17.02.1948
Efri deild: 63. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

158. mál, iðnskóli í sveit

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Frv. um iðnskóla í sveit var fyrst flutt á Alþ. 1945–46. Aðalflm. þess frv. var Hermann Jónasson. þm. Str. Þegar þetta frv. var til umr. í fyrra, var ég í aðalatriðum meðmæltur málinu, en taldi þó ástæðu til að umbreyta því verulega með tilliti til þeirrar skólalöggjafar, sem gekk í gildi, eftir að frv. var flutt í fyrsta sinn. Því varð að ráði milli mín og flm., að ég tæki að mér að endurskoða frv. með það fyrir augum að breyta því til fulls samræmis við skólalöggjöfina.

Meginefni frv. er það, eins og flestum þm. er kunnugt, að stofnaður verði skóli í húsasmíði, og er gert ráð fyrir, að skólinn verði tveggja ára skóli. Skulu starfa við hann skólastjóri, sem er arkitekt eða húsasmíðameistari, og tveir fastir kennarar. Að vetrinum skal unnið á vinnustofu skólans að smíði á húsgögnum og innréttingum í hús. Enn fremur fer fram bókleg kennsla í reikning, íslenzku, fagteikningu og bókfærslu. Þá er til þess ætlazt, að skólinn geti ráðið til sín fleiri húsasmíði á sumrin til þess að kenna nemendum, ef svo mörg hús eru undir, að skólastjóri og kennarar geta ekki séð fyrir nægilegri kennslu. Starf nemenda á að vera að smíða hús í sveitum og kauptúnum með færri en 300 íbúa. Þetta er meglnefni frv.

Ég tel ekki ástæðu að fjölyrða mjög um megintilgang frv., því að það er í aðalatriðum þm. kunnugt, en ég vil gera grein fyrir þeim meginbreytingum, sem á frv. hafa verið gerðar, frá því það lá hér síðast fyrir. Aðalatriðin eru þessi:

Í hinni upphaflegu mynd frv. var gert ráð fyrir því, að skólinn hefði á ári hverju allt að 50 nemendur. Þá var ætlazt til, að hann starfaði í tveimur deildum. Nú er ætlazt til, að skólinn taki á ári hverju allt að 30 nemendur og nemendur starfi í einni deild eingöngu við húsasmíði.

Um inntökuskilyrði, sem voru í fyrra frv., vil ég segja þetta. Þá var gert ráð fyrir eins árs undirbúningsnámi í héraðsskóla eða gagnfræðaskóla og gert að skilyrði, að nemendur frá þessum skólum hefðu ekki hlotið lakari einkunn en II eink. Nú eru inntökuskilyrðin gerð nokkru strangari og gert ráð fyrir, að inntökuskilyrði í skólann sé miðskólapróf frá héraðsskóla eða gagnfræðaskóla með I. eink. Þar sem hér er aðeins um einn skóla að ræða á landinu, sem tekur við nemendum úr héraðsskólum og gagnfræðaskólum, þá mundi verða nægilegur nemendafjöldi, sem sækti um nám í slíkum framhaldsskóla, og því ekki ástæða til að ætla þar öðrum nám en þeim, sem skara fram úr og hlotið hafa 1. eink. við héraðsskóla og gagnfræðaskóla. Einnig eru strangari ákvæði um menntun forstöðumanns og kennara en áður var í frv.

Allveruleg breyt. hefur einnig verið gerð á námsgreinum skólans frá því, sem ætlazt var til í upphaflega frv. Þannig var ætlazt til, að fræðileg kennsla færi fram í íslenzku, teikningu, bæði almennri teikningu og verkteikningu, efnisfræði, iðnsögu, eðlisfræði og auk þess íþróttum og söng. Nú er fræðilegri kennslu einbeitt að móðurmálinu, reikningi, verkteikningu og bókfærslu. Þannig hafa ýmsar námsgreinar, sem áður voru í frv., verið felldar niður í núverandi mynd frv., en reikningskennsla og bókfærsla tekin upp, sem ekki var gert ráð fyrir áður. Byggingarsvið skólans er bundið að mestu leyti við sveitir og kauptún. Þó er skólanum einnig heimilt að annast forstöðu bygginga í kaupstöðum, ef samþykki iðnráðs í héraði liggur fyrir um það.

Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir því, að nemendur, sem skólinn útskrifaði, fengju rétt til þessu að veita forstöðu byggingu á húsum í sveitum. Mér finnst varla frambærilegt að takmarka rétt þeirra manna, sem skólinn útskrifar sem iðnaðarmenn, við sveitirnar eingöngu. Þegar þeir eru útskrifaðir úr skólanum, þá eiga þeir að hafa rétt til þess að veita byggingu húsa forstöðu, hvar sem er á landinu.

Í frv. stendur, að skólinn skuli hafa tvo fasta kennara, en gert er ráð fyrir, að honum sé heimilt að bæta við sig fleiri smiðum til þess að standa fyrir sumarstarfsemi skólans, því að það er hugsanlegt, að þessir 30 nemendur, sem starfa við skólann. starfi í 10 flokkum, og þyrfti þá auðvitað að hafa leiðbeinanda í hinu faglega starfi hjá hverjum hóp nemenda.

Þá eru nokkur orð um kjör nemenda. Það er dálítið breytt frá því, sem það var í frv. upphaflega. Nú er gert ráð fyrir, að nemendur starfi að sumrinu hjá skólanum 7 st. á dag alla virka daga við smíðar á húsum, sem skólinn hefur með höndum. Nú vinnur nemandi að ósk skólans umfram þetta, og fær hann þá greiðslu samkv. verkamannataxta fyrra árið og 15% hærra kaup hið síðara ár. Að vetrinum stundar nemandi verklega námið í vinnustofu skólans 4–5 st. á dag, en auk þess er bókleg kennsla 2–3 st. á dag. Er því skyldunám á vegum skólans að vetrinum 6–8 st. Auk þess bætist við þennan vinnutíma undirbúningur undir bóklega námið. Fyrir þetta fá nemendur frítt fæði, húsnæði, ljós, hita, þjónustu og kennslu, sem þá kemur á móti þeirri skylduvinnu, sem innt er af hendi hjá skólanum. Ef nemendur vinna 1–2 st. á dag umfram, þá fengju þeir þannig nokkurt fé milli handa til annarra hluta en framfæris, meðan á skólanáminu stæði.

Með þessu held ég, að ég hafi gert nægilega grein fyrir efni frv., eins og það er nú. Sérstaklega hef ég eytt orðum að mismun á efni frv. nú, miðað við það, sem áður var. Frv. í fyrri mynd sinni var sent til umsagnar tveimur aðilum, sem sérstaklega þótti ástæða til að leita álits hjá um þetta mál, í fyrsta lagi teiknistofu landbúnaðarins, og komu þaðan meðmæli með frv., og í annan stað var frv. í þáverandi mynd sent Landssambandi iðnaðar manna, og barst þáverandi iðnn. svar, sem var langt og ýtarlegt. Efni þess var þetta í aðalatriðum:

Stjórn Landssambandsins hældi meginhugmynd frv., en hafði þó ýmislegt við það að athuga. Það er ein málsgr., sem ég vil sérstaklega, með leyfi hæstv. forseta, fá að tilfæra hér orðrétta. Hún er þannig:

„Stjórn sambandsins er sammála flm. frv. um það, að það er langt frá því, að ástandið í byggingarmálum sveitanna sé viðunandi, og að því valdi að miklu leyti þekkingarleysi á þessu sviði og skortur kunnáttumanna til þess að sjá um smíði sæmilegra húsa. Rétt er þó í því sambandi að benda á, að löggjafinn hefur ekki hingað til viljað ætla sveitunum kunnáttumenn á þessu sviði, og að skortur kunnáttumanna stafar af því. Ráðstafana til úrbóta í þessum efnum er því þörf, og sennilegt, að opinber skóli verði eina ráðið, er að gagni kemur, enda séu kennarar skólans fulllærðir iðnaðarmenn.“

Þarna er tekin afstaða með þessari meginhugsun í frv., að stofna þurfi skóla til þess að sjá sveitunum fyrir auknum fjölda faglærðra manna í byggingarmálunum. Landssambandið telur víst, að stofnun skóla sé eina leiðin til að bæta úr þessu, en eins og ég tók fram, þá gerði Landssambandið ýmsar aths. við frv.

