fjölskyldumönnum, og skal ég ekki fara út í að nefna dæmi um það, en þau skipta hundruðum og kannske þúsundum. Hins vegar liggja ekki fyrir skýrslur um það, hve mikið eldra húsnæði hefur verið farið í súginn, brunnið eða verið tekið undir atvinnurekstur, iðnað, verzlun og þess háttar. Það er þó nokkuð um það hér í Reykjavík, en mun ekki skipta miklu, og hefur verið bent á það.

Í sambandi við hinn aukna herbergjafjölda í íbúð er rétt að geta þess, að óleyfilegar kjallaraíbúðir eru teknar með inn í þennan reikning, 3–4 herbergi í íbúð, því að það er vitað mál, að innréttaðar hafa verið margar kjallaraíbúðir, þó að þær séu ekki lögum samkvæmt.

Ég held nú, að þetta hafi verið það þyngsta á metunum, er hv. 1. þm. N-M. taldi sem rök. Ég gæti tekið upp „legió“ af dæmum um samskipti leigjenda og húseigenda, annars vegar upp á ófrið, en hins vegar upp á fullan skilning þeirra í milli. En hvenær eru menn svo þroskaðir almennt, að Fróðafriður mundi koma af sjálfu sér og óhjákvæmilega milli húseigenda og leigjenda, ef l. þau, sem sett hafa verið milli þeirra, væru afnumin? Nei, þetta er ekki svo einfalt, þegar annars vegar er hin sterka hvöt, hagsmunahvötin.

Ég gat þess í minni fyrri ræðu, að hér mundu búa um 1500 manns í hermannaskálum. Nú hef ég fengið upplýst með fullum rökum, að sú tala var of lág, og það munu nú vera eitthvað yfir 2000 manns í þessum herskálum. Hv. 1. þm. N-M. vildi láta líta svo út, að skálarnir væru ekki lakari íbúðir en sumar aðrar, t. d. sumar kjallaraíbúðir, og ég skal játa, að það fer nokkuð eftir því, hvernig um þá er gengið. En þessir hermannaskálar eru allir reistir til bráðabirgða. Þegar setuliðið reisti þá, var gengið út frá 5 ára endingu þeirra, sem eru ógalvaniseraðir, en allt að 10 ára endingu þeirra skála, sem eru galvaniseraðir. Það liggur því í hlutarins eðli, að mest af þessu húsnæði er algerlega óviðunandi. Þótt sumt af því sé viðunandi til bráðabirgða, þá er það vegna þess, að menn hafa sjálfir kostað miklu til þess, en hins vegar er sú stefna uppi hjá bænum, að þessar stríðsminjar hverfi sem fyrst, og það er ekkert annað en neyðin, sem veldur því, að þessir skálar eru ennþá uppistandandi.

En nú kem ég að því, að húsaleigunefnd telur, að í öllu óviðunandi húsnæði búi jafnmikill fjöldi fólks og í herskálunum, eða um 2000 manns, þó að það heiti ekki hermannaskálar, t. d. kjallaraíbúðum, sem dæmdar hafa verið ónothæfar, sumarbústöðum, og loks kartöflu- eða garðlandaskúrum, sem vitanlega eru án allra þæginda, án vatns, rafmagns, hitunar, skolprennslis og annarra þeirra þæginda, sem bæjarfélagið hefur upp á að bjóða. Og ekki væri glæsilegt að búa í sumarbústöðunum, þessum timburhjöllum, ef það kæmi t. d. verulega harður vetur. Meginhlutinn af þessu fólki mundi að sjálfsögðu fá sér betra húsnæði, ef það væri á boðstólum á skaplegu verði, en mikill hluti af þessu fólki berst í bökkum fjárhagslega. Heill hreppur, Kópavogshreppur, hefur risið upp og er að mestu leyti byggður þessu fólki, sem býr í bráðabirgðahúsnæði, sumarbústöðum, smáhýsum og slíku.

