20.12.1947
Neðri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Það var tilkynnt með allmiklum belgingi, þegar frv. þetta kom fyrir þingið, að nú hefði málið verið hugsað svo til þrautar, að ekki mundi hægt að bæta það í meðferð þingsins. Í útvarpsumr. sagði hæstv. forsrh., að hann hefði kosið að hugsa þetta mál rækilega og ekki viljað leggja fram vanhugsaðar till., en þegar hann rakti frv., lagði hann mesta áherzlu á þau atriði, sem breytt hafði verið frá því, er stjórnin lagði til í upphafi. Frv. kom þannig frá ríkisstj., að það væri öruggt, að engin útgerð yrði rekin á næstu vertíð. Frv. var samið af sama hroka og lýsti sér í ræðu hæstv. sjútvmrh., er hann kallaði andstæðinga frv. labbakúta. En framkoma hans sjálfs í þessu máli hefur verið alveg sérstaklega labbakútsleg. Hann hafði engin samráð við útgerðarmenn við samningu frv. og hefur nú verið hrakinn úr einu víginu í annað, þegar útvegsmenn hafa neyðzt til að senda nefndir til hans til þess að fá hlut sinn bættan. Af þessu frv. er öllum ljós fjandskapur ríkisstj. í garð launastéttanna, en gagnvart sjávarútveginum hefur frv. nokkuð lagazt í meðferð þingsins.

Ég ætla að lofa hv. þm. að heyra yfirlit yfir þær breyt., sem orðið hafa á frv., hvað snertir sjávarútveginn, og hversu margfaldlega hæstv. sjútvmrh. hefur orðið að hrekjast frá fyrri fullyrðingum sínum, en hann sem ráðh. sjávarútvegsmála ber ábyrgðina á þeim kafla frv., sem að útveginum snýr. Helmingur eignaraukaskattsins hefur verið látinn í hlutatryggingasjóð, og er gizkað á, að sú upphæð sé um 5 millj. kr., og er enginn vafi á, að þetta er til mikilla bóta fyrir sjávarútveginn. Þetta fékkst þó aðeins fram vegna krafna útvegsmanna og vegna þess, að við sósíalistar hindruðum, að frv. yrði hraðað svo gegnum þingið sem hæstv. ríkisstj. ætlaðist til. Nokkrar fleiri breytingar hefur stjórnin séð sig knúða til að gera á frv., t.d. að greiða rýrnun á saltfiski, sem dregizt hefur að senda út, án þess að útgerðarmenn eigi nokkra sök á því. Það er að vísu ekki ákveðið, eftir hvaða reglum greitt verður, en samtök útvegsmanna eiga að fylgjast svo vel með, að þeir fái bætt það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir. Þetta getur li$a orðið nokkurt aðhald fyrir stjórnina í afurðasölumálunum. Það þarf að koma í veg fyrir, að saga þessa árs endurtaki sig í afurðasölumálunum, þar sem stjórnin hefur hafnað sölu, sem fyllilega stendur fyrir ábyrgðarverði, af því að heildsalarnir gerðu kröfu til að fá pund og dollara til að braska með. Það hefur verið lögð mikil áherzla á það að losna við ábyrgðarverð á fiski, þó að það sé alveg nauðsynlegt, m.a. til að fyrirbyggja, að stjórnin selji afurðirnar fyrir miklu lægra verð en hægt er að fá. Það nær ekki nokkurri átt, að útvegurinn, sem berst í bökkum, eigi að greiða fyrir afglöp hæstv, ríkisstj. á árinu 1947. Því er alltaf haldið fram, að Alþ. geti ekki tekið fram fyrir hendur bankanna í því að ákveða vexti, en nú er vitað mál, að Landsbankinn hefur í hyggju að hækka útlánsvexti um 1% og þar með rekstrarlán til útvegsins. Í frv. stjórnarinnar var ekkert orð um vexti, þó að útvegurinn sé skuldum hlaðinn og vaxtabyrðin eitt mesta vandamálið af þeim sökum. Þetta hefur nú fengizt nokkuð lagfært, þannig að eftir að ráðh. hafði fallizt á 1% vaxtahækkun bankanna, þá hefur stjórnin verið knúin til að setja inn þau ákvæði, að vextir skuli ekki hækka af rekstrarlánum útvegsins. Það þýðir, að stjórnin hefur neyðzt til að breyta út af ákvörðunum, sem hún var búin að taka, með lagafyrirmæli frá Alþingi vegna mótspyrnu þingsins. Saga vaxtanna var ekki þar með búin, því að í Ed. var gengið það langt, að stjórnin neyddist til að fallast á, að vextirnir skyldu ekki fara fram úr 4% til útvegsins, en hraðfrystihúsin hafa orðið að greiða 41/2% fyrstu 6 mánuði ársins, en 51/2% síðan. Hér hefur úrslitaákvörðunin í þessu efni verið færð í hendur löggjafarvaldsins, eins og ég tel eðlilegt og sjálfsagt, og er það ef til vill þýðingarmest af því, sem ávannst í Ed. Hins vegar eru það engin rök að heimta 4% vexti af hraðfrystihúsunum. Erlendis þekkist slíkt ekki, og þar eru vextirnir ekki einu sinni 1%, heldur 1/2%, enda er áhættan í raun og veru engin, þegar lánað er út á ákveðna framleiðslu, sem er verið að fullgera eða er ef til vill fullgerð. Ég hef nú ekki viljað ganga eins langt í þessu og hér hefur verið minnzt á, en tel mig aðeins flytja væga sanngirniskröfu með brtt. minni um, að vextir hraðfrystihúsanna verði færðir niður í 3%. Í sambandi við ábyrgðarlögin hefur stjórnin hörfað nokkuð og fallið frá að binda ábyrgðina við 35 aura, en fallizt á að borga geymslukostnað. Það er líka alveg nauðsynlegt, að ríkisstj. geti ekki lengur skákað í því skjóli að láta framleiðsluna liggja mánuðum saman á kostnað útvegsmanna, sem auk vaxtanna af rekstrarlánunum hafa orðið að bera allan skaða af þeirri rýrnun, sem óhjákvæmileg er. Þannig hefur stjórnin orðið að hörfa allverulega fyrir útvegsmönnum, bæði hvað snertir ábyrgðina og vextina, og undanhaldið sýnir, hversu veik hún er. Hún hefur að vísu ekki ennþá hörfað fyrir launþegum, heldur haft í hótunum um atvinnuleysi og gengislækkun, ef reynt væri að koma í veg fyrir þá árás á kjör launþega, sem felst í þessu frv. En ríkisstj. mun fyrr eða síðar verða að hörfa fyrir launþegum eða að öðrum kosti víkja úr sæti, því að þeir munu ekki þola skerðingu á lífskjörum sínum að óþörfu.