26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (3034)

96. mál, hafnargerð við Dyrhólaey

Flm. (Jón Gíslason) :

Herra forseti. Nú á síðustu árum hefur vaknað áhugi hjá Vestur-Skaftfellingum á því að fá úr því skorið, hvort mögulegt sé að gera höfn við Dyrhólaey. Af þeim rótum er það runnið, að ég flyt þessa þáltill. Það er ekki svo, að þetta mál sé nýtt. Það kom fyrst á dagskrá um síðustu aldamót. Þá buðust Englendingar til þess að gera þarna hafskipahöfn, gegn leyfi til að fá að fiska í landhelgi á svæðinu frá Vestmannaeyjum að Ingólfshöfða um nokkra áratugi. Þetta var af eðlilegum ástæðum ekki veitt. Svo var á Alþ. 1942 samþ. ályktun um athugun á lendingarbótum við Dyrhólaey eða Dyrhólaós. en ekkert varð úr framkvæmdum.

Staðhættir við Dyrhólaey eru þeir, að eyjan stendur fram í sjó, en innan við hana er stöðuvatn, sem heitir Dyrhólaós. Leikmönnum hefur nú dottið í hug, að mögulegt væri að gera þetta stöðuvatn að skipalægi. Vatnið er grunnt, en auðvelt er að dýpka það, því að botninn er sandur og leðja. Vatnið er skilið frá sjónum með sandfjöru og er útfall stundum austan við bergið. Það, sem þyrfti að athuga, er, hvort mögulegt væri að gera innsiglingu í ósinn og halda henni opinni. Dyrhólaey sjálf skapar varnargarð að vestan, en að austan þyrfti að gera varnargarð. En allt er þetta enn órannsakað. — Hvergi er meiri þörf hafnarbóta en við suðurströndina, þar sem segja má, að algert hafnleysi sé frá Reykjanesi til Hornafjarðar, og ekki er annar staður heppilegri en við Dyrhólaey. Allt síðan þetta kom fyrst til tals, hefur það verið óskadraumur Skaftfellinga og líka margra sunnlenzkra fiskimanna. Meðfram ströndinni á þessum slóðum, frá Hornafirði til Vestmannaeyja, eru kraftmiklar fiskigöngur, sem eru lítt eða ekkert notaðar af íslenzkum skipum, nema bátar frá Vestmannaeyjum munu sækja þangað þegar gott er veður, að Kötlutanga og lengst að Kúðaós. Venjulega er það ekki hægt, vegna þess hve vegalengdin er mikil. Erlend skip moka þarna upp afla, en íslenzk skip sér maður ekki. Eins og ég gat um áður, eru þarna á vetrarvertíð kraftmiklar fiskigöngur, og fiskurinn gengur svo nærri, að þess eru hvergi dæmi. Sem dæmi um, hversu nærri landi þessar fiskigöngur fara, get ég getið þess, að algengt er, að þorskurinn syndir upp í fjöruna stundum í hundraða tali. Það er því handhægt að sækja, og ekki langt á miðin. Þess má líka geta, að síldar verður oft vart við suðurströndina á tímabilinu febrúar–ágúst. Fyrir fjórum til fimm árum hef ég sjálfur lent í því um mánaðamótin apríl–maí að tína saman á austanverðum Mýrdalssandi rétt vestan við Dyrhólaey stóra, spikfeita hafsíld, sem farið hafði þar í land. Þriðja dæmið er, að komið hefur fyrir, að síld hefur farið inn í Dyrhólaós og veiðzt þar í silunganet. Fjórða dæmið, sem ég get nefnt, er, að í ágúst 1946 var sléttur sjór í Vík í Mýrdal, og óð þá síldin í stórum torfum inn á Vík dag eftir dag. Þetta vekur menn til umhugsunar um, að á þessum slóðum muni oft vera síld. Ef þess er minnzt, að síldin er búin að vera rétt við hafnargarðinn í Rvík án þess að láta á sér bæra, þá bendir það til þess, að hennar sé ekki síður von á þessum slóðum.

Ég held, að ég hafi nú sýnt fram á, að ef hægt er að gera þarna höfn, verður það mikilsverð fiskihöfn. Það er svo annað atriði, sem ekki þarf að ræða og öllum er ljóst, hve mikils virði slík höfn yrði fyrir hinar afskekktu sveitir Vestur-Skaftafellssýslu og austurhluta Rangárvallasýslu. Skaftfellingar verða að flytja alla flutninga 200–325 km langa leið, eins og nú háttar.

Allar líkur benda til þess, að þarna séu miklir möguleikar til framfara, ef höfn verður byggð. Við Dyrhólaós eru ágæt skilyrði til ræktunar. Hann er í miðjum Mýrdal, sem er ein blómlegasta sveit á Suðurlandi. Þar er nóg land til ræktunar og auðvelt um ræktun. Sömuleiðis eru möguleikar til rafvirkjunar í Skógá, sem ekki er langt burtu.

Ég vona, að þessi þáltill. hljóti góðar undirtektir hjá hv. þm. og geri það að till. minni, að henni verði vísað til allshn.umr. lokinni.