20.12.1947
Neðri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Fyrir jól í fyrra bar einn af leiðtogum kommúnista, Áki Jakobsson, fram hér í þessari d. frv. með sama aðalefni sem liggur hér fyrir í lítið endurbættri útgáfu. Aldrei fyrr hefur verið gerð jafnkostnaðarsöm tilraun til að sanna bókstaf hinnar frægu skrumsögu um manninn, sem dró sjálfan sig á hárinu upp úr fúafeni. Ráðagerð kommúnista að leggja neyzluskatta á almenning, sem nema tugum milljóna, til að borga fyrir útlendinga mikið af andvirði stærstu og verðmestu útflutningsvörunnar mun vera algerlega fordæmalaus, enda var frv. borið fram í þeim tilgangi að eyðileggja útveginn sem sjálfstæða atvinnugrein og koma skattgreiðendum, sem stunda aðra atvinnu, á vonarvöl. Í það sinn var ég einn af þingmönnum um að greiða atkv. gegn frv. Leit ég svo á, að samþykkt þessa ábyrgðarmáls 1946 mundi marka línu í sögu landsins, því að sjálfstæð framleiðsla var þá látin þoka úr sessi fyrir allra lélegustu tegund þjóðnýtingar. Þegar þetta gerðist, voru tveir af borgaraflokkunum samverkamenn kommúnista um landsstjórnina, en hinn þriðji, Framsfl., var fyrir sitt leyti að búa sig undir að setjast á þann bekk. Nú ber ríkisstj. allra borgaraflokkanna þriggja fram hið sama mál, en þá bregður svo undarlega við, að kommúnistar snúast gegn sínu eigin hugarsmíði. Kunna kommúnistar, sem von er, vel við, að fulltrúar borgaraflokkanna hafa nú tekið tréhest þann, er þeir hafa smíðað og fyllt með banaráðum móti vestrænu atvinnufrelsi, og bera nú þennan smíðisgrip inn fyrir niðurbrotna múra íslenzks atvinnulífs. Ég get ekki átt samleið um frv. við upphafsmenn þess, sem nú hafa snúizt gegn því til að gera aðstöðu borgaraflokkanna ennþá óaðgengilegri. Ekki þykir mér frv. betra fyrir það, að fram hjá formanni S.Í.S., hæstv. menntmrh., sem er einn af núverandi flm. þess, hafa slæðzt inn í það meinlokur, svo sem það, að þar er gert ráð fyrir að leggja þungan skatt á skipti kaupfélagsmanna við sitt eigið félag, eins og um gróðafélag væri að ræða. Í ofanálag er stærsta og ríkasta hlutafélag landsins með heinum fyrirmælum laganna undanþegið þeim byrðum, sem annars eru lagðar á skattþegnana. Með þessari löggjöf hafa kommúnistar og borgaraflokkarnir ofið saman örlög sín í þessu máli á ótrúlegan hátt. Sýnist mér þess vegna einsætt, að þeir aðilar, sem fyrr eða síðar hafa gerzt stuðningsmenn hins þjóðnýtta útvegs, hafi þann vanda með höndum framvegis. Mun ég þess vegna sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.