10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (3089)

168. mál, erfðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Dal. fyrir að hreyfa þessu máli, af því að ég er honum mjög sammála um, að erfðal. þurfa gagngerrar endurskoðunar. Ég tel svo ástatt um málið, að ég sé ekki ástæðu til, að það fari til n., en vil þó hafa þann fyrirvara, þótt það sé ekki berum orðum fram tekið, að ég mundi telja mér heimilt að verja einhverju fé úr ríkissjóði til að greiða fyrir aðstoð, sem rn. fengi við slíka endurskoðun, því að starfsmenn stjórnarráðsins eru svo störfum hlaðnir, að hæpið er að ætla þeim að vinna að endurskoðun heilla lagabálka, og það er hæpið, að stjórnarráðið hafi næga sérfróða menn, sem hafi tóm til að semja slíka lagabálka. Það hefur verið venja, þegar slíkir lagabálkar hafa verið samdir, að til þess hafa verið kvaddir sérfróðir menn, sem hefur þá verið greitt nokkuð fyrir það úr ríkissjóði.

Ég vil lýsa yfir, jafnframt því sem ég gleðst yfir, að till. er fram komin og vona, að hún verði samþ., að ég mundi telja mig hafa, þó að það sé ekki sagt berum orðum, heimild til að verja hæfilegu fé úr ríkissjóði í þessu augnamiði.