20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3018)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Maður heyrir alltaf eitthvað nýtt hvern dag, sem maður lifir. Nú hef ég heyrt lögfræðing koma fram með skýringu, sem er svo fjarstæð, að ég skil ekkert í því. Hann segir, að ef maður vildi skýra bókstaflega 1. gr. l. um þingfararkaup, þá ættu þm. aðeins að fá kaup þá daga, sem þingfundir væru, þá daga, sem þeir „sætu“ hér á þingi. Þing er kallað saman með ráðherrabréfi ákveðinn dag, og svo stendur í greininni, eð þeir fái þóknun daglega fyrir þann tíma, sem þeir sitja á Alþingi, og svo er ráðh. hér að draga frá þá daga, sem fundir eru ekki haldnir. Lögfræðingar geta fundið upp á mörgu, þegar þeir eru að reyna að verja málstað sinn. Ég er svo hissa á þessari fjarstæðu, að ég á ekki orð til í eigu minni. Og þessi skýring kemur frá ráðherra!

Það orkar ekki tvímælis, að Alþingi situr frá þeim degi, er forseti kallar það saman, og þangað til því er slitið eða frestað. Þetta er eins auðskilið mál og mest getur verið. (PO: Þm. eiga sæti á Alþ. allt kjörtímabilið.) Ef hæstv. ríkisstj. vill láta skilja þetta á annan veg, verður hún að fá einhvern færari en mig í þfkn., ég mun aldrei láta hafa mig til að úrskurða kaup til nokkurs manns, eftir að búið er að fresta Alþ. Hins vegar get ég vel skilið, að hún vilji láta fresta Alþ., með því sparast 200–300 þús. kr., og Alþ. hefur verið að ræða um sparnað landsmanna undanfarið, svo að það er ekki úr vegi að það reyni sjálft að breyta þar eftir. En nú virðist ríkisstj. sjálf vilja, að þm. fái kaup, þó að þeir geri ekki neitt. Þá verður hún að fá einhvern annan til að samþykkja það. Það verður ekki ég, sem geri það.