20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (3012)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég fæ ekki séð, að nokkur ástæða sé til að óttast það, að fyrir stj. vaki að senda þingið heim til þess að fá aðstöðu til að gefa út brbl., og mun ég því ekki ræða frekar um það. Hins vegar get ég sagt það sem mína skoðun, að ég er frekar andvígur því, að nokkur frestun eigi sér stað á störfum þingsins. Ég hefði talið mjög eðlilegt, að þingið yrði kallað saman upp úr áramótum, 6.–8. jan., og héldi þá áfram störfum, því að þá væru meiri líkur til þess, að því tækist að ljúka störfum fyrir 15. febr., og gæti næsta þing þá hafizt á tilsettum tíma, en hins vegar með því að fresta fundum þingsins til 20. jan. eru litlar líkur til, að störfum þessa þings verði lokið fyrir miðjan febr.

Viðvíkjandi fjárhagslegu hliðinni, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á og hæstv. forsrh. einnig, vil ég segja það, að þegar kvisaðist, að til stæði að fresta fundum þingsins til 20. jan., þá létu nokkrir þm. það í ljós við mig sem þingfararkaupsnm., að þeim þætti það miður, ef þetta yrði gert og þannig rofið samhengið í störfum þ. og þm., sem ekki hafa neinar aðrar tekjur heldur en sitt þingmannakaup, yrðu þannig sviptir kaupi. Ég stuðlaði því að því, að þfkn. ræddi um þetta atriði, og kom þá í ljós, að 4 af 5 nm. eru því andvígir, að starfsfólk þingsins og þm. sé svipt kaupi, þótt hlé yrði á störfum þingsins til 20. jan. Hæstv. forsrh. lét í ljós við mig, að hann teldi það valdsvið þfkn. að úrskurða um hina fjárhagslegu hlið málsins, og mun ég sem þfknm. halda mig við þá bendingu hæstv. forsrh. og telja, að þfkn. hafi rétt til þess, og mér hefur skilizt, að 4 af 5 nm. væru þeirrar skoðunar, að ekki kæmi til mála að fella niður kaupgreiðslur starfsfólks þingsins og þm., þó að þetta yrði niðurstaðan, að fundum þingsins yrði frestað til 20. janúar.