10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (3088)

168. mál, erfðalög

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, er þannig gerð, að óþarft virðist að fjölyrða um hana, því að þar er mjög einfalt mál, sem mörgum mun virðast vera sjálfsagt. Þessu máli hefur verið hreyft áður hér á þingi, því að erfðal. eru nú orðin mjög úrelt og margar breyt. þar á orðnar, sem allir sjá, er það athuga. Áður á tímum fylgdist að erfðaréttur og framfærsluskylda. Nú má heita, að framfærsluskyldan sé horfin nema þar, sem skyldleiki er allra nánastur, en erfðarétturinn er nærri því eins og hann var áður langt fram í aldir. Þau fyrirmæli, sem gilda um erfðarétt okkar, eru í Norsku lögum og þó aðallega í tilskipuninni frá 1850. Margt af þessum fyrirmælum er orðið mjög svo úrelt. Nokkru eftir að þessi till. var lögð fram, barst mér rit. sem dr. Björn Þórðarson hefur skrifað og nýlega er komið út um þetta efni. Sýnir hann fram á með dæmum, hvað þetta er orðið afskaplega úrelt, þar sem arfur getur dreifzt þannig, að þótt hann nemi allur tugum þúsunda, þá geta erfðahlutarnir orðið milli 10 og 20 kr.

Ég geri ráð fyrir, að þótt þessi endurskoðun hafi ekki farið fram hjá fyrrv. stj., þá muni hæstv. núv. stj. taka þessu máli mjög vel. Ég vil eindregið óska þess, að málið nái fram að ganga. En af því að nú er mjög liðið á þingtímann, mun ég ekki gera till. um, að málið fari í n. Ég tel það óþarft, þar sem málið er mjög einfalt. Þess vegna geri ég ekki uppástungu um n., nema hæstv. stj. sjái einhverja ástæðu til þess.