08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2967)

155. mál, húsaleiga

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki athugað, hvernig þingritarar hafa náð upp mínum orðum, sem ég flutti hér við þessa umr., sem hér er um að ræða. En það er á misskilningi byggt hjá þingriturum, ef þeir hafa haft fleirtölu, þegar ég nefndi þm. í þessu sambandi, því að það duldist engum. að ég átti þar við hv. þm. Barð., enda munu allir þdm. hafa fullkomlega skilið, við hvern ég átti.

Hins vegar hef ég gætt að því, að þau ummæli, sem allir, sem hér voru viðstaddir, hlustuðu á, eru ekki tekin upp í ræðu hv. þm. Barð. af þingriturum. Það er rétt, en allir, sem hér voru viðstaddir, vissu, hvaða ummæli voru hér höfð. Og ég held, að það mundi ekki valda neinum misskilningi fyrir dómstólum, að þau ummæli væru mjög ærumeiðandi.