Í fyrsta lagi taldi það, að verkstæði, sem rúmaði 100 manns við trésmíðar ásamt efni, kennurum og íbúðum, væri mikið bákn. Landssambandið lagði til, að ekki yrði farið svo stórt af stað, og því verði að minnka fyrirhugaða skólastofnun úr 100 nemendum í það að hafa 50–60 nemendur miðað við tveggja ára nám.

Í annarri aths. sinni tekur stjórn sambandsins fram, að skólinn eigi ekki að veita full iðnréttindi, heldur útskrifa með sérstöku burtfararprófi. Á móti þessari aths. landssambandsstjórnarinnar kom það að gera inntökuskilyrðin miklu þyngri en áður. Í frv., eins og það er nú, er enn fremur kveðið fast á um það, að forstöðumaður og fastir kennarar hafi fræðilega þekkingu. Með því móti væri skólinn færari um að útskrifa nemendur sína sem færa iðnaðarmenn. Þriðja aths. Landssambandsins fjallar um það, að í frv. mþn. í skólamálum sé gert ráð fyrir, að tveggja ára framhaldsnám og miðskólapróf þurfi til inngöngu í iðnskóla og aðra framhaldsskóla. Í þessu frv. höfum við flm. þess komið á móts við þessar kröfur og krafizt þess, að nemandi hafi lokið miðskólaprófi með I. einkunn til þess að fá inngöngu í iðnskóla.

Fjórða aths. Landssambandsins var þess efnis, að ekki væri gert ráð fyrir reikningskennslu í skólanum, en það væri sú fræðigrein, sem iðnaðarmenn rækju sig oftast á, að þá skorti tilfinnanlega þekkingu í. Þessi ábending Landssambandsins er viðurkennd réttmæt og hefur verið tekin til greina í frv., eins og það nú liggur fyrir. Ýmsum námsgreinum hefur verið sleppt, sem Landssambandinu fannst litla þýðingu hafa í frv., og reikningi og bókfærslu bætt inn í það í staðinn. Það var af misgáningi, að reikningskennsla var ekki ákveðin upphaflega frv., en það er auðvitað sjálfsagt, að reikningur sé kenndur, svo og bókfærsla. Að vísu mætti segja, að ekki væri eins mikil nauðsyn að setja þetta inn 5 frv. nú hvað við kemur reikningskennslunni, þar eð nemendur verða að hafa lokið miðskólaprófi við gagnfræða- eða héraðsskóla.

Lokaaths. Landssambandsins var sú, að skólanum væri ætlað að grípa yfir allt of margar iðngreinar, og gæti verið hæpið fyrir ríkisvaldið að bera ábyrgð á hálfkunnáttu, sem af því gæti leitt. Þessi ábending Landssambandsins er einnig tekin til greina, og er skólanum nú ætlað að einbeita sér að húsasmíðakennslu, eins og ég hef fyrr vikið að. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir, að nemendur gætu valið um húsasmíðanám eða húsgagna- og búsáhaldasmíði. Einnig var gert ráð fyrir, að nemendur lærðu að leggja einfaldar raflagnir í hús ásamt vatns- og hitalögnum. Svo var og gert ráð fyrir, að nemar lærðu málningu og veggfóðrun. En nú er ekki farið inn á þetta í þessu frv., því að ekki þótti rétt að fara inn á, allt of margar iðngreinar, enda er það vart mögulegt að nema að nokkru gagni á tveimur árum margar fjölbreyttar iðngreinar, og er slíkt mjög skiljanlegt.

