20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (3016)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég er því meðmæltur, að þingi verði frestað, a. m. k. þann tíma, sem talað er um í þeirri till., sem hér er. Til þess eru tvær ástæður.

Það er nauðsynlegt fyrir menn, sem eiga heima úti á landi, að fá tækifæri til þess að koma heim til heimila sinna og dveljast þar nokkurn tíma. Það er svo um suma þeirra, að þeir hafa störfum að gegna heima í sinni sveit, sem sérstaklega kalla að upp úr næstu áramótum. Það eru þeir menn, sem vinna að eignakönnuninni, undirbúningi skattaframtala og fleiri aðkallandi störfum, sem nauðsynlegt er, að þeir fái tóm til að sinna.

Í öðru lagi tel ég, að slík frestun sé hagkvæm með hliðsjón af þeim verkefnum, sem fyrir liggja á Alþingi. Það er vitað, að lögin, sem gengið var frá í dag, eru þannig, að það verður að umsemja fjárl. Þetta verður bezt gert með því, að ríkisstj. láti vinna að því verki í stjórnarráðinu og leggja fram ný fjárl. Þetta getur tekið nokkurn tíma, ásamt þeim störfum, sem ríkisstj. þarf að vinna að í stjórnarráðinu eins og venjulega við undirbúning fjárl. Það gæti verið hagkvæmt samkomulag milli ríkisstj. og fjvn., að hún kæmi saman, áður en þingið verður kallað saman. Það mundi flýta störfum, þegar þingið kemur saman. Ég geri ráð fyrir, að aðalverkefni þess Alþingis, sem saman kemur í næsta janúarmánuði, verði að ganga frá fjárl., auk þess sem eitthvað annað liggur fyrir því, bæði frá þingi því, sem nú er frestað, og sem fram kann að koma, en aðallega verður gengið frá fjárl.

Þessar tvær ástæður tel ég vera fyrir því, að heppilegt sé að fresta Alþingi, a. m. k. þann tíma, sem um ræðir. Hins vegar er mér ekki annað í hug og finnst sjálfsagt, að allar greiðslur falli niður, bæði til þm. og starfsfólks. Það leiðir af sjálfu sér. Ég vil benda á, að það eru gerðar kröfur til Alþingis um að auka ekki, heldur draga úr þeim kostnaði, sem orðinn er á starfrækslu ríkisstofnana og allri opinberri starfsemi ríkisins. Ég teldi það í mjög miklu ósamræmi við þær kröfur, sem Alþingi er búið að gera til borgara þjóðfélagsins um að draga úr ýmsum kostnaði, ef algerlega á að ganga bak við það, hvað snertir starfsemi ríkisins, en það yrði gert með því að greiða þm. kaup þann tíma, sem þeir sitja ekki á þingi, og því starfsfólki, sem ekki þarf að vinna hér þann tíma, sem þingið starfar ekki.

Þetta vildi ég láta koma fram sem mína skoðun á málinu, og á grundvelli þess, sem ég hef sagt, greiði ég atkvæði með því, að þinginu verði frestað.