21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (3052)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir undirtektir hans í þessu máli og það, sem hann hefur gert. Það leiðir af sjálfu sér, að íslenzka ríkisstj. þarf að gera þá hernaðaraðila, sem hlut eiga að máli, ábyrga fyrir því, að þessar girðingar verði fjarlægðar, svo að þær valdi ekki áfram öðru eins tjóni og þær gera nú. Það er ekkert áhlaupaverk að fjarlægja þetta, því að þarna voru settir niður ákaflega þungir steinsteyptir búkkar, sem bæði voru notaðir til þess að halda niðri girðingunni og til annarra nota. Það eina, sem var tekið burtu, voru flotholtin, og eftir því sem málið horfir við, hefur girðingunum og öllu verið sökkt og liggur þar.

Það, sem gert hefur verið, er það, að látnar hafa verið tvær baujur hvor á móti annarri við innsiglinguna og einnig sett bauja við Hnausasker, sem er hættulegt og einn bátur hefur strandað á. Fleiri lýsingar í firðinum er mér ekki kunnugt um, en það, sem er nauðsynlegt, er að setja eina eða tvær ljósbaujur einmitt á girðingarsvæðið. Það er nauðsynlegt fyrir fiskimenn að geta vel áttað sig á því, og vil ég vænta þess, að hæstv. sjútvmrh. geri nú ráðstafanir til að setja ljósmerki þarna, auk þess sem gerðar verði ráðstafanir um að hreinsa fjörðinn. Við þessa girðingu lágu tvö skip, trjánuskip, sem voru til þess að vakta innsiglinguna á fjörðinn og til þess að laga girðinguna, þegar hún var í ólagi, sem átti sér stað oft í vondum veðrum.

Ég vænti, að ráðh. sjái um, að þessar varnarráðstafanir verði gerðar með ljósmerkjum á þessu svæði, því eins og hann sagði munu vera erfiðleikar á því. með þeim skipakosti, sem við höfum, að framkvæma fullnaðarhreinsun þarna.