Nú má búast við því, að menn kynnu að spyrja: „Er ekki nóg af lærðum og vel færum iðnaðarmönnum í landinu til þess að bæta úr byggingaskortinum í kapptúnum og sveitum?“ Ég svara því ákveðið, að það er áþreifanlegur skortur á sérfróðum mönnum í byggingarmálum í kauptúnum og sveitum. Þessi skortur er svo mikill m. a. vegna þess, að allur þorri lagtækra manna úr sveitum og sjávarþorpum hefur verið ráðinn til Reykjavíkur til þess að taka að sér alls konar iðnaðarvinnu, bæði við byggingariðnaðinn, trésmíðaverkstæði og vélsmiðjur. Þessir menn, sem komið hafa til Reykjavíkur úr sveitum og þorpum landsins, hafa haft nóg að gera sem alls konar gervismiðir. Vegna þessa er ástandið svo slæmt úti um sveitirnar, að flestir þeir menn, sem lagtækir eru, hafa flutzt í burtu ásamt þeim faglærðu mönnum, sem þar hafa dvalizt. Sveitirnar eru nú mun fátækari en áður af verkkunnandi mönnum. En þrátt fyrir það að fagmennirnir hafi flutzt úr sveitunum í kaupstaðina, þá eru kaupstaðirnir ekki aflögufærir með menn til að veita forstöðu byggingum í sveit. Sveitir og sjávarþorp eru því í miklum vanda stödd að reisa byggingar yfir menn og búfé. Þess vegna er nauðsynlegt að leita annarra ráða, sem verða mættu til úrbóta, og við flm. þessa frv. leggjum til, að tala hina faglærðu manna verði aukin með því að koma af stað slíku skólahaldi sem lagt er til í þessu frv. Til þess að sýna byggingarþörfina má geta þess, að ennþá er 1/3 hluti íbúðarhúsa í sveitum og sjávarþorpum torfhús. Flest þeirra eru orðin gömul, og þau munu ekki endast lengi ennþá, 1/3 hluti íbúðarhúsanna eru timburhús, sem kallar mjög að, að endurbyggja. Láta mun nærri, að endurbyggja þurfi um 50% íbúðarhúsa í sveitum á mjög skömmum tíma. Árið 1931 eru torfbæirnir taldir 2253 að tölu, eða 38,5% af öllum íbúðarhúsum. Torfbæir eru nú, samkv. skýrslum frá 1940, 1398 og bæir úr ýmsu efni 658, eða samtals 2056. Þetta er nokkuð í áttina, miðað við það, sem var árið 1910. Nú mun láta nærri, að 6 þús. býli séu á landinu, og samkvæmt niðurstöðu skipulagsnefndar atvinnumála árið 1944 um íbúðarhúsnæði í sveitum og kauptúnum eru nær 3 þús. fjölskyldur, sem verða að sætta sig við ófullnægjandi húsnæði, og nefndin telur, að endurbyggja þurfi allt að helming íbúðarhúsa í kauptúnum og sveitum. Hér við bætist svo, að ástand húsnæðis fyrir búpening er litlu betra, og geta menn gert sér í hugarlund, hver hætta það er fyrir landbúnaðinn, ef illa er séð fyrir húsnæði búpeningsins.

Mikið verkefni liggur fyrir í sveitum landsins að endurbyggja allt að helming íbúðarhúsanna og meginhluta peningshúsanna. Þetta getur vart orðið, nema aukin verði allverulega tala sérfróðra manna til þess að standa fyrir þessum framkvæmdum. Ég skal játa, að einn skáli, sem tekur 30 nemendur og útskrifar 60 menn annað hvert ár, mun hvergi fullnægja þörfinni. Hins vegar munu 30 nemendur gera mikið gagn við húsbyggingar til sveita, auk þess sem fagmenn mundu veita forstöðu byggingarframkvæmdum. Er ár líða, mun svo hópurinn stöðugt stækka, sem leggur fram hjálparhönd við að byggja upp, og fyrr en varir mun skólinn hafa útskrifað mjög álitlegan hóp sérfróðra manna, sem mun endurbyggja sveitirnar og þorpin í landinu.

Ég fer svo ekki fleiri orðum um frv. Ég hef rætt hér allýtarlega breytingar þær, sem gerðar hafa verið á frv. frá hinni upphaflegu mynd þess. Ég vænti þess, að hv. þdm., sem fá frv. þetta nú í þriðja sinn til afgreiðslu, taki því vinsamlega og geti tekið afstöðu til frv. með það fyrir augum, að það muni leiða það af sér, að flýtt verði fyrir því, að fólk það, sem nú býr í ósæmandi húsnæði í sjávarþorpum og sveitum landsins, fái betra og heilnæmara húsnæði.

Það er svo till. mín, að málinu verið vísað til hv. iðnn., frekar en landbn., þótt málið sé hvort tveggja iðnaðar- og landbúnaðarmál.