19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3023)

57. mál, Alþjóðavinnumálastofnunin

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Eftir styrjöldina 1914–18 var ákveðið að setja á stofn í sambandi við Þjóðabandalagið stofnun, sem fékk nafnið Alþjóðavinnumálastofnunin. Grundvallarhugsunin við stofnun þessara samtaka var sú, að velmegun og varanlegur friður yrði aðeins reistur á félagslegu réttlæti. Þeim vísu mönnum, sem að þessu stóðu, þótti sýnt, að ekki yrði friðvænlegt í heiminum, nema öruggt félagslegt réttlæti ríkti innan allra þjóðfélaga. Alþjóðavinnumálastofnunin starfaði milli styrjaldanna og eftir að styrjöldin hófst 1939. Hún hafði frá upphafi aðsetur sitt í Genf í Sviss, eins og Þjóðabandalagið, en skömmu eftir að styrjöldin 1939–1945 hófst, fluttist hún til Kanada. Það þótti fyrirsjáanlegt, að hún mundi ekki geta haldið störfum áfram ótrufluð mitt á milli stríðsaðilanna. Þegar styrjöldinni lauk og Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, var Alþjóðavinnumálastofnunin endurskipulögð. Það vakti athygli á Íslandi, hvort ekki væri rétt, að Ísland gerðist þátttakandi í stofnuninni. Eins og réttarstaða Íslands var gagnvart Danmörku, þótti ekki öruggt, að Ísland gæti það. Í sambandi við þetta var vakin athygli á því í stríðinu, að rannsakað yrði, hvort Íslendingar gætu gerzt aðilar. Flutti ég till. um það á Alþ. 1943, að stjórninni yrði falið að rannsaka þetta. Þessi till. var samþ. og Þórhallur Ásgeirsson, þáverandi sendiráðsritari í Washington, sat sem áheyrnarfulltrúi allsherjarþing, sem stjórn Alþjóðavinnumálastofnunarinnar boðaði til í Philadelfíu 20. apríl 1944. Þegar stjórn Ólafs Thors var mynduð haustið 1944. var það eitt atriði í málefnasamningi þeirra flokka, sem að ríkisstj. stóðu, að Ísland skyldi gerast aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni. Samkvæmt því lagði þáverandi félmrh., Finnur Jónsson, till. til þál. fyrir Alþ. 1944 um að heimila stjórninni að sækja um upptöku og greiða kostnað við þátttökuna úr ríkissjóði. Þessi till. var samþ. samhljóða 7. des. 1944. Á fundi, sem háður var í París 1945, sótti stjórnin um upptöku. Ísland fékk inngöngu og tókst þar með á hendur þær skyldur, sem allir meðlimir inna af hendi, og fékk þau réttindi, sem fylgja. Ég gat þess áður, að það hefði verið grundvallarhugsunin við stofnun þessara samtaka eftir heimsstyrjöldina 1914–1918, að almennur og varanlegur friður yrði ekki tryggður, nema með félagslegu réttlæti. Í sambandi við þetta var það talin grundvallarhugsjón að vinna gegn atvinnuleysi, tryggja hæfileg laun til sæmilegrar lífsafkomu, vernda verkalýð gegn sjúkdómum og slysum, vernda börn, ungmenni og konur, koma á ellitryggingum og örorku, gæta hagsmuna verkamanna, sem ráðnir eru til starfa utan heimalands síns, afla viðurkenningar á þeim meginreglum, að sömu laun komi fyrir sama starfa, svo og að menn séu frjálsir að því að stofna félög, þar með talin verkalýðs- og iðnfélög.

Einn þátturinn í því að framkvæma þessa yfirlýstu stefnu þessara samtaka er það, að þing eru haldin árlega um þessi efni, þar sem mæta fulltrúar fyrir þrjá aðila. Í fyrsta lagi fyrir þau ríki, sem í sambandinu eru, í öðru lagi fyrir verkalýðssamtök þeirra þjóða, sem þarna eiga hlut að máli, og í þriðja lagi fyrir atvinnurekendasamtök sömu landa. Þessi þing ræða svo þau málefni í samræmi við yfirlýsta stefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og gera ýmsar ályktanir um þau, og fulltrúar þeirra ríkja, sem þessi þing sækja, leitast svo við að koma slíkum ákvörðunum í l., hver í sínu landi, þar sem þær hafa ekki verið þegar bundnar í l.

Auk þessara þinga starfar svo stjórnin, sem valin er af samtökunum og þingum þeirra, og þar að auki halda samtökin uppi mjög myndarlegri upplýsingarstarfsemi og hafa miklar skrifstofur, sem upprunalega voru í Genf í Sviss. Var þar byggt stórt hús fyrir þessa starfsemi og komið upp því fullkomnasta bókasafni, sem til er í heiminum um félagsmálefni, og árlega sendir skrifstofan frá sér sem allra nákvæmastar skýrslur um hag og horfur í félagsmálefnum þeirra landa, sem eru innan þessara samtaka.

