04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3037)

96. mál, hafnargerð við Dyrhólaey

Frsm. (Jón Gíslason) :

Herra forseti. Allshn. hefur haft þessa þáltill. til athugunar á tveimur fundum sínum og hefur sent hana til umsagnar til Fiskifélags Íslands og vitamálastjóra. Báðir þessir aðilar hafa sent svör. Fiskifélagið, eða stjórnin, lagði til, að hún yrði samþ., en vitamálastjóri og hafnarstjóri hafa skrifað bréf, sem birtist hér með sem fskj. Í því bréfi vaxa þeim í augum þeir erfiðleikar, sem þeir búast við, að séu fyrir hendi við hafnargerð í Dyrhólaey. N. telur málið það mikilsvert, að rétt sé að gera þær athuganir, sem leitt geta í ljós, hvort þarna sé mögulegt að framkvæma verklegar framkvæmdir eða ekki. Að þessum svörum athuguðum hefur n. komið sér saman um að leggja til, að þáltill. yrði samþ. með nokkrum orðabreyt., þannig að Alþ. ályktaði að fela ríkisstj. að láta framkvæma á næsta sumri rannsóknir í þá átt, hvort unnt væri að gera þarna höfn, og að kostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Einn nm. var ekki viðstaddur við afgreiðslu þessa máls, en í viðtali við mig síðar lýsti hann yfir því, að hann væri sammála öðrum nm. um afgreiðslu málsins. — N. væntir þess, að málið fái góðar undirtektir hjá þm.