24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (2959)

155. mál, húsaleiga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta frv. fer fram á það, að niður verði felldar 1., 2., 10. og 14. gr. gildandi húsaleigul., enn fremur. að orðin „gildi uppsagnar og önnur“ í 2. málsgr. 8. gr. 1. falli burt. Þarna gætir þó einhvers misskilnings og hroðvirkni af hendi hv. flm., því að í 2. málsgr. 8. gr. l. finnast þessi orð hvergi, heldur er hinn tilvitnaða setningarhluta að finna í 5. málsgr. 8. gr. Ég held því, að það væri rétt af hv. flm. að bera fram brtt. við frv. þessu til leiðréttingar.

Þegar umr. fóru hér fram um þetta mál og ég tók þátt í þeim, þá var upplýst, að heilbr.- og félmn. yrði afhent nál. mþn., sem félmrh. skipaði sumarið 1946 til þess að rannsaka áhrif húsaleigul. og gera till. um endurskoðun á þeim. Núna á seinustu dögum hef ég átt þess kost að athuga þetta nál. og hef sannfærzt um það, að þeir menn, sem þessa n. skipuðu, hafi unnið mikið verk og athugað þetta mál allgaumgæfilega, og ég hygg, að ekki verði annað sagt heldur en að þeir hafi þarna framkvæmt rannsókn á málinu nokkurn veginn hlutlaust, hvort sem það er athugað út frá sjónarmiði húseigenda eða leigjenda. N. virðist hafa framkvæmt þessa rannsókn út frá því, hverja þjóðfélagslega þýðingu þessi löggjöf hefur og hvort tímabært sé að afnema hana eða gera á henni verulegar breyt. Ég tel fulla ástæðu til þess að gefa upplýsingar um það, sem ég tel mestu máli varða í þessu ýtarlega nál. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem hér hefur verið vikið að, eins og það, sem hv. 1. landsk. las hér upp áðan, sem er nokkuð af upplýsingum úr þessu nál., sem sé svör húsaleigunefndanna, sem þessi mþn. fékk um það, hvaða þýðingu þær teldu, að löggjöfin hefði og hefði haft. En húsaleigun. voru einnig spurðar um það, hvort þær teldu hyggilegt að afnema l. eða breyta þeim, og þá hvaða breyt. húsaleigun. teldu, að gera þyrfti. Þessi svör hafa ekki verið birt hér í d., og tel ég alveg sjálfsagt, að þau verði gerð hv. þdm. kunn. Þegar þessi spurning var lögð fyrir húsaleigun. í Reykjavík, hvort hún teldi heppilegt að afnema húsaleigul. eða breyta þeim, þá var svarið þetta að meginefni, að hún teldi það ekki fært vegna glundroða og öngþveitis, sem af því mundi leiða. Húsaleigun. í Hafnarfirði segir: Væri mjög vanhugsað og til stórrar óþurftar að afnema l., en hins vegar mætti breyta þeim, t. d. gefa heimild til að hækka gamla grunnleigu um vissan hundraðshluta.

Ísafjörður: Nei, ekki heppilegt enn sem komið er. Mundi verða mikil hætta á uppsögnum húsnæðis og jafnvel útburði fólks. Jafnframt mætti búast við gífurlegri hækkun húsaleigunnar

Siglufjörður: Nei.

Akureyri svaraði að meginefni á þessa leið: N. telur ekki hyggilegt að afnema l. að svo komnu, þar sem hún óttast, að skyndilegt afnám þeirra mundi skapa öngþveiti í húsnæðismálum og valda gífurlegri hækkun á húsaleigu. Hins vegar telur hún hyggilegt að afnema l. smám saman. þegar úr rætist í húsnæðismálum.

Keflavík: Teljum óheppilegt að afnema l. Stykkishólmur: Ekki rétt að afnema 1., heldur breyta þeim og leyfa hækkun á gömlu húsnæði.

Aðeins ein húsaleigun. á öllu landinu svaraði þessari spurningu játandi, það er húsaleigun. í Neskaupstað.

