20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (3010)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er dálítið undrandi yfir þessari till. og fæ ekki séð, að þau rök, sem hæstv. forsrh. hefur fært fyrir henni, fái staðizt, ef ekki er einhver annar tilgangur með henni. Það hefur alltaf verið talið eðlilegt og sjálfsagt, að þm. fengju sitt jólafrí og að það væru ekki fundir í þinginu yfir jólahelgina, fram á þrettándann eða svo. Til þess að gera slíkt þarf enga lögbundna þingfrestun. Það hefur líka stundum þótt hentugt, að það líði máske heldur lengri tími, t. d. var það þannig í ársbyrjun 1945, að þing kom ekki saman aftur fyrr en 10. jan., og var samkomulag á milli þingflokkanna, að þessu skyldi svo til háttað. Hins vegar þetta — að leggja til formlega frestun á fundum Alþ. eftir stjskr. — það þýðir, að það er beinlínis þinghlé á meðan. Það þýðir aftur tvennt: Í fyrsta lagi, þó að það sé nokkuð umdeilt atriði, að ríkisstj. getur gefið út brbl., meðan slík frestun varir. Í öðru lagi er þm. ekki starfandi sem þm. og fá þar af leiðandi ekki sitt kaup. Viðvíkjandi aðalatriðinu, hvort ríkisstj. með þessari frestun vilji tryggja sér vald til þess að geta gefið út brbl., þá fæ ég ekki séð, að það væri að neinu leyti réttlátt af ríkisstjórninni að æskja þess né heldur af Alþingi að veita það. Ríkisstj. hefur sýnt það einmitt nú, að hún hefur þann stuðning hér á Alþ., að þurfi hún að setja í gegn einhver mjög þýðingarmikil l., sem svona skyndilega bæri að, þá hefði hún að öllum líkindum stuðning til þess að fá það í gegn með því fylgi, sem hún hefur á Alþ., og ef hún gæti ekki komið þeim l. í gegn á þann hátt, þá álít ég ekki rétt, að ríkisstj. fengi tækifæri til þess að gefa þau l. út sem brbl. Þá er það, hvað snertir störf fjvn. Ég get að ýmsu leyti vel skilið, að það gæti verið heppilegt fyrir ríkisstj., að fjvn. starfaði nokkurn tíma án þess að þingfundir væru um leið, en ég fæ hins vegar ekki skilið, að fjvn. beri skylda til þess að starfa, ef þingið situr ekki. Aðeins einni n. er uppálagt að koma saman, þó að þingið sitji ekki, það er utanrmn. Ég verð að segja það, að það væri óviðkunnanlegt, ef það ætti að fara að láta fjvn. halda sérstaka fundi á miðjum þingtíma, en láta þó ekki þingið vera starfandi. Ég fæ ekki séð samræmið í því.

Út frá þessu, sem ég álít aðalatriðið í þessu máli, fæ ég ekki séð, að það sé nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að fara fram á þessa þingfrestun, sem hér liggur fyrir. Ég fæ ekki betur séð en að ríkisstj. gæti með samkomulagi við forseta þingsins ákveðið jólafrí eins og venjulega og samkomulag yrði um það, að ekki yrðu haldnir þingfundir fyrstu dagana eftir jólafríið, en fjvn. væri hins vegar starfandi.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, sem er smærra atriði, að þm., sem venjulega hafa sitt kaup yfir jólin, séu sviptir því, vil ég segja það, að það kann að vera, að marga muni ekki mikið um það, en ég vil samt segja það, að ég álít þess háttar aðferð svona óþarfa „knífirí“ af ríkisstj. Ég álít það svona eins og vott um það, að hana langi til þess að sýna þinginu, hvað litla virðingu hún hafi fyrir því og réttindum þm. Ég álít þetta hvorki stórmannlega gert né sanngjarnt.

Hitt er aðalatriðið. að ég er algerlega andvígur því að gefa ríkisstj. nokkurt tækifæri til þess að gefa út brbl. á næstunnu. Ég álít, að ríkisstj. hafi til þeirra verka, sem hún telur nauðsynlegt að vinna, nægilegt þingfylgi sem stendur, eins og hún hefur sýnt, og það sé ekki rétt, að hún fari að leggja í önnur verk en þau, sem hún treystir sér til að hafa almennt þingfylgi fyrir. Náttúrlega getur það svo verið, að það vaki eitthvað annað fyrir ríkisstj., en þá væri æskilegt að það kæmi fram. En vegna þess að þessi réttur er talinn felast í þessari frestun — réttur til að gefa út brbl. —, þá vil ég andmæla því, að þessi frestunartill. sé samþ.