Þegar Alþjóðavinnumálastofnunin var endurreist eða endurskipulögð, því að þessarar starfsemi gætti miklu minna á stríðsárunum, þá var fundur haldinn í Philadelífu í maí 1944, þar sem gerð var yfirlýsing, sem átti að verða leiðarljós fyrir áframhaldandi starfsemi sambandsins, og segir svo í þeirri yfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta: „Allsherjarþingið staðfestir grundvallarreglur þær, sem stofnunin er reist á, og þá einkum þessar: a) að vinnan er ekki verzlunarvara, b) að málfrelsi og félagafrelsi er frumskilyrði áframhaldandi framfara, c) að fátækt, hvar sem er, stofnar hagsæld um víða veröld í voða, d) að baráttu gegn skorti þarf að heyja með óbilandi þrótti innan sérhvers þjóðfélags og með stöðugri og samræmdri alþjóðaviðleitni, þar sem fulltrúar verkamanna og vinnuveitenda eru jafnréttháir fulltrúum ríkisstjórna og leggja lag sitt saman um að vinna að því með frjálsum umræðum og lýðræðislegum ákvörðunum að auka sameiginlega hagsæld.“

Þetta var, eins og ég sagði áðan, eins konar undirstrikun og nánari útfærsla á þeirri grundvallarhugsjón, sem sett var fram við stofnun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Eins og ég gat um áðan, gerðist Ísland aðili að þessum samtökum árið 1945 samkvæmt einróma ályktun Alþ.

Fyrir þá, sem vilja sækja þing þessarar Alþjóðavinnumálastofnunar, þá verða þeir að fara eftir settri reglu um slíkt. Allsherjarþingið er þannig skipað, að þar eiga sæti fjórir fulltrúar að minnsta kosti. Og eru þá tveir þeirra tilnefndir af ríkisstj. hvers lands, þannig að tveir þeirra eru sérstakir fulltrúar ríkisstj., en annar hinna tveggja skal tilnefndur eftir ábendingu frá heildarsamtökum atvinnurekenda, en hinn eftir heildarsamtökum verkamanna hvers lands. Meðal stærri þjóðanna eru þessir fulltrúar miklu fleiri og hafa sér til aðstoðar ýmsa sérfræðinga, en hægt er að komast af með fulltrúa, sem ekki eru fleiri en þessir fjórir.

Íslendingar greiða árlega samkvæmt reglu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til hennar eina einingu af árstillagi hennar, sem mun nema um 5 þús. dollara. Hins vegar greiða stórþjóðirnar margar slíkar einingar, og mun slíkt tillag jafnvel skipta millj. kr., eins og t. d. hjá Bandaríkjunum. Svíþjóð greiðir 95 þús. dollara, Danmörk 55 þús. dollara, Noregur 44 þús. dollara og Finnland 22 þús. dollara.

Ég skal taka það fram í þessu sambandi, að ég sá nýlega í einu dagblaðinu hér í Reykjavík, að það ætti að geta verið nokkurs konar prófraun á sparnaðarvilja Alþ., hvort það samþykkti eða staðfesti þá þáltill., sem hér liggur fyrir, og var þar gefið í skyn, að með því væru Íslendingar að binda sér fjárhagslegan bagga. Þessi frásögn er algerlega á misskilningi byggð, þar sem íslenzka ríkið hefur fyrir röskum tveim árum síðan tekið þá ákvörðun á lögformlegan hátt að gerast aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni og verið virkur þátttakandi í samtökum þeirrar stofnunar. Till. sú, sem hér liggur fyrir, er ekki neitt annað en það að veita ríkisstj. heimild, eins og það er orðað, til þess fyrir Íslands hönd að fullgilda stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eins og hún nú liggur fyrir á fskj., sem prentað er með þáltill. þessari.

Í raun og veru var Ísland, með því að gangast undir skyldur og taka þátt í fundum þessarar Alþjóðavinnumálastofnunar, búið að staðfesta stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. En með því að gerðar hafa verið nokkrar breytingar á stofnskrá hennar á síðasta þingi þessara samtaka, þá þykir rétt, að hvert ríki fyrir sig, sem í þessum alþjóðasamtökum er, staðfesti þessa stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eins og henni nú hefur verið breytt á allsherjarþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Íslendingar hafa, að ég hygg, verulegra hagsmuna að gæta í sambandi við þátttöku sína í þessum alþjóðasamtökum. Það er ekki nokkur vafi um það, að ráðagerðir og upplýsingar og áhrif, sem Íslendingar geta fengið og orðið fyrir með þátttöku sinni í slíku sambandi, munu verða til þess að hrinda áleiðis fullkomnari félagsmálalöggjöf og betri og fullkomnari framkvæmd hennar. En ég er þeirrar skoðunar — og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. séu það yfirleitt —. að því betri og tryggari félagsmálalöggjöf sem við höfum, því meira fjárhagslegt öryggi sköpum við íslenzku þjóðinni allri, og þeim mun meiri líkur eru til þess, að íslenzka þjóðin geti lifað í landi sínu meira og betra menningarlífi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þessi stofnskráratriði, sem prentuð eru hér sem fskj. með þáltill., en ég hef leyft mér með þessum orðum að rekja aðdragandann að stofnun þessara alþjóðavinnumálasamtaka og afstöðu Íslands til þeirra.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að umr. málsins verði frestað og því verði vísað til hv. allshn. Sþ. til athugunar.