Ég tók eftir því, þegar hv. 1. landsk. hélt sína ræðu áðan, að þá gat hann ekki um það svar, sem fyrir lægi í þessum plöggum frá fasteignaeigendafélagi Reyklavíkur, en ég tel alveg sjálfsagt að ganga ekki fram hjá þessu svari, heldur taka það með og leggja ekki hvað minnst upp úr því. Svar fasteignaeigendafélags Reykjavíkur við fyrri spurningu mþn. er að meginefni þetta: „Við teljum í fyrsta lagi, að húsaleigul. séu til viðhalds hinni háu húsaleigu, sem nú er greidd í nýbyggðum húsum.“ Eftir þessu er það brennandi áhugamál fasteignaeigendafélags Reykjavíkur að fá leiðréttingu á því ástandi, að nú sé greidd of há húsaleiga í nýjum húsum í Reykjavík. Mér fer eins og Njáli forðum, að mér finnst ég þurfa að láta segja mér tvisvar eða þrisvar, að það, sem brenni heitast fyrir brjósti fasteignaeigendafélagsstjórnarinnar, sé, að húsaleigan í nýju húsunum í Reykjavík sé of há og hún vilji í nafni síns félagsskapar heimta afnám húsaleigul. fyrir þær sakir, að það þurfi að lækka leiguna í nýju húsunum. Ég held, að þessi ástæða, sem þarna er talin í fyrsta svari fasteignaeigendafélagsins, sé vel klædd í flíkur hræsninnar, og get ég ekki orða bundizt um það. Vitanlega, eins og hv. 6. landsk. gat um áðan, getur ekkert vakað annað fyrir stjórn fasteignaeigendafélags Reykjavíkur með því að gera kröfur um, að húsaleigul. séu afnumin, heldur en það að geta fengið rýmri hendur um uppsagnir húsnæðis til þess að geta notfært sér möguleika, sem við það kynnu að skapast til hækkunar á húsaleigu. Ég tek því ekki hátíðlega þennan fyrsta lið í svari fasteignaeigendafélagsins.

Í öðru lagi segist fasteignaeigendafélag Reykjavíkur vilja afnema húsaleigul. af því, að þau veki úlfúð og illindi milli leigutaka og leigusala, er leiði til útburðarmála. Það getur vel verið, að þeim góðu mönnum hrjósi hugur við þessari úlfúð út af þeim hömlum, sem húsaleigul. leggja á frelsi húseigenda til þess að setja upp eða hækka húsaleigu,. en ef ákvæði húsaleigul. væru afnumin, til þess að þessi úlfúð sjatnaði. — hver væri þá tilgangurinn? Hann væri sá að gera aðstöðu húseigendanna sterkari til þess að kasta leigjendum út og gera aðstöðu leigjenda hæpnari til þess að geta verið áfram í því húsnæði, sem þeir hafa. Hv. 1. þm. N-M. og hv. þm. Barð. hafa mjög í ræðum sínum vikið að þessu ástandi, sem þeir hafa málað mjög dökkum litum og segja, að það sé mjög víðtækt og almennt ríkjandi úlfúð í bænum milli húseigenda og leigjenda. Þessi úlfúð getur ekki verið sprottin af öðru en því, að húseigendur séu ekki ánægðir með að hafa ekki frjálsar hendur um að hækka leiguna við sína leigjendur. Þeir vilja fá slíkt frjálsræði. Þeir vilja fá afnumið úr l. bannið við uppsögn húsnæðis til þess að geta hækkað leiguna í gömlu húsnæði. Ég hef hlustað á þessar átakanlegu sögur, sem hv. 1. þm. N-M. sagði hér í þessu sambandi, eins og það, að húseigandi hafi lokað fyrir salerni og að leigjandi hafi leitað lögregluaðstoðar til þess að ná í sultukrukku, — húseigandi hafði í því tilfelli lokað fyrir matargeymslu leigjanda til þess að gera honum ómögulegt að vera í íbúðinni. Hverjum á að rétta hjálparhönd samkvæmt þessu frv.? Á að rétta leigjendum hjálparhönd í því tilfelli, þegar þeir eru ofsóttir af húseigendum? Nei, það á að afnema bannið við uppsögn húsnæðis, það á að rétta húseigendum hjálparhönd til þess að þurfa ekki að beita svona ómannúðlegum aðferðum, en það á að hjálpa þeim til þess að geta kastað leigjendum fyrirhafnarlaust út á gaddinn.

Mér hefði fundizt, ef það hefði átt að leita lækninga á þessu ástandi, að þá hefði þurft að setja nýtt ákvæði í húsaleigul. til þess að styrkja aðstöðu leigjenda í slíkum tilfellum, en það liggur ekki hér fyrir. Í stað þess á, til þess að kóróna svona aðfarir húseigenda, að styrkja aðstöðu þeirra til þess að geta kastað fólkinu út á götuna með lagastyrk á bak við sig. Ég get ekki tekið undir slíka lagasetningu, og mér finnst, þegar hv. 1. þm. N-M. og hv. þm. Barð. hafa verið að draga þessi atriði hér fram, að þeir hafi gert sínum umbjóðendum — húseigendunum í Reykjavík — lítinn greiða með því að draga slík atriði fram, því að það lýsir hvorki menningarástandi þeirra lofsamlega né sannfærir nokkurn mann um, að það styrki þeirra aðstöðu til þess að koma sínum vilja fram við leigjendur. Þessi tvö atriði í svari fasteignaeigendafélags Reykjavíkur áýna, að það vakir ekkert annað fyrir þeim heldur en að fá sterkari aðstöðu til að segja upp húsnæði til hækkunar á þeirri leigu, sem einstakir leigjendur eiga ennþá við að búa. En í sömu andránni sem hv. 1. þm. N-M. og hv. þm. Barð. halda því fram, að það sé orðin ákaflega þýðingarlítil löggjöf —, húsnæðislöggjöfin —, hún haldi svo óvíða niðri húsaleigu, þá halda þeir því fram, að slíkt illindaástand ríki á þúsundum heimila í Reykjavík út af missætti húseigenda og leigjenda. Hvernig fær þetta samrýmzt? Ekki getur þetta illindaástand ríkt á þúsundum heimila í Reykjavík nema því aðeins, að húsaleigulöggjöfin verndi enn þá þúsundir heimila gegn húsaleiguokri, því að út af því er ágreiningurinn risinn. Ef löggjöfin hins vegar verndar fáa, þá hlýtur þetta illindaástand að vera í tiltölulega fáum tilfellum.

