26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (3001)

77. mál, Slippfélagið í Reykjavík

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar till. til þál. á þskj. 97, um heimild fyrir ríkisstj. að ábyrgjast allt að 2700000 kr. fyrir h/f Slippfélagið í Reykjavík. N. hefur rætt þessa þáltill. og leitað nokkurra upplýsinga um málið, og skal ég fara um það nokkrum orðum.

Slippfélagið var stofnað 1902 með nálægt 100 þús. kr. hlutafé, til þess þá alveg sérstaklega að byggja upp dráttarbraut fyrir þáverandi fiskiskipaflota landsins, sem var ekki mikið yfir 100–150 skip, 1903–1904 var byggð braut, sem gæti tekið 150 smálesta þung skip, og var það þá talið hæfilegt fyrir þau skip, sem þá voru í landinu.

Þegar togararnir komu 1907, hafði slippurinn á þeim tíma ekki fylgzt svo með þróuninni sem nauðsynlegt hefði verið. Það var ekki fyrr en 1932, að farið er að hugsa til þess að stækka brautirnar, svo að hægt væri að inna af höndum þau verkefni, er voru í samræmi við hinn vaxandi útveg í landinu. Allt frá 1907 til 1932 var ekki hægt að taka hér upp togara til viðgerða á annan hátt en að leggja skipinu í fjöru sumpart í Reykjavíkurhöfn og sumpart í Hafnarfirði og Gufunesi og hingað og þangað. Þetta hafði í för með sér mikið erfiði og mikinn kostnað og oft margvíslegt tjón fyrir sjálf skipin, sem lögð voru þannig á fjöru vegna skemmda, þannig að t. d. gekk stundum upp í þeim hluti í botni, og hækkuðu þá vátryggingargjöldin vegna slíkra skemmda. Það var því mjög aðkallandi fyrir 1932 að koma hér upp dráttarbraut. Þá hefst annar áfangi félagsins með því, að byggðar eru tvær dráttarbrautir, sem hvor fyrir sig gat tekið upp stærri skip. Fjárhagur félagsins var þá orðinn þannig, að 60 þús. kr. voru í hlutafé af því, sem félagið var stofnað af. Við þetta var þá bætt nýjum 60 þús. kr. sem hlutafé og 90 þús. kr. sem forgangshlutafé. Það ár gekk ríkissjóður í ábyrgð fyrir 125 þús. kr. samkv. l. nr. 81 frá 1932. Mér þykir rétt að geta þess, hvaða verkefni þessar brautir hafa leyst af hendi síðan 1932, og hef ég fengið skýrslur yfir það. Á þessum tíma síðan 1932 hafa verið tekin upp nær 1700 íslenzk skip og nær 400 erlend skip, sem munu samtals vera um 550 þús. brúttósmálestir, og vegna þessara aðgerða hefur verið unnið fyrir á annað hundrað millj. kr. Þetta fé hefði farið að mestu leyti út úr landinu, ef ekki hefði verið horfið að því, og þá einnig fyrir góðan skilning hv. Alþ. á málinu, að koma í framkvæmd þessum mannvirkjum.

Nú er þriðji áfanginn fram undan. Við vitum, að togaraflotinn hefur nú stækkað svo, að þær brautir, sem nú eru, geta ekki tekið upp þau nýju skip, og auk þess hafa þessar brautir verið svo ofhlaðnar, sérstaklega á styrjaldarárunum, að þær hafa alls ekki enzt eins vel og þær hefðu annars gert, ef hægt hefði verið að verja þær þeim ofþyngslum, sem varð að leggja á þessar brautir á þessum ófriðartímum. Og þess vegna er það alveg óhjákvæmilegt, að byggðar séu nýjar brautir, eins og hefur verið hafizt handa um. En skilningur á því máli virðist hafa verið ekki aðeins hjá félaginu sjálfu, sem hefur forgöngu um þetta mál, heldur og landsbankanum, sem hefur lánað til bráðabirgða fé til þessara framkvæmda. Einnig hjá nýbyggingarráði, sem lofaði og veitti alla aðstoð, á meðan það starfaði, og auk þess lofaði beinlínis, að lánað væri úr stofnlánadeildinni til þessarar mannvirkjagerðar. Nú hefur þetta brugðizt, eins og kunnugt er, og vegna þess er fram komin sú þáltill., sem hér liggur fyrir.

