22.03.1948
Efri deild: 84. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í C-deild Alþingistíðinda. (2992)

194. mál, menningarsjóður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af því, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, þó að það sé óþarft, eftir að hv. form. hefur sagt hér nokkur orð. Ég vil þó taka fram, að það þarf ekki að vísa málinu til n. vegna minnar afstöðu. Ég er málinu andvígur. Þetta er eitt af þeim menningarmálum, sem brennivínssölunni er ætlað að standa undir. Ég er andvígur slíkri aðferð. Það virðist vera stefnuatriði hverrar ríkisstj. eftir aðra að festa áfengistekjur sem mest við framkvæmd menningarmála og gera brennivínið að undirstöðu undir framkvæmd slíkra mála, að því er virðist til að hindra sem mest, að niður verði felld sala þessarar vöru.