Mér þykir leitt að hafa orðið að fletta ofan af þessu, að svar fasteignaeigendafélags Reykjavíkur er ekki af neinum heilindum fram sett. Það er greinilegt, að það, sem þeir láta í veðri vaka, er allt annað en það, sem þeim býr í brjósti. Menn hafa hér talað um það, að það væri ákaflega augljóst mál, ýmist að húsaleigulöggjöfin væri þýðingarlaus og ranglát eða þá á hinn bóginn, að hún sé ennþá mjög gagnleg. Gunnar Þorsteinsson hrm., sem er einn þeirra, sem skipuðu mþn. í húsnæðismálum, segir hins vegar í sínu séráliti í nál., að vegna margvíslegra stórbreytinga, sem orðið hafi á þjóðfélagslegum atvinnuháttum á seinustu árum, sé oft mjög erfitt að fullyrða, hver sé hin rétta orsök eða ástæða fyrir ákveðnu ástandi í húsnæðismálunum, oft séu orsakirnar margar og samverkandi. Þetta er tvímælalaust alveg rétt hjá þessum manni, og í rauninni er það gefinn hlutur, að einmitt af því, að hér er oft erfitt að greina á milli, hverjar séu orsakir til ákveðins ástands í þessum málum, þá fara menn svo mjög í hár saman og sýnist sitt hverjum. Í þessum málum er það alveg gefinn hlutur, að húsaleigulöggjöfin nær ekki nú að fullu þeim tilgangi, sem henni er ætlað að ná, en að mörgu leyti er hún enn þá til bóta og verndar hag margra, sem full ástæða er til að vernda, ástandið er ekki það mikið breytt frá því að löggjöfin var sett.

Ég get ekki hjá því komizt, úr því að ég er að ræða þetta nál., að víkja að ýmsum ummælum þeirra Baldvins Jónssonar og Egils Sigurgeirssonar, sem sameiginlega mynda meiri hl. í mþn. í húsnæðismálum. Þegar þeir hafa lokið sinni gagngeru rannsókn í þessum málum, þá láta þeir í ljós skoðun sína á gildi húsaleigul. og vitna í fyrsta lagi til þeirra eindregnu svara, sem þeir hafi fengið frá húsaleigun, víðs vegar utan af landi. Þeir segja, að það sé sameiginlegt álit húsaleigun., að lögin hafi að verulegu leyti haldið niðri húsaleigunni. Og þeir gera þetta álit húsaleigun. að sínu áliti. Þeir, B. J. og E. S. segja, að þeir vilji ekki fallast á, að ósamræmi það, sem skapazt hefur um húsaleigu, sé húsaleigul. að kenna, en því er haldið fram í þessum umr., heldur sé aðalorsökin sú alkunna staðreynd, að ekki hefur tekizt að hafa hemil á dýrtíðinni í landinu. Í framhaldi af þessu segja þeir B. J. og E. S.: .,Húsaleigul. hafa komið í veg fyrir það, að fólki væri sagt upp húsnæði og það borið út á götuna, en sama húsnæði síðan leigt aftur fyrir miklu hærra verð. Ef l. hefðu ekki verið til um þessi efnt, má það vera ljóst, að hér hefði skapazt ástand, sem ekki verður sagt um, hvernig hefði getað endað.“ Þeir búast sem sé við, að það ástand, sem þá hefði skapazt, hefði orðið mjög ískyggilegt, og draga enga dul á, að löggjöfin hafi haft hina víðtækustu þýðingu til þess að halda niðri verði á húsaleigu. Þeir segja enn fremur: — „Húsaleigul. hafa verið sterkasta og haldbezta ráðstöfun hins opinbera til þess að halda niðri dýrtíð og verðbólgu. Það er álit okkar, að enn geti ekki verið um það að ræða að nema burtu allar takmarkanir um ráðstöfun húseigenda á afnotum húsnæðis.“ Og þeir rökstyðja þetta með því að segja, að enn séu fyrir hendi flestar sömu ástæður, sem leiddu til þess, að l. voru sett í upphafi. Í sambandi við þetta benda þeir á, að húsaleigul. séu enn í gildi í flestum löndum heims, — húsaleigun. allra kaupstaða nema eins hafi eindregið mælt gegn því, að húsaleigul. væru afnumin, vegna þess öngþveitis og vandræða, sem af því mundi leiða. Þeir koma inn á það í nál., hvort ekki væri ástæða til að heimila einhverja hækkun á gömlu húsaleigunni, og telja, að það væri í rauninni það, sem helzt hafi runnið stoðir réttlætis undir að gera. En þó segja þeir: „Ef bann við hækkun á leigu yrði úr l. numið, er það litlum vafa undirorpið, að þá mundu því lítil takmörk sett, hvað menn gætu áskilið sér eða fengið greitt fyrir húsnæði á leigumarkaðnum.“ Þeir búast við, að af því mundi leiða verulega hækkun á húsaleigu. Þeir viðurkenna hins vegar, að margt mæli með því, að leyfð væri einhver hækkun á gömlu húsaleigunni, ef það væri hægt án þeirra afleiðinga, sem þeir horfa fram á, að stórhækka gömlu húsaleiguna. Enn segja þeir: „Það er líklegt, að flestir þeir, sem misstu sitt gamla húsnæði vegna rýmkunar á uppsagnarákvæðum l., yrðu að sæta þeirri háu leigu, sem nú tíðkast á leigumarkaðnum.“ Þetta er líka beint svar þeirra við þeirri breyt., sem hér er farið fram á.

