20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3011)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Mér skilst, að aðalatriði andstöðu hv. 2. þm. Reykv. gegn þessari till. sé það, að hann vilji ekki gefa ríkisstj. vald til þess að gefa út brbl. á þessu tímabili, sem gert er ráð fyrir, að frestunin standi. Hann hefur sínar ástæður fyrir því. En út frá þeim almennu hugleiðingum hans um þessi atriði vildi ég segja það, að það er að sjálfsögðu skammgóður vermir fyrir hverja þá ríkisstj., sem vildi nota sér það að gefa út brbl., ef hún er ekki viss um, að hún eigi nægilegt þingfylgi fyrir þeim brbl., sem hún kynni að gefa út. Ég álít þess vegna, að ríkisstj., ef hún gæfi út brbl., sem ég veit ekki, að sé ástæða til, mundi ekki gefa þau l. út, nema hún hefði tryggt sér fylgi stuðningsflokka sinna, svo að þau l. næðu fram að ganga á Alþ. Þetta vildi ég segja út af þessari höfuðröksemd hv. 2. þm. Reykv. gegn till. En hitt atriðið, sem ég drap á í fyrri ræðu minni til stuðnings fram kominni till., er það, að margir alþm., sem eiga heima úti á landi, hafa eindregið látið í ljós þá ósk við ríkisstj., að þeir fengju fært á því að dveljast eitthvað fram yfir nýár heima hjá sér til þess að ljúka af nauðsynlegum störfum, og ef þeir gerðu það, þá væri ríkisstj. ekki heimilt að hafa þinghlé, sem mætti telja, að yrði fram yfir 14 daga, heldur yrði að liggja fyrir samþykkt Alþ. um það að fresta fundum þess um skeið. Bæði þessar skiljanlegu óskir margra utanbæjarþm. og eins það, að ríkisstj. virðist, að það sé mjög eðlilegt að nota þann tíma, sem kynni að vinnast frá nýári og til þess tíma, þegar þing kæmi saman aftur, til að undirbúa fjárl., þá telur ríkisstj. mjög eðlilegt, að frestun verði ákveðin.

Varðandi það atriði sérstaklega. hvort fjvn. hafi skyldu til þess að vinna, meðan þessi frestun væri, þá má vel vera, að það sé vafasamt, að hún hafi til þess skyldu, enda mundi ríkisstj. á engan hátt óska eftir því að þvinga fjvn. til þeirra starfa gegn vilja sínum. Hins vegar vildi ég fyrir mitt leyti álíta, að fjvn. þætti næsta eðlilegt og þáttur í góðum vinnubrögðum að hafa einhvern tíma, til umráða, meðan frestunin stendur, til þess að undirbúa nauðsynlegar breyt., sem verður að gera á fjárlagafrv. því, sem fyrir liggur. Finnst mér engin ástæða til annars en ætla, að fjvn. væri ljúft að eyða í það nokkrum dögum, því að með því móti væri hægt að undirbúa betri vinnubrögð á Alþ., þegar það kæmi saman. Ég sé því ekki, að það sé hægt að meta rök hv. 2. þm. Reykv. gegn till., önnur en þau, sem hann bar fram, að sjálfsögðu sem höfuðrök, að hann vill ekki veita ríkisstj. heimild til að gefa út brbl. á þessu tímabili, og fer það þá eftir afstöðu hv. þm. út af því atriði, hvort þeir telja, að nokkuð sé í húfi, að ríkisstj. hafi þetta vald eða ekki.

Um laun þm. vildi ég segja það, að mér virðist eftir l. frá 1919 um þingfararkaup, að þfkn. geti um það úrskurðað, hvort þm. fengju laun eitthvað eða jafnvel allan þann tíma, sem þingfrestunin gilti. Jafnvel finnst mér eðlilegt, að þm. hefðu laun a. m. k. þann tíma, sem venjulegt jólaleyfi stendur yfir, þ. e. frá því í dag og þar til hefur verið talið eðlilegt, ef ekki hefði staðið sérstaklega á, að þingfundir hæfust á ný í byrjun næsta árs. Ríkisstj. hefur enga löngun til þess að svipta neinn þm. sínum eðlilega rétti og sanngjörnum kröfum um það út af fyrir sig, og till. þessi til þál. er sízt af öllu borin fram í því skyni, að þm. gætu ekki notið launa þann tíma, sem venjulegt jólaleyfi stendur yfir. Ég tel því fyrir mitt leyti, að það geti ekki verið nein réttlát ráðstöfun að greiða atkv. gegn till. fyrir aðra en þá, eins og kem fram hjá hv. 2. þm. Reykv., sem ekki vilja láta ríkisstj. njóta þess valds, sem heimilað er í stjskr., til að gefa út brbl. á þessu tímabili, en ég hygg, að yfirleitt verði það vald ekki tekið af þeirri ríkisstj., sem situr á hverjum tíma, þegar þing er ekki starfandi, og þurfi því ekki af þeirri ástæðu að ganga gegn till. þeirri, sem hér liggur fyrir.