22.03.1948
Efri deild: 84. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í C-deild Alþingistíðinda. (2989)

194. mál, menningarsjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr., en vil aðeins lýsa yfir, að mér þykir ákaflega einkennilegt, að svona mál skuli koma fram svona á síðustu stund. Hv. þm. hafa ekki enn getað sett sig inn í það. Hér er um fjárgreiðslu úr ríkissjóði að ræða, því að ríkissjóður fær vitanlega því minna í sinn hlut, því meira sem tekið er til annarra aðila. Hefði því eins mátt setja þetta í fjárl. Ég vil einnig benda á, að það eru mjög skiptar skoðanir, hvort beri að auka fjárveitingar til menntamálaráðs, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir hafa legið nú upp á síðkastið, hvernig þessu fé hefur verið varið. Ég vil ekki halda hér uppi málþófi, en tel mjög óheppilegt, að þetta skuli koma fram á síðasta augnabliki.