08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (2969)

155. mál, húsaleiga

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Þegar ég sá við þessar umr., að hv. þm. Barð. var genginn af fundi, þá beindi ég orðum mínum til hæstv. forseta, eins og vera ber eftir þingsköpum. Eftir að ég hafði flutt mína ræðu, stóð hæstv. forseti upp og sagði: „Ég gerði skyldu mína og hringdi á viðkomandi þm.“ (Forseti: Nei, þetta sagði ég ekki.) En hæstv. forseti stóð upp og taldi sig hafa gert skyldu sína í þessu efni. Að hinu get ég ekki gert eða veit ekki, hvernig á stendur, að þingskrifarar hafa ekki tekið þetta upp. Það var hávaði hér milli okkar þessara tveggja þm., og getur það verið, að þeir hafi ekki þess vegna náð þeim orðum, sem hv. þm. Barð. sagði, og séu þau ekki skráð þess vegna í þingræðu. Hins vegar vita allir, sem hér voru viðstaddir, að þau ummæli, sem hv. þm. viðhafði, voru ærumeiðandi, hann veit varla, hvað hann segir þegar hann er í þeim habít, sem hann var hér. (Forseti: Ég verð að líta svo á, að handrit þingskrifara séu ekki alveg öruggar heimildir, hvað sem öðru líður um þetta mál).