Þá vil ég einnig í sambandi við það, sem kemur fram í þessari skýrslu um þau störf, sem unnin hafa verið á þessum brautum á þessum tíma, benda á, og það er þó kannske ekki aðalatriði þessa máls, að á öllum styrjaldartímanum hefði engan veginn verið unnt að tryggja eða skapa togaraflotanum það, sem var gert, ef þessar brautir hefðu ekki verið til hér í landinu, því að vitanlega var einmitt vegna þeirra hægt að halda uppi þessum gömlu skipum, sem oft hafa verið fyrir þann tíma kallaðir ryðkláfar. Þessi skip var hér á landi hægt að endurbyggja svo traust, að hægt var að sækja mörg hundruð millj. kr. á þeim í greipar ægis á styrjaldarárunum, beinlínis vegna þess að þessir menn, sem hér eiga hlut að máli, höfðu staðið að því að koma upp þessum brautum 1932.

Nú erum við komnir í sömu aðstöðu og fyrir 1932, þannig að við getum ekki veitt hinum nýju skipum okkar þá aðstoð, sem þarf. Og þess vegna leggur fjvn. einróma til, að þessi þáltill. verði samþ., eins og hún nú liggur fyrir.

Viðvíkjandi tryggingu fyrir þessu láni vil ég geta þess, að það er gert ráð fyrir, að allt mannvirkið kosti 5 millj. kr. og að 1. veðréttur verði gefinn sem trygging fyrir láninu fyrir öllu þessu mannvirki, eins og það verður fullgert, og auk þess 5 þús. m2 lóð, sem látin er fylgja með, svo að unnt sé að starfrækja þetta fyrirtæki, alveg sérstaklega ef til þess kæmi, að þyrfti að ganga að veðinu, sem ég vona, að ekki komi til. Þetta hefur verið boðið til viðkomandi stofnana, þegar rætt var um að lána úr stofnlánadeildinni og Landsbankanum, og þessi trygging hefur verið talin örugg fyrir 2700000 kr., og ég geri ráð fyrir, að þessi trygging verði færð yfir fyrir þessu láni, þegar það verður tekið á sínum tíma. Lítur n. svo á, að þessi trygging sé nægileg hér, enda ekkert raskazt frá þeim tíma, þegar gert var ráð fyrir. að lánið yrði tekið hjá stofnlánadeildinni.

Ég sem form. fjvn. hef rætt þetta við hæstv. fjmrh., sem lýst hefur yfir, að hann muni nota þessa heimild, ef hún verði samþ. af Alþ., eins og gert er ráð fyrir í þáltill.

Þá þykir mér rétt að geta þess hér líka, að síðan 1932, eða nýlega, hefur verið aukið hlutafé fyrirtækisins í 700–800 þús. kr., og þessi aukning er staðreynd og ekki gerð með venjulegum hlutabréfum, heldur er það fé lagt fram af hluthöfum beinlínis í peningum, þannig að það er tilbúið til rekstrarins.

Þá tel ég rétt að geta þess, að frá 1932–1947 hefur þannig verið greiddur arður, að fyrstu 3 árin var hann ekki greiddur, en síðan frá 2–6% til hluthafa, og þó ekki nema til þeirra, sem hafa forgangshlutabréf, og arðgreiðslan nemur um 90 þús. kr. Það má segja, að ekki hafi verið farið óskynsamlega að af þeim, sem stjórnað hafa fyrirtækinu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál nánar. N. er sammála um að leggja til, að þáltill. verði samþ. óbreytt, og væntir þess, að hv. Alþ. sýni þessu máli sömu samúð nú eins og Alþ. á sínum tíma sýndi 1932, sem hefur orðið til margvíslegrar hagsældar og blessunar fyrir útveginn og landslýðinn í heild síðan.