20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3020)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Einar Olgeirsson:

Mér þykir mjög gaman að þessum upplýsingum. Þetta er mjög fróðlegt. Ég hef aldrei heyrt getið um þetta áður. Þeir um það, sem þau laun hafa fengið.

Forsrh. sagði í ræðu sinni, að hann efaðist um, að það væri hægt skv. 23. gr. stjskr. að hafa þingfrí fram til 15. jan. Ég hef undirstrikað það í ræðu minni áðan, að þetta er heimilt. Ég vil minna hæstv. forsrh. á, að 1945, í ársbyrjun, þá var gefið þingfrí a. m. k. fram til 10. jan., og þegar þingfundir hættu í des. 1944, var þinghlé til 10. jan., en ekki þingfrestun. Skv. 23. gr. stjskr. var samkomulag um þetta, og hafði enginn neitt við það að athuga. Ég held það sé þannig, að þessum lögum um formlega frestun á fundum þingsins, sem setja þingið í raun og veru út úr „funktion“, þurfi ekki að beita nú, þegar 23. gr. er athuguð. Hins vegar er hægt að framkvæma svona niðurfellingu á þingfundum, án þess að nokkuð slíkt komi til, og það meir en ½ mánuð. Það er á valdi forseta að gera slíkt, en engum forseta þykir rétt að nota slíkt vald án álits Alþingis, og Alþ. hefur fordæmi um það, að þingfundir hafa verið látnir falla niður um tíma, — hvort það væri til 10. eða 15. jan., skiptir ekki miklu. Ef það hefði verið gert, hefði þingið losnað við þessi leiðindi, að reka starfsfólk burt og borga því ekki kaup og ekki þm. heldur og að þrátta um, hvort heppilegt sé, að ríkisstj. hafi rétt til að gefa út brbl. Fyrir þessu er fordæmi. É man, að þetta var nokkuð rætt af ríkisstj. Ólafs Thors 1944.