Á öðrum stað í nál. mþn. er vikið að því, hvaða þýðingu afnám húsaleigul. mundi hafa á dýrtíðina í landinu eða vissa hækkun á húsaleigu, og ber n. þar fyrir sig útreikninga Hagstofu Íslands. N. segir: „Hagstofan hefur upplýst, að ef leyfð yrði hækkun gömlu húsaleigunnar um 100% og sú hækkun gengi inn í vísitöluna, þá mundi það hækka hana um 28 stig. Ef leyfð yrði þreföld hækkun, mundi vísitalan hækka um 56 stig, og ef hækkunin yrði fimmföld, mundi vísitalan hækka um 112 stig. Ef þessir útreikningar hagstofunnar eru réttir, sem ég hef enga ástæðu til að efa, þá sjá það allir, að ekki er gott að standa með viðleitni ríkisstj. til þess að halda dýrtíðinni í skefjum og gera jafnframt slíka breyt. á húsaleigul., sem kynni að leiða til 50–100 stiga hækkunar á vísitölunni. Það yrði þá að vera meira en lítil lagfæring í réttlætisátt, sem með því ynnist á hinn bóginn.

Ég býst við, að eins og nú standa sakir í þessum málum, þá sé ekki gott að finna þann aðila í þjóðfélaginu, sem geti betur um þessi mál sagt heldur en húsaleigunefndirnar víðs vegar úti um landið og mþn., sem hefur rannsakað þetta mál í heild, sem er hlutlaus aðili fyrir það opinbera. Ég legg því mikið upp úr þessu mþnál. og áliti húsaleigun., og þar dreg ég ekki undan álit stjórnar fasteignaeigendafélags Reykjavíkur, sem ég tel, að vitni þar mjög í sömu átt og taki í sama streng og húsaleigun. og mþn. sjálf, þó að svar fasteignaeigendafélagsins sé ekki af þeirri hreinskilni fram sett, sem æskilegt hefði verið. Ég hef hlýtt á allar þær umr., sem hér hafa farið fram, og ekkert í þeim hefur verið þess eðlis, að það hafi sannfært mig um, að það sé forsvaranlegt þrátt fyrir hagsmuni húseigenda að gera þá meginbreyt., sem hér er farið fram á. Að fella niður bann við uppsögn húsnæðis kemur að mínu áliti ekki til greina á þessu stigi. Frekar væri hugsanlegt að heimila uppsögn atvinnuhúsnæðis, þar á meðal verzlunarhúsnæðis, þar sem framboð á því er talsvert, þannig að ekki eru líkur til, að það fari upp úr öllu valdi, þó að það væri gefið frjálst. Það er það eina, sem ég gæti hugsað mér til tilslökunar í þessa átt. En að leyfa uppsögn á íbúðarhúsnæði mundi hafa svo ískyggilegar afleiðingar í för með sér, að ég hygg, að menn vildu trauðlega vera ábyrgir fyrir því, þegar til kastanna kæmi.