Ég held nú, að ég hafi svarað hv. 1. þm. N-M. í höfuðatriðum, því. sem hann taldi sig flytja sem rök fyrir sínu máli.

Hv. þm. Str. (HermJ) flutti hér alllanga ræðu og vildi reyna að sanna það, að hér væri alveg nægilegt húsnæði, og jafnvel, að það stæði autt. Það væru aðeins húsaleigul., sem stæðu í vegi fyrir því, að þetta húsnæði værí notað. Ég held, að þetta hafi verið höfuðröksemd hans í öllum þeim orðaflaum, sem hann flutti hér. Hann er ekki staddur hér, en ég held, að ég verði að svara þessari einu fullyrðingu hans með einu bréfi til félmrh., sem húsaleigunefndin hefur góðfúslega látið mér í té. Þetta bréf afsannar allar fullyrðingar hv. þm. Str. um hið auða, ónotaða húsnæði hér í bænum. Með leyfi forseta:

„Samkvæmt tilmælum yðar, herra félagsmálaráðherra, vill húsaleigunefnd Reykjavíkur hér með taka fram eftirfarandi varðandi umtal um autt húsnæði hér í bænum:

Undanfarin ár hefur n. bæði vor og haust gert sérstaka gangskör að athugun á auðu húsnæði. Hefur þetta verið framkvæmt þannig, að birtar hafa verið tilkynningar í blöðum bæjarins, þar sem fram hefur verið tekið, að húsaleigunefndin muni taka autt húsnæði leigunámi til afnota fyrir húsnæðislaust innanhéraðsfólk. Jafnframt hefur fólk verið beðið að gera aðvart um autt húsnæði. Hefur n. í sambandi við þessar auglýsingar og á öðrum tímum iðulega verið tilkynnt um húsnæði, er talið hefur verið ónotað. Allar slíkar kærur hefur n. rannsakað, jafnóðum og þær hafa borizt, bæði með skoðun á húsnæðinu sjálfu og með yfirheyrslum. Einnig fer n. oft á ári af sjálfsdáðum í eftirlitsferðir um bæinn í leit að auðu húsnæði. Við framangreindar athuganir hefur komið í ljós, að langflestar tilkynningar um autt húsnæði hafa ekki verið á rökum reistar, og hefur misskilningurinn venjulegast stafað af því, að viðgerðir, breytingar eða hreingerningar hafa staðið yfir í húsnæðinu. Á s. l. hausti til dæmis bárust n. 29 tilkynningar um autt húsnæði, en af þeim reyndust aðeins 2 hafa við rök að styðjast. Þá hefur það ekki ósjaldan komið fyrir, að fólk hefur álitið, að nýbyggingar væru auðar, en þegar að hefur verið gáð, hefur komið í ljós, að húsnæðið hefur ekki verið fullbúið til íbúðar og jafnvel stundum ekki nema „fokhelt.“ Það húsnæði aftur á móti, er reynzt hefur standa autt. hefur n. sumpart tekið leigunámi og sumpart á annan hátt hlutazt til um, að leigt yrði þegar í stað innanhéraðsfólki.

Með hliðsjón af framanrituðu vill n. taka fram. að henni er ekki kunnugt um, að nú sé neitt autt íbúðarhúsnæði hér í bænum, og hún hefur ekki ástæðu til að ætla, að svo sé.“

Ég held, að þetta bréf frá húsaleigun. taki af öll tvímæli um það, að húsnæði sé ónotað hér í bænum. Þetta er því algerlega út í hött. Menn geta rætt hér aftur á bak og áfram og staðhæft, að húsaleigul. séu ranglát og að þau séu brotin. Ég geng þess ekki dulinn, að húsaleigul. hafa verið brotin, síðan þau voru sett. En hvaða l., sem koma við almannahagsmuni í þessu landi, eru ekki brotin? Eru ekki áfengislögin brotin? Svo stórkostlega, að meiri hl. þjóðarinnar hrýs hugur við. Eru ekki landhelgisl. brotin? Kannske eingöngu af útlendingum, en líka af innlendum. Ég gæti nefnt fjölda l., sem þjóðfélaginu þykir nauðsynlegt að halda við, og nákvæmlega það sama á einnig við um húsaleigul. Við vitum, að það sem hefur skapað það, sem við köllum brot, er hin geysimikla eftirspurn, sem er eftir húsnæði. En hvernig hægt er að fullnægja eftirspurninni, er svo mikið vandamál, að ég dreg enga dul á það, að ekki er hægt að ámæla Reykjavíkurbæ, þó að ekki sé hægt að fylla upp í þá eftirspurn, sem hér er á viðunandi húsnæði. Þó bæði bæjarstjórn Reykjavíkur, félagasamtök og einstaklingar hafi varið milljónum og tugum milljóna til þess að bæta úr þessu, þá hefur það ekki tekizt. Fjölgun bæjarbúa árlega fer að nálgast 3000 manns. Ég hef ekki leitað upplýsinga um það hjá klerkum bæjarins, hve margt af ungu fólki hefur gengið í hjónaband, en það er vitað, að margt fólk byrjar búskap og þarf húsnæði. Og í þennan bæ hafa streymt stórir hópar af fólki, sem stundum fær húsnæði og stundum ekki. Hverjir eiga þá að víkja? Þeir gömlu, sem sitja í skugganum. Svo vill enginn taka þá inn, því að það er vitað mál, að ef einhver er svo ógæfusamur að eiga mörg börn, getur hann hvergi fengið inni. Og þetta eru mennirnir, sem ólíklegastir eru til þess að hafa ráð á að byggja yfir sig. Húsaleigul. vernda ekki hvað sízt fjölskyldumenn, sem verða að langmestum hluta að búa í leiguhúsnæði. Skrafi því, sem mig snertir. svara ég ekki. Það má hver sem vill halda, að ég sé að tala fyrir mig. Mér væri alveg sama, þótt húsaleigul. væru afnumin. Ég gæti komizt í hús. Það er alveg misskilningur, að ég þurfi að vernda mitt eigið hreiður í þessu efni.

Það gefst tækifæri til að tala aftur í þessu máli, þegar n. hefur kynnt sér það og athugað þær skýrslur, sem verður að byggja á, og þá kemur væntanlega eitthvað nýtt upp í málinu.

Að lokum vil ég segja þetta: Ég sé, að sá þm., sem ég vildi snúa máli mínu til, er ekki staddur hérna, og vil ég því beina orðum mínum til forseta.

Ég hef setið hér bráðum 21 þing og hef átt í orðasennu við menn úr öllum flokkum og stundum hörðum, en ég minnist þess ekki, að menn hafi verið bornir ærumeiðandi sökum, og minnist þess ekki heldur að hafa heyrt það annarra í milli. Ég hef nú orðið fyrir því af þm. að vera borinn ærumeiðandi sökum. Það eru þau rök, sem hann hafði í þessu máli. Í skjóli þinghelginnar hefur þetta verið leyft. Hann er hér ekki viðstaddur. En þegar hann má mál mitt heyra, mun ég skora á hann að endurtaka þau ummæli, sem hann hafði gegn mér, utan þinghelginnar, því að það er sá eini vettvangur, sem ég hef til þess að stefna honum fyrir lög og dóm. Ég hef líka annan rétt, og það er að fá leyfi hv. d. til þess að krefja þm. ábyrgðar. Ég veit ekki, hvort það hefur nokkru sinni áður verið leyft. Það mun hafa verið leyft einu sinni, en það leyfi var aldrei notað. Ég ætla því ekki að gera d. erfiðleika með því að fara fram á þetta. Ég mun ekki heldur leggja mér í munn slík ummæli sem aðrir þm. hafa látið sér sæma að viðhafa um mig. Þeir um það. Að öðru leyti mun ég ekki svara þessum þm. frekar í þessu máli.